21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (2565)

Stjórnarmyndun

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það er aðeins eitt atriði í ræðu hv. 1. landsk., sem ég vildi drepa á, nefnil. það, sem hv. þm. sagði um Karl Einarsson, fyrrum bæjarfógeta í Vestmannaeyjum.

Það er rétt hjá hv. 1. landsk., að hann var nokkur óreglumaður, en hinsvegar er það öllum kunnugt, að hann var mjög vel gefinn og mjög vinsæll, sem sjá má af því, að Vestmannaeyingar kusu hann hvað eftir annað á þing. Var því flest vel um hann, þó að sá ljóður væri á ráði hans, að hann væri nokkuð vínhneigður. Embættisferill hans er því ósambærilegur við embættisferil Einars M. Jónassonar, því að Einar já eins og plága á fólkinu í Barðastrandarsýslu og hafði líka alveg gagnstæða persónueiginleika við Karl Einarsson.

Hv. 1. landsk. ávítaði mig sérstaklega fyrir það að hafa veitt Karli Einarssyni eftirlaun. Ég vil benda hv. þm. á það, að ég gerði það samkv. áskorun meiri hl. þingsins. Meira en helmingur flokksbræðra hv. 1. landsk. skrifuðu undir þessa áskorun, og margir þm. af öðrum flokkum líka. Ég var því aðeins að framkvæma vilja þingsins, er ég veitti þessi eftirlaun, enda hefði ég ekki gert það annars. En hitt, að unna Karli nokkurrar atvinnu við lögfræðistörf, hefi ég gert óskorað, þar sem mér var kunnugt um, að hann hafði jafnan fengið orð fyrir að vera skarpur lögfræðingur.

Ég hefi stundum, þegar hv. 1. landsk. hefir reynt að níðast á Karli Einarssyni, eftir að sjúkdómar og sorgir hafa setzt að heimili hans, minnt á það, að íhaldið tók á sínum tíma drykkjumann, sem hafði sóað 40 þús. kr., og setti hann yfir alla sýslumenn á landinu. Þótt þetta væri vel gefinn maður, þá var þó alveg óhæft, að hann gæti verið yfir- og eftirlitsmaður allra sýslumanna landsins. En þessi maður var einn af nánustu vinum hv. 1. landsk., og því þótti sjálfsagt, að hann fengi embættið.

Sé það fordæmanlegt að veita manni eins og Karli Einarssyni setudómarastörf í smámálum, hvað á þá að segja um það, að láta persónulegu tiltrú til drykkjumanns, sem sukkað hefir 40 þús. kr., leiða sig til þess að setja hann yfir alla sýslumenn og tollheimtumenn landsins“ — Þetta gerði Íhaldsflokkurinn.