19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

1. mál, fjárlög 1932

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Ég ætlaði satt að segja ekki að taka til máls fyrr en hv. frsm. væri búinn að gera grein fyrir afstöðu fjvn. til þeirra brtt., sem fyrir liggja. En ég get ekki látið hjá líða að svara hv. 5. landsk. út af því, sem hann hefir beint til læknanna.

Það er vanalega þannig, að það þarf lítið tilefni til, að þessi hv. þm. komist út um alla heima og geima. Það hefir þráfaldlega komið fyrir, bæði í ræðu og riti, að hann hefir svívirt bæði læknastéttina í heild og einstaka menn innan hennar, og þarf ekki um það að fást, þegar það er gert þannig, að þeir geti svarað fyrir sig. En það er óviðurkvæmilegt í mesta máta, þegar hér er reynt að svívirða einstaka menn, sem vitanlegt er, að hafa ekki rétt til að bera blak af sér í þessari hv. d. Hitt er svo sem sjálfsagður hlutur, að hv. þm. er leyfilegt að fara hér niðrandi orðum um mig, því ég get svarað fyrir mig. En að draga aðra góða og gilda menn, sem eru margfalt heilladrýgri fyrir þjóðfélagið en þessi hv. þm. er eða nokkurntíma verður, inn í umr., til þess beinlínis að svívirða þá og sverta, það er það ljótasta, sem ég get hugsað mér.

Þó þessi hv. þm. hafi nú dirfzt að gera þetta hér í hv. d. og fylgja þannig eðli sínu, er það samt vitanlegt, að hjá hverjum þeim, sem les þingtíðindin og þekkir Matthías Einarsson, verður það hann, sem hækkar í augum landsmanna, en þessi hv. þm., sem lækkar að sama skapi, og er þó varla á það bætandi. En eftir því sem hefir komið í ljós af þessari stöðugu, fjandsamlegu árás hans á læknana, verður að álíta, að hún sé honum alls ekki sjálfráð.

Það má segja, að það er hægt að gefa skýrslur til eins og annars og misnota þær svo herfilega til bölvunar landi og lýð. Og það má segja um þessar skýrslur og reikninga, að það hefir ekki dottið neinum manni í hug, og sízt þeim mönnum, sem þær gáfu, að þær yrðu notaðar í þessunt tilgangi, sem hv. þm. hefir látið sér sæma. Ég veit það um báða þessa lækna, nafnana Guðmund Hannesson og Guðmund Björnson, að þeir hafa álitið, að slíkar skýrslur ætti að gefa í þeirri meiningu, að farið væri eftir löggiltri gjaldskrá, en ekki til þess, að þær væru notaðar í slíkum tilgangi sem þessum.

En svo ég minnist á gjaldskrána, þá vita það allir, hvenær hún er lögleidd, að hún er lögleidd árið 1908. Síðan hefir kaupgjald yfirleitt hækkað svo margfaldlega, en ekki fengizt breytt hinni gömlu gjaldskrá. Sér hver maður, hvaða vit er í þessu. Það er kunnugt, að ef læknir gerir vandasama operation, fær hann fyrir hana 20 kr. samkv. þessari gjaldskrá. Ég veit, að hver hv. dm. mundi viðurkenna, að slík borgun er alls ekki samsvarandi því starfi, sem læknirinn leggur af mörkum.

En þetta hefir ekki komið að gjaldi. Og því er þannig varið, að það er enginn sjúklingur svo gerður, að honum þyki ekki vel borgandi rífleg upphæð fyrir vel unnið verk, ef heilsu hans er þá betur borgið en áður. Og ég veit, að þessi þm., hv. 5. landsk., hefir ekki skorazt undan að borga það, sem upp hefir verið sett. þegar hann hefir farið til læknis til að fá bót meina sinna. (JónasJ: Ég þarf nú sjaldan að fara til læknis). Ég veit, að þessi hv. þm. hefir leitað til Kjartans Ólafssonar og borgað það, sem upp hefir verið sett. Og ég veit ekki til þess, að þessi læknir hafi trassað hann. Ég undrast það, þegar þessi hv. þm. er að fjandskapast við læknana, og það ákveðna lækna, að hann skuli þá vera að nota þessa ásæknu menn. En þetta sýnir ekki annað en það, að honum er þetta ekki sjálfrátt.

