20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (2614)

Afgreiðsla þingmála

Jakob Möller:

Út af því, sem hv. 5. landsk. sagði, vil ég minna á það, að meiri hl. sjútvn. mælti með því í heild, að frv. um lendingarbætur á Eyrarbakka næði fram að ganga, þrátt fyrir það, að allt væri þar ógert til að undirbúa málið. Þetta áleit hv. meiri hl. rétt, af því að það myndi hvetja hlutaðeigendur til að hefjast handa.

Ég vil því benda á það, að það, að lagasetningu vantar um þessar hafnargerðir, veldur því, að hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélög eiga miklu óhægara með að fá lán til framkvæmda þessara fyrirtækja, þar eð ekkert er ákveðið um ríkissjóðsframlagið.

Það er vafalaust hægt að benda á mörg dæmi þess, að slík mál hafa verið afgr. minna undirbúin en þessi. Ég nefndi áðan Eyrarbakka, og nú vil ég einnig minna á Skagaströnd. Þegar þau mál voru til meðferðar, þá var ekki talað um að fá upplýsingar frá Landsbankanum eða hæstv. fjmrh., sem mér finnst einkennilegt, að skuli ekki vera hægt að fá til viðtals, þegar um jafnmerkileg mál er að ræða. Mér finnst þetta harla skrítin aðferð til að tefja málin hér í hv. deild.