31.07.1931
Neðri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (2633)

Landhelgisgæsla

Vilmundur Jónsson:

Hæstv. forseti leyfði mér þegar í gær að bera hér fram utan dagskrár fyrirspurn til stj., en af því að hæstv. forsrh. þurfti að vera viðstaddur fundarhald í Ed., gat ekki orðið úr því þá. Ég hefi síðan haft tal af hæstv. ráðh., en vil þó engu að síður bera fyrirspurn mína fram í heyranda hljóði, svo að svör hæstv. ráðh. geti náð allra eyrum.

Svo er mál með vexti, að síldveiðimenn fyrir norðan land, og ekki sízt Vestfirðingar, er ég þekki bezt, eru margir mjög óánægðir með landhelgigæzluna þar. Erlendir fiskimenn eru þar nú ríkari fyrir landi og hættulegri keppinautar landsmanna en nokkru sinni áður, og væri því ástæða til þess að gæta landhelginnar betur en ella. Enda líta fiskimenn svo á, að stj. sé það nú vel fært að gæta landhelginnar svo, að að fullu gagni kæmi.

Stj. hefir nú 3 skip til umráða. Eitt var við sjómælingar norður á Húnaflóa, en varð þar fyrir slysi og er nú ekki sjófært. Annað er hér fyrir sunnan að einhverju leyti í lamasessi. Það þriðja er fyrir norðan land, að nafninu til við landhelgigæzlu, en stundar jafnframt síldveiðar. Þessi tvö störf þykja ekki samrýmanleg. Skipstjóri hefir hingað til lagt mikið kapp á síldveiðarnar og hefir aflað mikið, en skipið er illa útbúið til skjótrar afgreiðslu, enda hefir hún gengið illa, og eru dæmi til, að Þór liggi við bryggju á Siglufirði jafnvel allt að sólarhring í einu. Á meðan geta útlendingar veitt og umhlaðið í landhelgi, og munu ekki hlífast við. Eru dæmi til þess, að þeir hafi verið allt inni undir Málmey að þessari iðju sinni.

Fiskimenn hafa kvartað yfir þessu til stj. og farið þess á leit, að hún legði fyrir skipið að hætta öllum síldveiðum. Þennan atvinnurekstur mun og baga annað meir á þessu ári en vöntun síldar. Seinast þegar ég frétti að norðan, höfðu menn ekki orðið varir við, að stj. hefði gert neina breyt. á þessu háttalagi varðskipsins. Hitt hafa þeir heyrt, að stj. hafi leigt skip það, er hún hefir fyrir sunnan, Ægi, til þess að fara skemmtiferð, og hefir félag hér í bænum auglýst það með 5 daga fyrirvara.

Ég vil spyrja hæstv. forsrh., hvort það sé rétt, að Ægir sé þegar leigður til þessarar skemmtiferðar, og ef svo er, hvort því verði ekki breytt, er honum hafa nú borizt þessar umkvartanir, og skipið í þess stað látið fara norður jafnskjótt og aðgerð þess er lokið.

Ennfremur vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort stj. muni ekki sjá sér fært að leggja svo fyrir skipherrann á Þór, að hann hætti tafarlaust síldveiðum, en leggi allt kapp á landhelgigæzluna.

Þá vil ég geta þess, að það hefir líka valdið óánægju fyrir norðan, að flugvélin hefir ekki komið að því gagni við síldarleit og landhelgigæzlu, sem til var ætlazt. Hafa útvegsmenn og sjómenn þó orðið að kosta þessar flugferðir með ærnum tolli af atvinnu sinni. Flugvélin er eins og varðskipin oft í snattferðum, sem ekki geta samrýmzt landhelgigæzlunni. Svo að ég nefni eitt dæmi, stóð svo á fyrir norðan 17. júlí síðastl., að flugvélin var í ferðalögum allan daginn milli Siglufjarðar og Akureyrar með erlenda skemmtiferðamenn, en varðskipið Þór kom af síldveiðum kl. 8 um kvöldið og var inni þangað til kl. 11 síðd. daginn eftir. Á meðan gátu útlendingar verið í landhelgi, veitt þar og athafnað sig eins og þeir vildu.

Ég vona, að hæstv. stj. svari þessu greiðlega og gefi helzt skýr loforð um, að Ægir fari þegar norður, er hann er ferðbúinn, en Þór hætti tafarlaust síldveiðum.