Svo hefir hv. þm. lesið upp reikninga frá Matthíasi Einarssyni. Þar kemur aftur fram löngunin til að játa ekki sérfræðinga dæma um það, sem á milli ber, heldur játa menn, sem ekki hafa jafnvel minnsta vit á, dæma.

Eins og menn vita, var það einn sérfræðingur, sem gaf upp álit sitt um heilsufar þessa hv. þm. Hann sá sér ekki fært að fara eftir því, en hefir lagt það undir dóm þjóðarinnar. Hv. þm. leiðist að hafa orðið undir í málaferlum, og nú vill hann láta þjóðina dæma, þegar lögmaðurinn er búinn að fella sinn dóm. Ég býst við, að það verði létt á metunum, hvað sem menn lesa í Alþt., þegar dómur lögmanns er fyrir því, að hv. þm. hafi farið með rangt mál. Ég veit, að hv. þm. hefir gert það, sem hann gat til að koma dómnum sér í vil í málinu móti Matthíasi Einarssyni. (JónasJ: Hvernig?) Með því að bera fram öll þessi plögg, sem hann var að lesa áðan: En það tókst ekki. Það sýnir sig þannig, að þegar maður, sem vit hefir á málunum, á að dæma, þá kemur það skýrt fram, að hv. þm. hefir farið með rangt mál.

En hvað viðvíkur mínum reikn., sem voru lesnir upp — það voru 3 reikn. lesnir upp frá mér —, þá bað ég hv. þm. að segja frá, hvað gert hefði verið við sjúklingana, en hann vildi ekki gera það. Allir 3 sjúklingarnir voru operationssjúklingar, og verð ég nú að lesa upp, hvað gert var við þá:

Sólrún Kristjánsdóttir: Tekin úr henni gallblaðran.

Hjalti Þór Hannesson: Nýrnaveiki, spegluð og tæmd þvagblaðran og gerður uppskurður.

Árni Helgason: Skorinn upp við kviðsliti.

Þessir reikn. voru líka allir lagðir fram hjá lögmanni, og eru ekki hærri en svo, að hann gefur þann úrskurð, að þeir séu fullforsvaranlegir að hans dómi. Um þetta er ég tilbúinn að koma með útdrátt úr dómsmálabókunum, ef hv. þm. vill véfengja það, sem ég segi.

Svo ég víki aftur að gjaldskránni og Hjalta Þór Hannessyni, þá vil ég sýna hv. dm. það, að það er illfaranlegt eftir þessari gjaldskrá, enda býst ég við, að henni verði bráðlega breytt. Svo var ástatt með þennan Hjalta, að hann hafði nýrnasjúkdóm. En til þess að vita, hvort um nýrnasjúkling er að ræða, þarf að spegla upp blöðru þeirra. Þetta var gert. En fyrir þetta vandasama starf, og það kostar verkfæri, sem er mjög dýrt, er ekki til einn stafur í gjaldskránni um að sé nein borgun fyrir, sem ekki er von, því það var þá alveg óþekkt að nota þetta áhald þegar gjaldskráin var sett.

Á þennan hátt geta menn séð, hvílík firra það er að fara eftir þessari gjaldskrá. Ég veit líka, að ég hefi ekki þurft að tala um þetta fyrir öðrum hv. dm. en 5. landsk., en mér þótti það þó sjálfsagt, þegar verið er að tala um þessa hluti af manni, sem hefir ekki snefil af þekkingu, en álítur sig hafinn yfir alla lækna, bæði í sérfræðum og heilbrigðismálum. Það hafa fleiri en ég rekið sig á, að honum er sérfræði svo mikill þyrnir í augum, að hann sér svart, ef sérfræðingur er nefndur á nafn. Svo maður hlýtur að undrast það, þegar maður veit, að þessi hv. þm. hefir áður verið kennslumálaráðherra, að hann skuli ekki hafa tekið sér fyrir hendur að þurrka háskólann út með allri sinni sérfræði.

