19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

1. mál, fjárlög 1932

Jónas Jónsson:

Hv. þm. Hafnf. hélt hér alllanga ræðu, sem lauk þó þannig, að hann hafði ekki hrakið neitt af því, sem ég sagði. Ég vil samt gera honum skil út af ræðu hans. Ég lagði hér fram og las upp nokkra reikninga, sem tveir landlæknar höfðu fjallað um, en reikningarnir voru frá hv. þm. sjálfum og praktiserandi lækni hér úr bænum, einmitt mönnum, sem höfðu ætlað með meiðyrðamálum að sanna, að þeir væru ekki reikningsharðir við landið, og þm. tók það svo nærri sér, að hann taldi það sérstakar svívirðingar um fjarstadda menn.

Það er satt, að annar þessi læknir er fjarstaddur, en ég get ekki séð, hvernig hann eða hv. þm. Hafnf. gat búizt við, að opinber skjöl, sem þeir hafa sjálfir búið til, séu þess eðlis, að það sé skömm fyrir þá, að þau séu lesin upp, því að annað var ekki gert. En ef þetta er rétt hjá hv. þm., þá á hann það við sjálfan sig og starfsbróður sinn í Keflavík.

Hv. þm. sagði, að það væri eitt það ljótasta, sem hægt væri að hugsa sér, að þessir reikningar væru lesnir upp. Hvernig gátu reikningar, sem þm. hafði sjálfur búið til, sett þm. í svona vont skap? Ég hafði sagt, að það kostaði 10 kr. á dag að liggja á þessum umrædda spítala, og nú sannaði ég með frumheimildunum sjálfum, að þetta var laukrétt. En hvers virði er þá málssókn þessa læknis, sem einmitt átti að breiða yfir 10 kr. legukostnað á dag?

Hv. þm. sagði, að þessi maður, sem ég minntist á, mundi stækka í augum allra við ræðu mína. Ég ætlaðist hvorki til að hann stækkaði né minnkaði. Það var aðeins viðskiptaatriði, að ég vitnaði í þessa reikninga, og það er dálítið neyðarlegt fyrir hann að fá þá nú eftir meiðyrðamálið. (PM: Er dómurinn þá rangur?). Hv. þm. veit, að hans stétt gerir ráð fyrir því, að dómar geti verið rangir, og ég býst við, að hann sé þar ekki heldur eins óskeikull og páfinn er álitinn meðal kaþólskra manna.

Þá hélt hv. þm. Hafnf. því fram, að það væri óleyfilegt að lesa upp þessa reikninga með áritun Guðmundar Björnsonar og bréf frá Guðmundi Hannessyni. Af hverju var það óleyfilegt? Ég býst við, að honum hafi þótt það óleyfilegt af því að það kom honum illa, að þessir reikningar voru lesnir upp. Reikningarnir sýna fremur leiðinlegan innri mann hjá honum, hugarþel, sem hann vill dylja fyrir almenningi eins lengi og hægt er. Það ber vott um það, að hann hefir orðið fyrir þeirri hneisu, að skrifa reikninga til ríkissjóðs, sem yfirmaður hans, landlæknirinn, gerir hann ómerkan að, eins og ég skal nú sýna.

Hv. þm. hafði þau brjóstheilindi, eftir að ég hafði lagt fram þessa reikninga, að hann sagði, að hann hefði alltaf fengið hvern eyri borgaðan af sínum reikningum. Hér er einn reikningur frá honum upp á 80 kr., sem hann fær 36 kr. borgaðar af. Það væri kölluð vanskil af manni í bönkunum, ef hann borgaði ekki meiri hluta af skuld sinni en þetta, en hér er um siðferðisleg vanskil að ræða.

Hér er annar reikningur, 135 kr., borgaðar þar af 53 kr. Hv. þm. vill kannske halda því fram, að hann hafi komið fram einhverjum gjörningum, svo að hann hafi fangið borgað hjá ríkisféhirði meira en landlæknir ætlaði honum, en ég býst nú samt ekki við, að hv. þm. haldi því fram.

Þá er hér einn reikningur, 155 kr., borgaðar af honum 66 kr., og annar upp á 75 kr., borgaðar 44 kr.

