22.08.1931
Efri deild: 38. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (2620)

Afgreiðsla þingmála

Jón Þorláksson:

Mér þykir það vera dálítið undarlegt orðbragð hjá hv. 2. landsk., að vera að vita flm. og forgöngumenn þessa máls fyrir það, að það kemst ekki áfram í þinginu, þar sem hann veit þó, að ástæðurnar fyrir því, að það kemst ekki áfram, eru fyrst og fremst þær, að málið hefir ekki fylgi meiri hl. þeirrar n., sem því var vísað til.

Það er bezt að taka þetta dálítið upp frá rótum í eitt skipti fyrir öll. Eins og allir vita, hefir þessi hv. þm. látið svo frá þingbyrjun sem hann væri í andstöðu við Framsóknarflokkinn og núv. stj. Hann átti kost á í þingbyrjun að sýna afstöðu sína með því að leggja sitt atkv. til þess að koma í veg fyrir, að þessi stjórnarflokkur yrði í meiri hl. í öllum n. Atkv. stóðu þannig í Ed., að ef hann hefði viljað taka þátt í nefndakosningum, gat orðið hlutkesti um þriðja manninn í öllum n., og það gat farið svo, að andstæðingar stj. næðu meiri hl. í ýmsum n. Þetta vildi hann ekki og sat hjá.

Nú kemur hann undir þinglokin og ræðst að okkur, og mér sérstaklega, fyrir að ég hafi ekki séð um, að málið fengi afgreiðslu í n. Ég var þar í minni hl. og gat þar engu um ráðið.

Nú er það svo, að þetta þing hefir staðið stuttan tíma og fjhn. haft mörg mál til afgreiðslu, þ. á. m. mál, sem komu þangað á undan þessu máli, og sum þess eðlis, að sjálfsagt er að afgr. þau á hverju þingi. Þessi mál hafa verið afgr., og þegar Sogsvirkjunarmálið er svo tekið fyrir, eftir að hafa verið á fjórðu viku hjá n., var einn af nm. alveg andvígur málinu, og annar tjáði sig ekki tilbúinn til þess að taka afstöðu í málinu, þótt hann hefði haft það til athugunar þennan tíma.

Ég sé ekki, hvað ég gat gert við þessu, eða með hvaða rétti hv. 2. landsk. getur ásakað mig um þetta. Hann getur með töluverðum rétti ásakað sig fyrir að nota ekki atkv. sitt til þess að sjá um, að sú n., sem fengi þetta mál til meðferðar, yrði ekki að meiri hl. skipuð andstæðingum þessa máls.

Ég ætla ekki að segja meira að svo stöddu, en held áfram, ef hv. þm. lætur sér þetta ekki nægja.