19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Þorláksson:

Ég á fáeinar brtt. á þskj. 342, og vil fara um þær örfáum orðum.

Er þá fyrst IX. brtt., um 1200 kr. styrk til Ágústs Sigurðssonar til háskólanáms í norðurlandamálum. Þessi stúdent leggur stund á dönsku og sænsku. Það má e. t. v. heita merkilegt, en samt er það nú svo, að enginn Íslendingur hefir lokið háskólaprófi með dönsku sem sérfræðigrein. Þetta mun vera fyrsti ísl. stúdentinn, sem leggur stund á það nám. Sænskuna ætlar hann að lesa sem aukanámsgrein og telur sig samt munu ná þeirri fullkomnun í því máli, að hann verði fyllilega fær um að hafa á hendi kennslu í þeirri grein við æðri menntastofnanir. Því er ekki að neita, að þótt undarlegt megi virðast, hefir kennslu í dönsku við menntaskólann hér í Rvík verið í ýmsu áfátt. Þetta mun stafa af því, að þeir menn, sem hafa haft kennsluna á hendi, hafa ekki haft fullkomlega vísindalega þekkingu til brunns að bera, og því ekki skilyrði til þess að kenna málið á vísindalegum grundvelli. En þar sem nemendur menntaskólanna eiga, að afloknu námi þar, að vera færir um að stunda nám við erlendar vísindastofnanir, þá ríður eigi lítið á því, að öll tungumálakennsla í þessum skólum sé í góðu lagi.

Þessi námsmaður, sem hér ræðir um, er mjög efnilegur, og hefi ég hér handa á milli hin ágætustu meðmæli, sem hann hefir hlotið. Mun fjvn. Nd. einnig hafa borizt þau á vetrarþinginu, þótt ég viti ekki, hvort þau hafi verið lögð þar fram nú. Að endingu vil ég eindregið vonast eftir, að þessi till. nái samþ. hv. d.

Þá mun ég næst víkja að XXVII. brtt. á sama þskj., um að Vigfúsi Gunnarssyni, bónda að Flögu í Skaftártungu, verði greiddar skaðabætur fyrir bruna þann, sem varð á bæ hans aðfaranótt 1. desember 1930 og mælt er, að hlotizt hafi af því, að eldingu sló niður í lítilli fjarlægð frá bænum, en leiddist inn í bæinn með símaþræðinum. Þetta olli fullkomnum húsbruna og miklu eignatjóni. Nú er mér nær að halda, að eftir almennum skaðabótalögum hefði landssíminn orðið að greiða bóndanum skaðabætur, ef mál hefði verið höfðað og hægt hefði verið að færa fram lögfullar sannanir fyrir því, að brunann hefði þannig að borið. En erfitt hefði að vísu orðið að færa fram þær sannanir, þar sem allt brann til ösku og fólkið hafði engan tíma til þess að athuga, á hvern hátt eða hvar eldingin komst inn í húsið. Það varð eins og gefur að skilja að verja öllum tímanum, eftir að eldsins varð vart, til þess að bjarga því, sem hægt var. Þegar svona ber að höndum, finnst mér öll sanngirni mæla með því, að ríkið sem eigandi landssímans taki þátt í því að bæta tjónið. Ég vildi ekki í þessari till. minni tiltaka neina fjárupphæð, sem mér fyndist að ætti að greiða, heldur vildi ég leggja það á vald stj. að láta rannsaka málið, og greiða það, sem hún álítur hæfilegt. Að sjálfsögðu ber líka að leita samkomulags um þetta við manninn, sem fyrir tjóninu varð.

Ég sé, að hv. 3. landsk. hefir borið fram till. um þetta sama efni á þskj. 369. Í þeirri till. er ætlazt til, að greiddur verði helmingur þess tjóns, sem ætla má, að bóndinn hafi beðið. Þetta fer í sömu átt og mín till., en mér fyrir mitt leyti finnst ekki ástæða til þess að binda þetta við helming tjónsins; ég verð að segja, að ég er ekki málavöxtum nægilega kunnugur til þess að ákveða neitt um það, og hefi því talið réttast að fela stj. það atr. á hendur.

