21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (2559)

Stjórnarmyndun

Jón Þorláksson:

Eftir að stj. greip til þess óyndisúrræðis 14. apríl síðastl. að reka Alþingi frá störfum með beinu og beru stjórnarskrárbroti, var ljóst, að dagar hennar voru taldir. Var það viðurkennt af stj. sjálfri og flokki hennar, með því að tveim dögum síðar voru tveir ráðherranna látnir fara, og stj. skoðaði sig sem bráðabirgðastj. Nú hefir annar þessara ráðh. aftur verið innbyrtur, og án þess að fara nánar út í hinar mörgu ávirðingar hans, vil ég segja það, að það nær engri átt að taka hann nú aftur upp í stjórnarsess og skoða sem fullpólitískan ráðh., eins og hæstv. forsrh. komst að orði. Við sjálfstæðismenn getum ekki litið á stj. öðruvísi en sem bráðabirgðastj., og er ekki hægt að líta öðruvísi á hana, þó að þingmeirihluti hafi nú aftur orðið að taka inn í stj. þann ráðh., sem brotlegastur var af öllum.