15.07.1931
Sameinað þing: 1. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í B-deild Alþingistíðinda. (2521)

Rannsókn kjörbréfa

Jörundur Brynjólfsson:

Það er fjarri því, að ég sé að hafa á móti því, að þetta mál sé athugað. Hins hefði ég vænzt, að hv. kjördeild hefði athugað, að hve miklu leyti þessar kvartanir eiga við rök að styðjast. Mér virtist hv. 2. landsk. heldur eigi hafa áttað sig á því, hvenær kjörskrá sú, er kosið var eftir, var samin. (JBald: 1930). Hann átti þá ekki að taka munninn svo fullan. Ég veit ekki, á hve miklum rökum það er byggt, að kjörskrá hafi ekki legið frammi frá síðastl. vetri. En sú kjörskrá, sem kosið var eftir, lá frammi.

En þessi atriði eru þess eðlis, að þau snerta alls ekki þessa kosningu. Þeir menn, sem búsettir höfðu verið í eitt ár í Biskupstungum síðastl. vor, áttu ekki að standa þar á kjörskrá, heldur í því byggðarlagi, sem þeir voru frá. Þessi aths. er því ekki réttmæt.

Þá er getið um það, að kjörbók, sem fylgja átti kjörkassa, og lykil að honum, hafi vantað. Þetta er rétt, enda er þess getið í gerðabók kjörstjórnar. Kjörstjórnin hafði ekki fengið þessi gögn í hendur, og hún gat ekki úr því bætt, nema með því að innsigla atkvæðakassann, og það gerði hún rækilega, eins og yfirkjörstjórn mun geta vottað.

Næst er fundið að kosningu eins manns í kjörstjórn. Hreppsnefnd hafði láðst að gera það á þeim tíma, sem venja er til, og kaus hún því þennan mann sama dag og kosning fór fram. Mér er ekki kunnugt um, að lög tiltaki neinn ákveðinn tíma, þegar þessi kosning skuli fara fram.

Þá er það talið óviðeigandi, ef ekki ólöglegt, að einn frambjóðandinn sé í kjörstjórn, og ekki sízt oddviti kjörstjórnar. Nú mæla lög svo fyrir, að hreppstjóri skuli vera oddviti kjörstjórnar, og hvergi er nokkur lagastafur fyrir því, að hann eigi að víkja, þótt í kjöri sé. Það kann vel að vera, að þetta sé óheppilegt, en ég þekki þess engin dæmi, að hreppstjórar hafi vikið sæti úr kjörstjórn, enda þótt þeir hafi einnig verið í kjöri.

Þá er síðasta atriðið, sem vikið er að í kærunni, að settur hreppstjóri hafi veitt móttöku kjörgögnum. Í fjarveru minni kaus hjá hinum setta hreppstjóra einn maður, en undir eins og ég kom heim, sótti ég þessi gögn, og eftir það voru þau hjá mér. Mér virðist sem nær hefði verið að kvarta yfir því, ef ekki hefði verið maður til þess að sinna þeim, er kjósa vildu, heldur en því, að þetta var gert.

Þetta vildi ég upplýsa, enda láta þá aths. fylgja, sem ég lét bóka í kjörfundargerðinni og ég skal lesa upp:

„Settur hreppstjóri veitti heimakjörgögnum móttöku í fjarveru hreppstjóra. Hjá honum voru greidd atkvæði á löglegum stað og tíma og aðeins á meðan hreppstjóri var fjarverandi“.

Eins og ég gat um í upphafi, er öðru nær en að ég amist við því, þótt kjörbréfanefnd taki þessi atriði til athugunar, en ég býst við, að einkar lítið verði á því að græða, enda eru kæruatriðin að meira eða minna leyti óviðkomandi þessum kosningum.