Loks á ég nokkrar brtt. við 22. gr. fjárlagafrv. Það er við heimildirnar fyrir ríkisstj. Hin fyrsta er sú, að breyta orðalaginu á 1. lið 22. gr., um styrkinn til Eimskipafél. Íslands.

Eins og þetta er orðað í frv., er stj. heimilt að kaupa hlutabréf í Eimskipafél. fyrir allt að 150 þús. kr. og veita því styrk, ef nauðsyn krefur. Nú liggur það ekki fyrir, að Eimskipafél. auki eignir sínar á árinu 1932. Það liggur áreiðanlega ekkert fyrir um það, að kaupa eigi nýtt skip eða yfirleitt auka eignirnar á nokkurn hátt. Það er því ekkert annað en fjárvingl og „svindilbrask“, sem ætti sér stað, ef ríkisstj. færi að leggja fram aukið hlutafé í fél., án þess að eignir þess ykjust samtímis. Það getur auðvitað ekki komið til nokkurra mála, að fyrirtæki eins og Eimskipafél Íslands eigi að gefa út hlutabréf til þess að afla sér rekstrarfjár eða til þess að greiða halla af rekstri. Það er athæfi, sem í löggjöf margra þjóða er gert refsivert, ef hlutafél. leyfir sér slíkt. Af þessum ástæðum hefi ég leyft mér að bera fram brtt., sem felur það í sér, sem hér er um að ræða, þ. e. a. s., að liðurinn orðist svo: „Að veita Eimskipafél. Íslands siglingastyrk, allt að 150 þús. kr., ef nauðsyn krefur“. Og hefi ég farið þess á leit að fella burtu síðari hl. málsgr., sem fer fram á það, að ríkisstj. veitist aðstaða til ath. um rekstur fél., og jafnframt fari fram ath. á því, hve mikið fé því beri að réttu í standferðastyrk, miðað við þær siglingar, sem þing og stj. telur nauðsynlegar landsmönnum. Hér er um tvö atr. að ræða. Annað er það, að ríkisstj. veitist aðstaða til þess að ath. rekstur félagsins. Mér fannst ekki rétt að setja slíkt ákvæði inn í fjárl., þar sem vitað er, að ríkisstj. hefir fullkomna aðstöðu til þess að grennslast eftir rekstri fél. með þeim rétti, sem hún hefir til þess að skipa annan endurskoðanda fél. og einn mann í stj. þess. Það er auðvitað, að þessi aðstaða stj. er alveg fullkomin til þess, að hún geti fylgzt með öllum rekstri fél. Auk þessa hefir stj. sem hluthafi í fél. allan þann rétt til slíkra hluta, sem hluthafar hafa. Till. mín felur það alls ekki í sér að veitast á nokkurn hátt að því, að ríkisstj. hafi þennan rétt í félaginu, en ég tel ekki viðeigandi að gera það að skilyrði fyrir styrknum, að stj. fái frekari aðstöðu til ath. á rekstri félagsins en hún nú hefir, þar sem vitanlegt er, að það er fyllilega nógu góð aðstaða. En viðvíkjandi ath. á siglingum, sem þing og stj. telur nauðsynlegar, þarf ekki að gera það að skilyrði fyrir þessum styrk til félagsins. Það er verkefni, sem auðvitað liggur fyrir stj. í sambandi við strandferðir og bátaferðir, og er ekki nauðsyn á að setja það í samband við fjárveitinguna til Eimskipafél. Íslands. En það, sem ég legg aðaláherzluna á, er það að fella burtu heimildina til þess að kaupa hlutabréf í fél. fyrir þessa upphæð, því að ég tel það fjárhagslega alveg óhæfilegt, þar sem vitað er, að þetta á að verða rekstrarstyrkur.

Þá á ég næstu brtt., um að V. liður í 22. gr. falli burt. Það er um heimildina handa stj. til þess að kaupa landinu til handa lóðirnar milli menntaskólans og stjórnarráðsins, neðan Skólastrætis, en ofan lækjar. Í sambandi við þetta á að kaupa húseign niðri við Austurstræti til þess að láta í skiptum fyrir eina af þessum lóðum. Það var að mig minnir fyrir hálfu öðru ári rædd þál. líks efnis, og ég gerði þá grein fyrir því, hvers vegna ég væri á móti þessu lóðabraski. Fyrst og fremst er nú þessi lóð, sem um er að ræða, alls ekki hentug fyrir opinberar byggingar, vegna þess hve hún er mjó. Það gæti að vísu farið vel á því, eins og raunar alstaðar annarsstaðar, að byggja þarna lagleg hús. En lóðirnar fyrir ofan þá byggingarlínu, sem markast af menntaskólanum og stjórnarráðshúsinu, eru svo mjóar, að mjög illa hæfir fyrir hvaða opinbera byggingu sem er.

