21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (2564)

Stjórnarmyndun

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 2. landsk. gerði þingrofið í vor að umtalsefni. Ég hafði sagt, og hv. 2. landsk. viðurkennt, að skoðanir Einars Arnórssonar, sem Íhaldið byggði á aðgerðir sínar dagana 14.–21. apríl, hafi engan stuðning fengið erlendis. Hér á landi munu flestir lögfræðingar vera í Íhaldsflokknum, og þó kom honum enginn stuðningur frá þeim, nema máske tveimur, sem sæti áttu á þingi. En erlendis gekk enginn málsmetandi maður inn á. skoðanir Einars Arnórssonar.

Hv. 2. landsk. sagði, að þótt danskir lögfræðingar hefðu ekki talið þingrofið stjórnarskrárbrot, hefðu þeir þó litið svo á, að vantraustsumræður hefðu átt að fara fram, áður en þing var rofið. Þetta snertir auðvitað alls ekki hina lögfræðilegu hlið málsins, heldur er þetta persónuleg skoðun um pólitískt atriði. Hérlendir menn létu í ljós sína skoðun á vantraustsyfirlýsingunni við kosningarnar síðustu með þeim árangri, sem kunnur er orðinn.

Hv. 1. landsk. gerði sjálfum sér þann bjarnargreiða, eins og oft áður, að fara að tala um Helga Tómasson. Þetta tvennt, flugumennska Helga Tómassonar og lögskýringar Einars Arnórssonar, hefir sett blett á íslenzka fræðimennsku og rýrt álit okkar erlendis, eins og framkoma hv. l. landsk. sjálfs í sambandi við fyrra afbrotið á hátíðarþinginu í fyrra. Hv. 1. landsk. og hv. 2. landsk. vita það vel, að þótt héðan bærust í fyrstu litaðar fréttir frá ísl. blöðum, er gáfu skýringar á þingrofinu, sem voru stjórninni fjandsamlegar, fór svo, að allur hinn skandinavíski blaðaheimur hallaðist að skoðun ísl. stjórnarinnar. Það kom fram í ræðu hv. 2. landsk., að ýmsir skoðanabræður hans í Danmörku hefðu ekki tekið vel í afstöðu Íhaldsins og sósíalista í þessu máli. Þetta stafar ekki af því, að hinir dönsku sósíalistar óski ekki ísl. jafnaðarmönnum alls góðs, og hv. 2. landsk. sé ekki persónulega í góðu áliti meðal þeirra, heldur af því, að þeir sáu, að lögskýringar Einar Arnórssonar voru rangar, en stjórnin hafði haft lög að mæla. Má það teljast lán mikið, að við fengum ekki harðari dóm en raun varð á fyrir afskipti Einar Arnórssonar af þessu máli, lagaprófessorsins, sem ekki þekkti stjórnárskrá sins eigin lands.

Hv. 2. landsk. vildi halda því fram, að það væri brot á stjskr., að stjórn færi með völd, sem ekki hefði meiri hl. kjósenda á bak við sig, hversu öflugan þingmeirihl. sem hún styddist við. Ég vænti þess, að hv. þm. komi síðar með þau gögn, sem hann byggir þessa fullyrðingu sína á, því að þau hafa ekki enn komið fram. Hingað til hefir verið álitið, að sú stjórn væri löglega mynduð, sem meiri hl. þings myndar.

Mér þykir leiðinlegt, hvað hv. 1. landsk. er óánægður með, að ég sé í stjórninni.

Sennilega er aðalástæðan til þess sú, að honum er ljóst, að ég hefi leiðrétt ýmsar misfellur undanfarin ár, sem hann og hans flokkur bar ábyrgð á. Mér þykir rétt að rifja upp eitt dæmi frá okkar pólitíska ferðalagi í sumar þessu til sönnunar.

Í nálega 20 ár hefir verið endurkosinn í Barðastrandarsýslu þm., sem er flokksbróðir hv. 1. landsk. Þessi maður, sem nú er fyrrv. þm., Hákon Kristófersson, er mjög vinsæll þar vestra, jafnt af pólitískum flokksbræðrum sem andstæðingum. Nú féll hann í vor með hinum afskaplegasta ósigri fyrir ungum framsóknarmanni, nýkomnum í héraðið.

Við, hv. 1. landsk. og ég, fórum í pólitískan leiðangur þangað vestur fyrir kosningarnar. Ég byrjaði stundum ræður mínar þar vestra á því að segja, að þótt við værum báðir persónulega óþekktir þar í héraðinu, hefðum við samt báðir þar okkar forsögu sem ráðherrar, og fólk gæti nokkuð markað stefnu flokkanna af þeirri afstöðu okkar. Íhaldsmaður hafði veitt Einari D1. Jónassyni sýsluna, og hv. 1. landsk. hafði verið fjmrh. í 4 ár, án þess að hann sæi eða létist sjá nokkrar misfellur á embættisrekstri hans. Með því hafði hv. 1. landsk. sýnt skoðanir sínar á embættisfærslu og mátt til að stjórna í þessu héraði.

Ég hafði ekki áður haft nein afskipti af Barðastrandarsýslu, en af því að ég vissi, að allt gekk á tréfótum hjá Einari M. Jónassyni, íslenzkum embættisrekstri til skammar og sýslunni til niðurdreps, vék ég honum frá embætti að undangenginni rannsókn og valdi þangað í staðinn einhvern álitlegasta lögfræðinginn á landinu, því að mér fannst, að sýsla, sem lengi hafði búið við slíkt yfirvald sem E. M. J., ætti skilið að fá uppbót. Nú var reynt í Barðastrandarsýslu: Stjórnarstefna hv. 1. landsk., sem kom fram í embættisrekstri E. M. J., og mín, sem kom fram í embættisfærslu Bergs Jónssonar. Annarsvegar í kosningabaráttunni stóð Bergur Jónsson, sem var nýkominn í sýsluna og flestum ókunnur, en hinsvegar hinn vinsæli þm., sem setið hafði á þingi í nálega 20 ár samfleytt.

