21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (2562)

Stjórnarmyndun

Jón Baldvinsson:

Af því að umr. hafa snúizt um þingrofið og dómsmrh. sagði, að það væri ekkert lögbrot, get ég ekki látið hjá líða að lýsa yfir þeirri skoðun minni, að stj. hafi með þingrofinu brotið stjórnarskrá hins íslenzka ríkis, eins og hún er skilin og túlkuð af Íslendingum. Í Danmörku hefir þetta verið túlkað á vinsamlegan hátt fyrir framsóknarstj., og hefir þar miklu um ráðið, að Danir héldu, að Framsókn væri sér öðrum flokkum vinveittari, þó að það geti e. t. v. verið rangt. Þessi tilfinning hefir líklega verið ráðandi í þessari vinsamlegu túlkun danskra lögfræðinga, stjórnmálamanna og blaða. En þó er jafnvel í þessari vinsamlegu túlkun stundum talað um harðræði, og bendir það í þá átt, að lögfræðingar hafi ekki verið alveg öruggir um það, að stj. hafi þarna farið rétta leið. Annars hafa þessir útlendu menn auðvitað ekki skilyrði til að vita, hver er ráðandi skilningur á stjórnarskránni hér á landi.

Dómsmrh. sagði, að þjóðin hefði látið í ljós vilja sinn um þetta mál við kosningarnar. Þetta er rétt, þannig, að 36% af kjósendum hafa verið sammála stj. um það, að hún hafi gert rétt, og er þó ekki víst, að allir kjósendur Framsóknar hafi álitið svo, sem rétt væri gert, en 64% af kjósendum hafa skoðað þetta sem lögbrot. Og engum framsóknarmanni dettur í hug að verja þetta rangláta kosningafyrirkomulag, þótt ekki sé von, að þeir vilji breyta því óneyddir, þar sem það myndi svipta þá meiri hl. á þingi. Hæstv. dómsmrh. sagði, að ekki kæmi annað til greina en þingmannatala, og skírskotaði í venju þá, sem ríkti í nágrannalöndunum. Þetta er ekki rétt. Öllum kosningafregnum frá útlöndum fylgir ekki eirasta þingmannatala, heldur líka kjósendatala. Myndi það ekki þolast í nokkru þingræðislandi, að stjórn, sem væri fulltrúi eins lítils hluta landsmanna og framsóknarstj. er, færi með völd.

Ég hefi áður vikið að því, í sambandi við umr. um till. til þál. um kjördæmaskipunina, að í Englandi hefir stj. alltaf haft meiri hl. kjósenda á bak við sig. Verkamannaflokkurinn hefir rúml. 8 millj. atkv.,íhaldsmenn um 8½ millj., en frjálslyndi flokkurinn um 4 millj., og styður hann stj., svo að stjórnarandstæðingar eru í miklum minni hl. Stj. hefir rúml. 12 millj. atkv. á bak við sig á móti 8½ millj., sem andstæðingarnir hafa. Myndi ekki þolað þar í landi, að flokkur, sem væri í miklum minni hl. hjá kjósendum landsins, myndaði stjórn.