21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (2566)

Stjórnarmyndun

Jón Þorláksson:

Hæstv. dómsmrh. sagði, að bæði stefnumunur og persónumunur á mér og honum birtist ljóslega í máli eins og afsetningu Einars M. Jónassonar fyrrv. sýslumanns í Barðastrandarsýslu. Nú hljóta allir sanngjarnir menn að skilja það, að engin stj. getur fyrirbyggt, að einhverjar misfellur á embættisrekstri eigi sér stað í landinu meðan hún situr að völdum. Þess vegna fer því fjarri, að leyfilegt sé að nota eitt einstakt mál fyrir mælikvarða í þessum efnum. Hæstv. dómsmrh. hefir nú samt lagt til þennan mælikvarða á sjálfan sig og sína stjórn annarsvegar og alla aðra ráðh. hinsvegar.

Ég vil minna hæstv. ráðh. á það, að fleiri embættismenn en Einar M. Jónasson hafa orðið brotlegir á sama hátt og hann, þó að minna hafi verið um það talað. Það stóð líkt á þegar ég varð ráðh., að einn af embættisbræðrum Einars M. Jónassonar hafði ratað í sömu ógæfuna og hann, og þó meiri. Þessi maður var settur frá embætti og sviptur eftirlaunum, svo sem venja og lög mæla fyrir. En þegar hæstv. dómsmrh. tók við völdum, þá voru þessum embættismanni, sem hafði farið frá með meiri sjóðþurrð en nokkur annar, að Einari M. Jónassyni meðtöldum, úrskurðuð fullkomin eftirlaun, eins og hann hefði látið af embætti með heiðri. Og ekki nóg með það, heldur hefir hæstv. dómsmrh. sýnt þá fyrirlitningu á öllu velsæmi að velja hann öðrum fremur til setudómara í málum manna.

Með þessu hefir hæstv. dómsmrh. lýst stefnu sinni og persónu á þá lund, að hann telur þá menn, sem hafa orðið brotlegir á sama hátt og Einar M. Jónasson eða meir, vera sérstaka skjólstæðinga sína, sem þjóðfél. eigi að verðlauna með stöðum, eftirlaunum og trúnaðarstörfum eins og þeim, að verða dómarar í málum manna. Þessi stefna er áreiðanlega alveg einstök fyrir hæstv. dómsmrh. Jónas Jónsson.

Ég vil algerlega vísa þeim ummælum hæstv. ráðh. á bug, að ég hafi nokkurntíma haft ókurteist og ruddalegt orðbragð um landsdóminn. Ég hefi aðeins leitt rök að því, að ekki væri hægt að treysta því, að hann væri óhlutdrægur, vegna þess að hann er þannig skipaður, að búast má við, að flokksafstöðu kenni í dómum hans.

Ég sé enga ástæðu til þess að fara að leiðrétta venjulegar missagnir hjá hæstv. dómsmrh., þar sem flestallt, sem þessi hæstv. ráðh. segir, hvort heldur er í ræðu eða í riti, eru tómar missagnir, en hann er ekki svo greinagóður sjálfur, að hann taki eftir þeim.

Hæstv. ráðh. sagði m. a., að Sjálfstæðisflokkurinn væri alltaf að minnka að kjósendatölu, en ég get sagt honum það, að flokkurinn er alltaf að stækka og er nú langstærsti flokkurinn á landinu. Aftur á móti er Framsóknarflokkurinn lítill flokkur, og stafar það vafalaust fyrst og fremst af því, að hann er svo ógæfusamur að hafa hæstv. dómsmrh. innan sinna vébanda.