19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

1. mál, fjárlög 1932

Halldór Steinsson [óyfirl.]:

Ég get verið mjög stuttorður. Ég á hér tvær litlar brtt. við fjárlagafrv. Önnur er á þskj. 342, við 13. gr. B, 2, um flóabátaferðirnar. Ég flutti till. þessa við 2. umr. fjárlagafrv., en tók hana þá aftur til 3. umr. Ég gerði grein fyrir þessari till. þegar ég bar hana fyrst fram og tel því óþarft að bæta miklu við það, sem ég sagði þá. Það stóð svo á, að fjvn. Nd. hafði lækkað styrkinn til flóabátaferða um 3000 kr., með tilliti til þess, að fækka mætti ferðum Suðurlands, þannig að það hefði ekki á næstu árum nema fjórar ferðir til Breiðafjarðar, í stað tíu áður. Þar sem mér er ekki kunnugt um, að nokkursstaðar annarsstaðar á landinn hafi verið farið fram á að fækka ferðum á sjó í framtíðinni, þá finnst mér mjög ósanngjarnt að taka þennan fjörð þannig út úr, þar sem aðalsamgöngurnar eru á sjó. Geri ég því að till. minni, að styrkurinn verði hækkaður um 2000 kr., og að það sé sett sem skilyrði fyrir styrknum, að Suðurland fari a. m. k. átta ferðir til Breiðafjarðar.

Þá er hin till., á sama þskj., XXIX, við 22. gr.till. fer fram á að ábyrgjast allt að 20 þús. kr. lán fyrir Stykkishólmshrepp, gegn þeirri tryggingu, sem stj. metur gilda. Skal ég nú með fám orðum skýra frá því, hvernig á till. þessari stendur.

Veturinn sem leið var allhart um atvinnu í Stykkishólmi og hagur manna fremur bágborinn. Til þess að ráða bót á þessu og forða hreppnum frá yfirvofandi hættu, tóku þorpsbúar það ráð að stofna samvinnufél. í því skyni að kaupa gufuskip til þess að stunda fiskveiðar. En til þess að koma fél. á laggirnar, þurfti hreppsfél. að gerast hluthafi í því og taka í því 20 þús. kr. hlut. Nú átti hlutaféð að greiðast fyrri hl. sumars. Hreppsn. Stykkishólmshrepps leitaði fyrir sér um lán til þess að greiða sinn hluta, en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefir enn eigi tekizt að fá lánið, og þó má kauptúnið sjálft teljast fremur vel stætt. Til þess nú að létta undir með kauptúninu um lántöku þessa, er hér farið fram á, að ríkið gangi í ábyrgð fyrir láninu, og mun þá auðvelt um lántöku þessa, þegar ríkisábyrgð er að baki. Vona ég fastlega, að vel verði tekið í þessa málaleitun, því að hún er í samræmi við margar aðrar till., sem fram hafa verið bornar, bæði á þessu og öðrum þingum, þar sem slíkur félagsskapur sem þessi hefir verið styrktur. Upphæð sú, sem hér ræðir um, 20 þús. kr., er mjög lág, þegar tillit er tekið til þess, að hér er um tiltölulega vel stætt fél. að ræða, og engin hætta á því, að ríkissjóður muni bera skarðan hlut frá borði, þótt þessi ábyrgð fengist. Vona ég því, að till. verði samþ.