21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (2576)

Stjórnarmyndun

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ummæli hv. þm. G.-K. gefa mér tilefni til nokkurra leiðréttinga.

Hv. þm. virtist hafa skilið mig svo, að landsstj. ætti ekki að gera annað, þegar svo er ástatt sem nú er, en segja, að orsakir kreppunnar séu útlendar og við getum ekkert við þær ráðið. Ég sagði, að rætur kreppunnar væru útlendar og við gætum ekki upprætt þær. En þar fyrir getum við með ýmsum ráðstöfunum haft áhrif á gang hennar hér á landi. Það eru ýmsir andstæðingar Framsóknarflokksins, sem halda því fram, að það sé honum og stj. að kenna, að kreppan er skollin yfir. Mér fannst því skylt að benda á, að kreppa, sem stafar af gerbreytingu atvinnulífsins í flestum iðnaðarlöndum, offramleiðslu og gullpólitík stórþjóðanna, verður ekki rakin til neinnar íslenzkrar landsstj. Hitt verður hver stj. sökuð um, ef hún vanrækir að gera ráðstafanir til þess að stemma stigu fyrir afleiðingum kreppunnar. En um kreppur sem þessa er það að segja, að þær verða að miklu leyti að hafa sinn gang. Það eru einmitt flokkar eins og flokkur hv. þm. G.-K., sem standa fastast á því, að slíkar kreppur verði að eyðast af sjálfu sér. En það eru frekar aðrir flokkar, sem vilja láta gera ráðstafanir, sem eignamönnum er ekki sérstaklega vel við, til þess að bæta úr böli þeirra, sem hafa orðið fyrir kreppunni.

Ég hygg, að það sé ekki rétt hjá hv. þm., að skatta- og tollalöggjöf sé orsök kreppunnar. Það er athugavert, að skattalöggjöfin var að miklu leyti óbreytt allt síðasta kjörtímabil, og þótt það hafi orðið að breyta henni smávægilega, hefir það verið í þá átt að taka upp skatta, sem Íhaldsflokkurinn notaði á sínum tíma. Það er því ekki meiri ástæða til þess að kenna núgildandi skattalöggjöf landsins um þessa kreppu heldur en að kenna sköttum Jóns Þorlákssonar, fyrrv. fjmrh., núv. hv. 1. landsk., um kreppuna, sem steðjaði að á árunum 1925–1927. Skattarnir eru næstum því hinir sömu á báðum þessum tímabilum. Þess ber líka að gæta, að á krepputímum er tekjuþörf ríkisins meiri en ella, og þess mætti sá flokkur, sem nú nefnist Sjálfstæðisflokkur, minnast, að það var einmitt vegna kreppu og stórvandræða, að verðtollurinn var settur 1924, með góðu samstarfi við þáverandi stjórnarandstæðinga.

Ég tel enga von um, að þessari kreppu létti af fyrir breytingar á skattalöggjöfinni, þó gerðar væru.

Menn verða að hafa það hugfast, hverjar eru hinar raunverulegu orsakir kreppunnar, og gera ráðstafanir sínar með tilliti til þeirra.

Hv. þm. G.-K. gerði ráð fyrir, að það yrðu ýmsir örðugleikar á minni braut. Ég býst við, að ekki sé ofsögum sagt af því, því þyngra mun verða fyrir fót síðar en nokkurn grunar nú. En þar sem ég hefi tekið að mér vandasamt starf á erfiðleikatímum, þá mun ég því fremur fagna því samstarfi, sem orðið getur flokka á milli um að leysa vandamálin og hafa meir fyrir augum þjóðarheill en flokkshagsmuni.