14.08.1931
Efri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

Afgreiðsla þingmála

Jón Baldvinsson:

Það eru ýms mál, sem enn liggja í n. og ekkert er farið að bóla á. Meðal þeirra eru nokkur mál, sem ég hefi flutt, bæði stór og smá, og vil ég sérstaklega benda á frv. til framfærslulaga, sem kom inn snemma á þinginu, en ekki er enn komið úr nefnd. Svo er frv. um lokun sölubúða, lítið frv., en þó mannréttindamál, sem aðeins fjallar um heimild til bæjarstjórnanna. Vil ég hér með óska þess, að n. hraði afgreiðslu þeirra.

Enn eru mikilsverð mál, sem ég hefi ekki flutt, en sem ég er samþykkur og vil vinna að, að nái fram að ganga, svo sem Sogsvirkjunin, sem enn liggur í n., en er þess eðlis, að ef þetta þing vill gera ráðstafanir í atvinnubótaskyni, þá ætti það að samþykkja það. En málið er enn ekki komið úr n. Ég vil fá svar um það, hvernig málinu er komið og áminni n. um að afgreiða það svo fljótt sem kostur er á. Það veitir ekki af, ef málið á fram að ganga á þessu þingi.