21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (2567)

Stjórnarmyndun

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að blanda mér neitt inn í þær umr., sem hér hafa farið fram um þingrofið, geðveikismál, kosningaleiðangra, ógæfumenn eða annað, sem hæstv. dómsmrh. hefir dregið hér inn í umr.

Ég hefi alltaf gert ráð fyrir því, að Framsóknarflokkurinn mundi mynda stjórn áður en þingi yrði slitið. Og ég hefi litið svo á, að sá dráttur, sem orðið hefir á myndun stj., stafaði af því, að flokkurinn gengi með meinsemd og að hann ætlaði sér að losna við hana, þótt það yrði ekki með öllu sársaukalaust. — Mér fannst þetta líka á orðum hæstv. forsrh. áðan, því að aldrei hefi ég séð hann jafnklökkan og nú. — Nú er þó svo komið, að í stað þess að losa sig við meinsemdina hefir flokkurinn ýtt undir hana, svo að hún geti grafið um sig og spýtt ólyfjan sinni bæði inn í flokkslíkamann og þjóðarlíkamann. Flokkurinn hefir orðið hræddur við uppskurðinn, sem hann átti í vændum, eins og sjúklingur, sem ekki þorir að losna við sjúkdóm sinn, af því að hann heldur, að það geti máske riðið lífi sínu að fullu. Ég geri ekki ráð fyrir, að flokkurinn geti losnað við meinsemdina héðan af og muni því fara fyrir honum eins og slíkum sjúklingum, að hann muni veslast upp smátt og smátt, þangað til dauðinn tekur við. Mér kemur í hug gamli málshátturinn: „Sjálfskaparvitin eru verst“. —