Ég er ekki að segja, að hv. þm. Hafnf. hafi þótt skipta svo miklu máli, hvort hann fékk helminginn af þeim borgaðan eða ekki. Hitt skiptir meiru máli fyrir hann, þegar það kemur í ljós, að hann er gerður ómerkur að kröfum sínum á ríkissjóð, eins og hrossaþrangari, sem enginn trúir. Sérstaklega þótti mér þó óviðkunnanleg þau orð, sem hann hafði um landlækni, þegar hann athugaði, hvað mikil lítilsvirðing það var fyrir hann, að hafa sent svona reikninga. Ég vil þess vegna halda því fram, að það sé óhugsanleg og óverjandi röksemdafærsla hjá hv. þm., þegar hann reynir að halda því fram og láta líta svo út, að reikningar til ríkisins frá praktiserandi lækninum í Hafnarfirði komi engum við og að það sé svívirðing að lesa þá upp. Það er ómögulegt að fá neitt vit í þetta, nema hann hugsi, að það sé eyðileggjandi fyrir sig og sinn málsstað að lesa upp þau skjöl, sem hann hefir sjálfur samið.

Út frá þessum reikningum sagði hann svo, að það væri ekkert að marka, hvað landlæknarnir Guðmundur Björnson og Guðmundur Hannesson segðu, af því að þeir væru ekki sérfræðingar. (BSn: Ég sagði það aldrei; ég sagði, að landlæknir hefði ekki eins góða aðstöðu til þess og sá læknir, sem stundaði sjúklinginn). Ég skrifaði þetta orðrétt eftir honum. Nú voru margir af þessum sjúkdómum algengir uppskurðir, og hefðu þessir kunnu læknar, Guðmundur Björnson og Guðmundur Hannesson, átt að geta dæmt um slíkar lækningar eins vel og hinn gáfnatregi þm. Hafnf. En ef hv þm. hefir átt við það, að þeir hafi ekki getað dæmt um reikningana sjálfa, þá hlýtur að vera þar um tvennt að gera, annaðhvort að landlæknarnir Guðmundur Björnson og Guðmundur Hannesson séu tiltakanlega heimskir menn, eða að reikningarnir eru bjánalega gerðir frá hendi hans sjálfs, þannig að þessir skýru menn hafi ekki getað áttað sig á þessu.

Þá tók hv. þm. nokkur dæmi enn til að sýna fram á, að landlæknarnir væru ekki færir um að dæma um þessa reikninga, og þó sérstaklega á móti bréfum Guðmundar Hannessonar um það, að menn væru látnir liggja á dýrum spítala, sem ættu þar ekki að vera, en að því kem ég síðar. En svo minntist hann sérstaklega á einn lækni, sem nú er mjög frægur orðinn, en ég tók ekki mjög mikið mark á, þegar þessi svokallaði sérfræðingur kom til mín og sagði, að ég væri brjálaður. Hefði ég nú átt að bjarga þessum manni, þá hefði ég átt að verða brjálaður. Með því einu móti var hægt að bjarga honum frá þeirri skömm, að verða útlagi tveggja konungsríkja og sérstakt undur í hópi lækna. En fyrst ég vildi ekki gera læknaklíkunni þann greiða, þá er það almennt álitið, að íslenzkir læknar hafi við þetta beðið stórkostlegan ósigur, því að það er skömm, og það ekki lítil skömm, að sérfræðingur þekki ekki heilbrigðan mann frá svo hættulega veikum manni, að þurfi innan 12 tíma að svipta hann umboði, sem borgarar landsins höfðu falið honum. Hér er því aðeins um tvennt að gera: Annaðhvort stendur þessi Helgi Tómasson á svo afskaplega lágu þekkingarstigi í sinni fræðigrein, eða að eitthvað af hans karakter er svo slæmt, að slíkur maður geti ekki átt upp á pallborðið í fleirum en tveimur konungsríkjum. Ég held því, að þeir fáu menn, sem nú hlusta á í kvöld, og þeir mörgu menn, sem síðar lesa þingtíðindin, sjái, hvað mikið ég átti að gera til þess að gleðja hann og hans flokksblöð, nefnilega að verða allt í einu bandvitlaus og bjarga manninum þannig frá að lenda í þessari skömm.