Ef farið verður út í að kaupa þessar lóðir neðan Skólastrætis, þá fer það eins og vant er að fara, þegar komið er út í einhverja vitleysuna, að ekki verður látið sitja við fyrsta sporið, heldur verða næst keyptar eignirnar fyrir ofan Skólastræti til viðbótar, því að annars verða þessar lóðir ónothæfar; það munu menn fljótt sjá við nánari ath. Eftir upplýsingum, sem fyrir liggja, þarf til þess að kaupa þessar ónothæfu lóðir um hálfa millj. kr. Þetta væri nú fyrir sig, ef ríkissjóður væri í sérstakri lóðaþröng fyrir byggingar þær, sem hann þarf að láta reisa smám saman eftir því sem stundir liða fram. En það er nú eitthvað annað en að svo sé, og þarf ekki annað en að líta á eignaskýrslu ísl. ríkisins, sem fylgir hverjum landsreikn. síðan 1925. Þar má sjá, að meðal annara eigna ríkissj. er lóð í hjarta bæjarins (Arnarhólslóðin), sem talin er hvorki meira né minna verð en 1141400,00 kr. Mér virðist það ekki vel ráðið að kaupa þessar lóðir fyrir opinberar byggingar í framtíðinni, ana út í að kaupa þær fyrir hálfa milljón, lóðir, sem eru illa fallnar fyrir slíkar byggingar, og kaupa svo þessi hús líka, sem þarf þá að rífa niður. Mér hefir alltaf fundizt, að þessi lóðakaup væru einhver hin mesta ráðleysa, sem hefir verið talað um fyrir ríkið jafnvel á síðustu árum, og er þá mikið sagt, því að þau hafa verið þau mestu framúrskarandi ráðleysisár að því er snertir meðferð ríkisfjár. Ég er sannfærður um, að það er hægt að gera margt þarfara fyrir þessa hálfu milljón en að kaupa þessar eignir. Og ég er sérstaklega sannfærður um það, að þegar búið er að fleygja hálfri milljón í þessar lóðir, þá þykjast menn knúðir til þess að halda áfram og kaupa Skólastræti og lóðirnar þar fyrir ofan, því að annars er ekki hægt að fá nógu mikið rúm fyrir þessar fyrirhuguðu byggingar, því að lóðirnar eru svo mjóar.