Þá kem ég að þessu atriði, sem hv. þm. álítur sér hliðholt, að ólæknandi sjúklinga mætti ekki hafa á sjúkrahúsum. Um leið og það þarf sjúkrahús til að lækna sjúklingana, þarf líka sjúkrahús til að hjúkra sjúklingunum. Það þarf að láta sjúklingunum líða sem bezt. Það er nóg að verða að láta þá ganga með ólæknandi sjúkdóma, þó að ekki bætist við, að þeir kveljist í heimahúsum. Þetta veit ég, að allir hv. dm. geta fallizt á, og hver maður, sem ekki hefir steinhjarta, hlýtur að fallast á það. Ég segi fyrir mig, að mér finnst það bera vott um sjúkan hugsunarhátt og spilltan, að sjúkling, sem hefir ólæknandi sjúkdóm og sveitin á að annast, eigi að slá sem fyrst af, til að spara ríkinu útgjöld. Þegar um þetta er að dæma, þá er það sjálfsagður hlutur, að sá læknir, sem skoðar sjúklinginn, veit bezt um alla hans hagi og er dómbær um þetta. Hitt atriðið, sem hv. þm. hefir oft látið í veðri vaka, að fyrir læknum vekti ekki annað en það, að taka við peningum fyrir læknishjálpina, er heldur lítils virði, enda munu teljandi þeir læknar, sem ekki veita árlega ókeypis læknishjálp fyrir hundruð eða þúsundir króna. Innan þessarar spilltu stéttar, að því er fyrrv. dómsmrh. segir, eru þetta óskrifuð lög. Þessi óréttláta æsing, sem hann er að vekja á móti læknum landsins, verður honum til falls, en ekki þeim. Fjandskapur hans við mig í Hafnarfirði hefir gert það að verkum, að ég er kominn hér inn í þingsalinn; það er ég viss um. En hinn frambjóðandinn þar, sem er í mikilli vináttu við dómsmrh., sat eftir með sárt ennið. Læknastéttin á svo rík ítök í hugum landsmanna, að þeir vita, að hún á þetta ekki skilið, enda álíta margir það sjúkleik hjá hv. þm., hvernig hann hagar sér í þessu. Allar ásakanir hans um það, að fólki sé haldið á spítölum miklu lengur en þörf er á, eru staðlausir stafir, því að læknar þeir, sem þar eru starfandi, hljóta að vita betur en landlæknir, hvað hæfilegt sé í því efni.

Dómsmrh. minntist á Guðjón Waage og kvað hann ekki hafa þurft að vera á spítala. Það er reyndar leiðinlegt að þurfa að rekja sjúkrasögur hér inni í þingsalnum, en hv. 5. landsk. hefir gefið tilefni til þess.

Maður þessi fær heilablóðfall og getur enga björg sér veitt, og er enginn til að stunda hann nema systir hans fjörgömul. Hann getur t. d. ekki kastað af sér þvagi. Afleiðingar af heilablóðfalli skána stundum, en hættan á þvagteppu er mikil, auk kvalanna. Því var hann fluttur á sjúkrahús, til þess að leita bata. Hann fær þann aðbúnað, sem með þarf, en svo kveður landlæknir upp þann dóm, að þessa hafi ekki þurft með. Allir, sem lesa þingtíðindin, munu dæma, að honum hafi verið nauðsyn á að vera þar. Býst ég við því, að ef hv. 5. landsk. hefði þvagteppu, þá myndi hann óðara láta flytja sig á spítala, til þess að láta tappa af sér þvagið. Annars álít ég þetta ekki frekar svara vert. Er það leitt verk að reka aftur allar staðleysur þessa þm., er hann beinir gegn læknastéttinni.

