15.07.1931
Sameinað þing: 1. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (2519)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 3. kjördeildar (ÁÁ):

Þessi kjördeild hafði til meðferðar 12 kjörbréf, þeirra Bjarna Snæbjörnssonar, Einars Arnórssonar, Einars Árnasonar, Haralds Guðmundssonar, Ingólfs Bjarnarsonar, Jóhanns Jósefssonar, Jónasar Þorbergssonar, Jörundar Brynjólfssonar, Lárusar Helgasonar, Ólafs Thors, Tryggva Þórhallssonar og Þorleifs Jónssonar.

Kjördeildin leggur til, að öll þessi kjörbréf verði samþ. Kjörbréf Ólafs Thors hafði að vísu gleymzt heima, en fyrir lá útskrift úr fundarbók yfirkjörstjórnar. Kæra lá fyrir frá Einari M. Jónassyni fyrrv. sýslumanni um kjörgengi Einars Árnasonar, en ekki sá deildin ástæðu til að taka hana til greina.

Út af kosningu Jörundar Brynjólfssonar höfðu og borizt athugasemdir úr Biskupstungnahreppi. Samþykkti kjördeildin, án þess að leggja þar á frekari dóm, að eftirfarandi athugasemdir væru lesnar upp úr kjörfundargerð Biskupstungnahrepps:

„Þær athugasemdir leyfum vér undirritaðir okkur að gera við kosningu til Alþingis í Biskupstungnahreppi, sem fram fóru 1931, er hér segir:

1. Kjörskrá hafði aldrei legið frammi til sýnis s. l. vetur, svo að þeir gátu ekki í tíma gert athugasemdir, sem ranglega höfðu fallið niður af henni.

2. Engin aukakjörskrá hafði verið samin, svo að mönnum þeim, sem búnir voru að vera heilt ár í sveitinni og að öðru leyti bar að standa á kjörskrá, var þannig bægt frá kosningu.

3. Kjörbók sú, sem fylgja átti kjörkassa til yfirkjörstjórnar, var eigi til staðar né lykill kjörkassa, svo að honum varð eigi aflæst, eins og tekið er fram í framanritaðri fundargerð.

4. Kjörstjórn var eigi kosin fyrr en á kjördegi. Er það lögmætt?

5. Það er að minnsta kosti óviðkunnanlegt, ef ekki lögleysa, að einn frambjóðandi sé í kjörstjórn, meira að segja oddviti kjörstjórnar.

6. Vitanlegt er, að annar maður hafði fengið kjörgögn sem oddviti kjörstjórnar eða sem settur hreppstjóri og hjá honum farið fram heimakjör, auk þess heimakjörs, sem fram hefir farið hjá hinum skipaða hreppstjóra.

d. u. s.

Eiríkur Þ. Stefánsson

Sigurður Guðnason.

Þessum athugasemdum leyfir kjördeildin sér að skjóta til stjórnarinnar. En þar sem þeir ágallar, sem kvartað hefir verið yfir, hafa á engan hátt getað haft áhrif á úrslit kosningarinnar, leggur kjördeildin til, að kjörbréf Jörundar Brynjólfssonar sé tekið gilt.