20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (2612)

Afgreiðsla þingmála

Jón Baldvinsson:

Ég vil aðeins benda á það, að fyrir liggja rannsóknir og áætlanir um þessi mál, en það er hinsvegar sýnilegt, að nefndin, eða meiri hl. hennar, vill ekki, að þau nái fram að ganga. Um hafnargerðina á Akranesi er það að segja, að hún er þegar talsvert á veg komin og sveitarfél. hefir lagt til hennar mikið fé, þannig að full þörf er á að fá löggjöf í þessu efni.

Sama er að segja um Sauðárkrók, að þar er einnig byrjað á verkinu, og kaupstaðarlandið liggur undir skemmdum, ef ekki er að gert nú þegar, en skemmst er þetta á veg komið á Dalvík.

Það er brýn þörf á að afgreiða þessi mál. Þau hafa oft legið hér fyrir og voru komin svo vel á veg eitt sinn, að þau hefðu orðið að lögum á síðasta degi þingsins, ef Framsókn og Íhaldið hefðu ekki tekið höndum saman og hætt störfum.