22.08.1931
Efri deild: 38. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (2619)

Afgreiðsla þingmála

Jón Baldvinsson:

Ég ætla aðeins að láta í ljós óánægju yfir því, að ýmsar n. hér í Ed. hafa ekki skilað áliti um mál, sem hafa legið lengi hjá þeim, m. a. um framfærslulögin, sem komu fram mjög snemma á þinginu, frv. um breyt. á lögum um lokun sölubúða, smávegis breytingar á sveitarstjórnarlögunum, sem sennilega liggja fyrir allshn., auk enn fleiri mála, sem ég ætla ekki upp að telja. Ég hreyfði þessum málum á fundi hér í hv. d. 14. ág. og spurðist fyrir um, hvernig liði afgreiðslu þeirra, en hv. n. hafa engan lit sýnt á því að gefa neinar upplýsingar um það.

Um Sogsvirkjunarmálið, sem ég var að vísu ekki flm. að, en er sammála flm. um, að er mikilsvert mál, hefir heldur ekkert heyrzt frá nefnd. Því var útbýtt 18. júlí, var tekið á dagskrá til 1. umr. 23. júlí, en frestað þangað til daginn eftir, og var þá vísað til n. Í n. hefir það svo aldrei verið tekið fyrir, frá því að hún tók við því, 24. júlí, og þar til 18. ág., örfáum dögum fyrir þingslit. Á 14. fundi n., 18. ág., er það fyrst tekið fyrir, og væntanlega þá að tilhlutun flm. Það er þó nokkru lengra siðan ég hreyfði því hér á fundi, og býst ég við, að það hafi vakið flm. og nm.

Ég vildi nú aðeins sýna fram á, hvílíkan áhuga flm. hafa sýnt fyrir málinu, að það skuli hafa getað legið frá 24. júlí til 18. ág. hjá n. í þinginu án þess að það væri nokkurntíma tekið til afgreiðslu. Hefði verið áhugi fyrir því, hefði hv. 1. landsk., sem er 1. flm., sannarlega getað strax gert það sama og hann gerði 19. ág., örfáum dögum fyrir þingslit, að gefa út sérstakt nál., því að þá hefði ekki hjá því farið, að málið yrði tekið til meðferðar í Ed.

Mér þykir afarleitt, að svo mikið nauðsynjamál og jafnþýðingarmikið á þeim tímum, sem yfir standa, hefir verið dregið svo á þinginu, og það af þeim, sem helzt áttu að hlynna að því; og hv. 1. landsk. hafði aðstöðu til þess að knýja það út úr n., en þá aðstöðu hafði ég ekki.

Ég verð að vita n. fyrir að liggja á þessu stórmerka máli og afgr. það ekki fyrr en fáeinum dögum fyrir þingslit.