Þegar hv. 1. landsk. kom úr kosningaleiðangrinum, lét hann svo um mælt, að áhöld myndu vera um atkvæðamagn þessara tveggja manna, en þó myndi Hákon Kristófersson verða heldur drýgri. Svo blindur var hann fyrir því, að hann hefði eyðilagt kjördæmið með stjórnarafskiptum sínum, eða öllu heldur stjórnleysi. Það hefir því hlotið að vera reiðarslag fyrir Íhaldsflokkinn, er það kom á daginn, að sá maður, er ég hafði skipað þar sem sýslumann, hafði fengið um 800 atkv., en hinn vinsæli gamli þm. ekki nema um 400.

Það er vitanlega hægt að segja, að ég hafi farið illa með mitt umboð, en það er annað að sanna það. Ég býst við, að þegar tími er til að ræða það mál, sjáist, að á ótal sviðum hefir persónu- og stefnumunur hv. 1. landsk. og mín komið fram á sama hátt og hér. Hv. 1. landsk. hefir séð dæmi þess í Barðastrandarsýslu, hve lítils ísl. þjóðin virðir það, þótt hann komi og tali máli síns flokks. Hygg ég þó, að verk hans hafi spillt enn meira fyrir honum þar vestra en ræður hans. (JBald: En kjördæmaskipunin?). Kosningin í Barðastrandarsýslu gat ekki snúizt um hana, þar sem Hákon Kristófersson tjáði sig andvígan breyt. á núv. kjördæmaskipun.

Ég þarf ekki að verja mig, en vil aðeins benda hv. 1. landsk. á þá dóma, sem við sjálfir og stjórnarstefnur okkar hafa fengið hjá þjóðinni. Hans flokkur getur þar hrósað sér af tveim kosningaósigrum í röð, en Framsóknarflokkurinn hefir hinsvegar orðið fyrir því undarlega happi að bæta 4000 atkv. við sig við síðustu kosningar, og það þótt tveir harðsnúnir flokkar stæðu sameinaðir á móti. Vitanlega hefði útkoman hjá Framsóknarflokknum orðið enn glæsilegri, ef baráttan hefði verið þríhyrnd. Ekkert sýnir betur, hve óbjörgulega lítur út fyrir hv. l. landsk. en það, að flokkur hans er alltaf að minnka. Það hefir ekki komið fyrir í nokkru nálægu landi, að stjórnarflokki hafi aukizt svo fylgi sem Framsóknarflokknum við kosningarnar í vor. Sá landsdómur, sem hv. 1. landsk. var að krefjast, hefir þegar gengið, og ég má vel við þann dóm una.

Við landskjörið síðasta, er ég náði kosningu af lista Framsóknarflokksins, jókst atkvæðatala listans um 118% frá því, sem listinn fékk við næsta landskjör áður, er einhver ágætasti og vinsælasti maður flokksins, Magnús Kristjánsson, náði kosningu.

Mér þótti því vænt um, að hv. 1. landsk. skyldi nefna landsdóm í sambandi við stjórnarathafnir mínar.

Þessi reiði og gremja hv. 1. landsk. sannfæra mig bezt um það, að ég sé á réttri leið, því að ég man ekki til þess, að þessi. hv. þm. hafi nokkurntíma haft rétta skoðun á nokkru máli. Það er því mjög auðvelt og þægilegt að hafa hann fyrir leiðarvísi, því að það má ganga út frá því sem gefnu, að rétta leiðin er alltaf andstæð þeirri leið, sem hans villugjarni hugur stefnir til.

Hv. 1. landsk. endaði ræðu sína á því að mælast til, að ég gerði tilraunir til þess að bæta landsdóminn. Mér þykir þetta ekkert undarlegt, því að ég vil minna á það, að þessi hv. þm. fór mjög óvirðulegum og hrottalegum orðum um þann dómstól hér á þinginu í vetur og gaf með því hv. 2. landsk. tækifæri til þess að kasta fram þessum viturlegu orðum: „Það á ekki að tala illa um dómstólana“. Hefir aldrei verið farið voðalegri orðum um ísl. dómstól heldur en hv. 1. landsk. gerði þá. Ég er algerlega ósammála hv. þm. um þennan dómstól. Ég hygg, að hann sé góður dómstóll og líklegur til réttdæmis. Vil ég því gera ráðstafanir til þess, að dómurinn sé fullskipaður og vel kosinn, ef ég má því við koma, m. a. með því að fá sýslunefndir til þess að kjósa í dómstólinn, en það féll niður á íhaldstímunum. Er það ein af þeim mörgu yfirsjónum, sem íhaldsmenn hafa drýgt og ekki er bætt fyrir fyrr en við framsóknarmenn komum til skjalanna.

Ég vil láta hv. 1. landsk. vita það, að við framsóknarmenn höfum séð mikla ástæðu til þess að draga einn af ráðh. Íhaldsins fyrir landsdóm fyrir mjög stórkostlega ávirðingu, er hann hefir drýgt, en hingað til höfum við látið okkur nægja að stefna honum fyrir dómstól þjóðarinnar. En ef til þess kæmi, að það yrði athugað, hvort landsdómurinn ætti hrakyrði hv. 1. landsk. skilið, þá höfum við framsóknarmenn a. m. k. tvö stórmál, sem við gætum fengið honum í hendur, bæði um íhaldsmenn.