Þá hefi ég loks lagt til, að við heimildirnar við 22. gr. bætist 3 nýir liðir. Fyrsti liðurinn er heimild til að greiða víxilskuldir með áföllnum vöxtum vegna byggingar húss þess, sem nú hefir verið tekið til afnota fyrir vinnuhælið hjá Eyrarbakka, allt að 9300 kr. Þetta mál hefir verið áður fyrir þinginu. Þarna stendur svo á, eins og hv. þm. vita, að í byggingu þessa húss var fyrst ráðizt fyrir reikning sjóðs, sem til var austur á Eyrarbakka og hafði safnazt þar saman af gjöfum, en húsið átti, eins og allir kannast við, að verða sjúkrahús. Í þetta var ráðizt á dýrasta tíma, þegar margir töldu sér það fært, sem seinna reyndist erfitt, og um stærð hússins var farið eftir till. landlæknis og húsameistara. Síðan brugðust fjárvonir til hússins, en forstöðunefnd hússins hafði tekið á sig persónulega að útvega það fé til hússins, sem þurfti til að gera það fokhelt. Það var aldrei gert ráð fyrir, að það yrði nema til bráðabirgða, að nefndarmenn þyrftu að binda sér þennan bagga persónulega, því að von var á framlagi annarsstaðar frá til hússins, en, eins og kunnugt er, þá fór svo, að húsið var selt á nauðungaruppboði vegna áhvílandi veðskulda. Ríkið eignaðist svo húsið og hefir gert það að vinnuhæli. Þeir menn, sem höfðu haft á hendi fjárreiður hússins, höfðu ekki gætt þess að tryggja sitt fé með veðrétti í húsinu, og sátu þeir þess vegna eftir með víxilskuldirnar, þegar ríkið var búið að taka við eigninni. Nú virðist það ekki sanngjarnt, að einstakir menn, sem án nokkurrar þóknunar eða borgunar höfðu tekið að sér forstöðu þessa þarfamáls, verði þar á ofan látnir bíða skaða á þann hátt, að þeirra fé standi þannig fast í opinberri eign, án þess að þeir geti á nokkurn hátt náð því þaðan. Eins og allir vita, þá hnignaði fyrir nokkru atvinnulífi á þessum stað, svo að því nær allir þeir menn, sem forgöngu áttu að þessu og áttu sæti í sjúkrahússnefnd, eru nú orðnir öreigar. Það er kannske einn, sem er ekki orðinn öreigi ennþá, en hann verður það, ef hann á einn að bera allan þann bagga, að greiða þessar víxilskuldir. Ég tel þess vegna sanngjarnt, þar sem þessi staður er nú orðinn eign þess opinbera, að ríkissjóður standi skil á þessu fé, sem farið hefir frá þessum einstöku mönnum til byggingarinnar. Ég ætla ekki að gera till. um það, að sjúkrahússjóðurinn verði endurgreiddur líka, þó að það virtist rétt, en hitt er óþolandi, að þeir menn, sem í góðri trú taka að sér forstöðu þessarar byggingar, eigi persónulega að bíða fjártjón vegna þess.

Þá er næsti liðurinn, um að gefa Mjólkurfélaginu Mjöll eftir 15000 kr. Viðlagasjóðslán ásamt ógreiddum vöxtum, á þann hátt, að ríkissjóður greiði Viðlagasjóði. Þetta mál hefir legið fyrir fjvn., og geri ég ráð fyrir, að hv. þm. sé það kunnugt. Þetta mál er nú svo vaxið, að fél. þetta var stofnað til þess að koma á fót þörfu fyrirtæki, niðursuðu mjólkur, að allega til sölu innanlands til þess að útvega mönnum þar í byggðarlaginu markað fyrir mjólk sína, sem annars var erfitt að gera. Þetta fél hefir átt við mikla erfiðleika að stríða og hefir nú gefizt upp á þann hátt, að hlutaféð, 600 þús. kr., er nú með öllu tapað. Eignin hefir nú verið eða verður seld nýju fyrirtæki, sem enn á ný ætlar að reyna að halda þessu fyrirtæki áfram, og þar sem hér er um það fyrirtæki að ræða, sem Alþ. hefir viðurkennt, að sé svo þarft, að beri að styrkja það, og hefir oft áður veitt því stuðning, þá finnst mér í raun og veru, að þeir menn, sem stóðu að þessu fyrirtæki, hafi gert nóg með því að ganga slyppir frá og tapa sínu hlutafé, þó að þeir fái nú þessa ívilnun, að ríkissjóður gefi þeim eftir þetta lán.

Þá er 3. till., um að heimila stj. að kaupa hús sýslumannsins í Borgarnesi með þeim skilyrðum, sem stj. og sýslumanni kemur saman um. Sýslumaður varð fyrir því óhappi, að hún hans brann, þegar dýrtíðin stóð sem hæst. Hann réðst í að byggja aftur hús yfir sig, en þar sem hann var þá póstafgreiðslumaður líka, var húsið með samkomulagi við þá stj., sem þá sat að völdum, haft það stórt, að póstafgreiðslan gæti verið þar líka, en til hennar þurfti mikið rúm, því að pósturinn frá Reykjavík gekk þar í gegn. Af því að húsið var byggt á allra dýrasta tíma, en segja má, að sýslumann hafi rekið nauður til að byggja einmitt þá, þar sem hús hans brann, þá kemur nú þessi till. um, að stj. sé heimilt að kaupa þetta hús eftir samkomulagi við sýslumann, en þar sem þetta mál hefir áður legið fyrir Alþ., sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um það, en vænti góðra undirtekta hv. d.