Svo að ég víki lítilsháttar að brtt. hv. þm. og ummælum þeim, er hann lét falla á móti till. minni um aukakennslu við háskólann, vil ég geta þess, að ég hafði í morgun ekkert á móti því, að til starfsins væri valinn maður reglusamur og skyldurækinn við sjúklinga sína. En aðalatriðið fannst mér þó vera, að sá maður hefði þekkingu í bezta lagi til að kenna það, sem kenna þarf. Eru víða til læknar, góðir og skylduræknir, sem bragða ekki vín, en sem hafa þó enga kennarahæfileika. Er það aðalatriðið í þessu máli, að til starfsins sé fenginn maður, sem er skyldurækinn gagnvart starfinu og hefir góða þekkingu. En það mætti vel tryggja, ef hinir réttu menn væru látnir velja mann til starfsins, eins og t. d. prófessorar háskólans. Eru þrír þeirra yfirlæknar við landsspítalann, og er hv. þm. mjög ánægður með prófessorana, lauk t. d. miklu lofsorði á Guðmund Hannesson. Eru allir þessir menn full trygging fyrir því, að góður maður yrði valinn. En hinsvegar þykist ég vita, að ef hæstv. dómsmrh. ætti að ráða mann til stöðunnar, þá myndi ekki verða lítið á hæfileikana fyrst, heldur það, hvort sá maður væri líklegur til að verða honum leiðitamur. Hann hefir sýnt það, að um skipun læknaembætta hefir hann ekki farið eftir vilja manna í kjördæmunum, heldur hefir hann fengið menn, sem af einhverjum orsökum höfðu orðið undir í samkeppninni, annaðhvort af því, að þeir voru lakari læknar en aðrir, eða af öðru, og sem hann þess vegna gat fengið til að ganga á móti læknastéttinni yfirleitt. Það var því ekkert úrval, sem hann setti í embætti við þrjár síðustu veitingar. — En svo að ég víki að brtt., þá held ég, að bezt sé, að prófessorar háskólans hafi úrskurðarvald um það, hvort maður sé hæfur til slíks starfa, en ekki dómsmrh., sem er eins fjandsamlegur læknastéttinni og raun ber vitni um. Svo vil ég minna hv. dm. á það, að ég mun, þegar gengið verður til atkvæða, greiða atkv. á móti þessari brtt., af því að hún getur ekki staðizt, þar sem með henni er niður felldur liður, sem er í fjárl. Álít ég því ekki hægt að samþ. hana.

Hv. 5. landsk. vildi véfengja, að rétt væri með farið hjá mér, að forstjóri læknadeildarinnar hefði talað við fyrrv. kennslumálaráðh. um það að fá dr. Helga Tómasson til að kenna geðsjúkdómafræði endurgjaldslaust og vildi slengja því yfir á Jón heitin Magnússon, sem var þá dómsmrh. Hv. 5 landsk. gekk frá samningum þeim, sem gerðir voru við H. T., og munnlegir samningar voru ekki bindandi. Datt mér að vísu ekki í hug að kasta hnútum að honum fyrir það að hafa gleymt þessu. En þessa kennslu verður að sjálfsögðu að taka upp, en í till. stendur ekkert um það, hvort H. T. eða núv. læknir á Kleppi skuli hafa hana á hendi, og held ég þó, að þeir séu ekki sambærilegir að þekkingu.

Þá þykir mér það nokkuð kátlegt, að Kjartan Ólafsson megi ekki kenna augnlækningar, af því að hann hafi stokkið til Englands í vetur. Er það undarlegt, ef læknar mega ekki fara til útlanda til þess að fullnuma sig í sinni grein.

Hv. þm. minntist á gjald fyrir sjúklinga á landsspítalanum. Vil ég alls ekki hafa á móti nauðsyn á því að lækka sjúkrakostnað sem mest, og sjálfur hefi ég farið vægilega um borgun læknishjálpar, sem ég hefi veitt. Þeir reikningar, sem ég sendi til stjórnarráðsins fyrir berklalækningar, voru borgaðir umtölulaust þegar hv. 5. landsk. var ráðh., og ber það vitni um það, að ég hafi ekki farið of langt í kröfum mínum. Munu og fleiri bera mér það. Mun því mega ganga út frá því, að það sé ekki yfirdrepskapur, þegar ég segi, að ég vilji ekki láta íþyngja sjúklingum. Flestir, sem á landsspítalann koma, eru þar stutta stund, en allir eru látnir borga tiltölulega jafnt. T. d. læknast botnlangabólga og kviðslit tiltölulega fljótt, en nýrnasjúkdómar og aðrir króníiskir sjúkdómar taka langan tíma. Þeir, sem lengi liggja, verða þannig að borga læknishjálp fyrir þá, sem fá lækningu á skömmum tíma. Vildi ég láta lækka gjaldið fyrir þá, sem ekki eru „operations“-sjúklingar.

Þá var lítilsháttar minnzt á bindindisfél. í skólum, en að því kem ég seinna.