Þá kom hv. þm. að því, að úr því að hann hefði unnið meiðyrðamál út af of háum reikningum, þá hlytu reikningarnir að vera réttir og ekki of háir. Það getur nú enginn ætlazt til meira af honum um vitsmuni heldur en þessi framsláttur bendir til, en það hefði kannske mátt búast við meiru af hv. 4. landsk. Hér liggja nú fyrir skjalfest gögn um það, að hv. þm. Hafnf. hafi tekið helmingi, stundum þriðjungi meira en rétt var fyrir sjúklinga sína af því opinbera, og að það hafi orðið í þessu efni að meðhöndla hann eins og hrossaprangara. Þetta eru opinber skjöl og þúsundir af slíkum skjölum ættu að vera lagðar fram, svo almenningur gæti séð þau og dæmt um þau. Þá sagði hv. þm. Hafnf., að ég væri trúlaus á sérfræðingana. Og ennfremur sagði þessi hv. þm., að ég hefði átt að vinna að því, að háskólinn yrði lagður niður. Ég held, að það sé nú almennt viðurkennt, að þeir, sem við háskólann kenna, séu ekki allir miklir sérfræðingar, enda mun það rétt, að allur þorri landsmanna veit, að þar vinnur töluvert af liðléttingum. En ef hv. þm. athugaði þau skjöl, sem til eru viðvíkjandi byggingarmáli háskólans, þá myndi hann sjá, að ég hefi unnið meira en aðrir landar mínir að því, að háskólinn fengi þak yfir höfuðið. Og ég hefi gert það án tillits til þess, þó eitthvað væri þar nú af lítilfjörlegum mönnum. Ég vil minna þennan hv. þm. á það, að öðrum manni hefir dottið í hug að leggja niður háskólann, og sá maður er enginn annar en aðalmaður flokks hans. Sá maður kom á þingi 1924 með till. um að leggja niður þjóðlegu deildina við háskólann. Íhaldsliðið gerði það sem það gat til þess að koma þessu í framkvæmd. En það var öðrum mönnum að þakka, að þetta varð ekki, og þá aðallega okkur framsóknarmönnum.

Þá hafði hv. þm. veitt því eftirtekt, að í bréfum þeim, sem ég las upp frá Guðmundi Hannessyni, þáv. landlækni, var talað um nokkra sjúklinga, sem óþarft myndi vera að halda á spítala. Hann taldi þetta bera vott um spilltan hugsunarhátt hjá mér og fór að gera mér upp þau orð, sem ég las upp úr bréfum G. H. landlæknis. Þau orð sýndu, að hann leit svo á, að nokkuð mikil frekja kæmi fram í þessum reikningum. Þessi hv. þm. þarf að skinna svolítið upp á skilning sinn, ef hann á ekki að gera öðrum manni upp þau orð, sem þessi læknir segir.

Þá taldi hv. þm. það lúalega aðdróttun til sín og Matthíasar Einarssonar, að ég las upp nokkra reikninga, sem sýndu, að þeir hefðu ekki verið beinlínis lítilþægir í kröfum sínum. Nú skulum við hugsa okkur, að þetta væri öfugt, og Sólrún Kristjánsdóttir hefði ekki fengið reikning nema upp á 44 kr., en landlæknir hefði hækkað hann upp í 95 kr., eða þá að læknirinn hefði sagt, að það væri nóg að fá 66 kr., en landlæknir hefði sagt, að hann vildi hækka það upp í 135 kr. Ég held, að fólk hneigðist frekar að þeirri skoðun, að reikningarnir sýndu óeigingirni, ef landlæknir hefði hækkað þá. Og ég být við, að fólki muni ganga illa að trúa því, að það beri vott um sérstaka óeigingirni að hafa reikningana 100% hærri en þeir eiga að vera, eins og nú er sannað um hv. þm. Hafnf.

Þá kom hv. þm. með ásökun, sem myndi ganga mér mjög nærri, ef sönn væri, og það var sú ásökun. að ég hefði átt að stuðla að því, að hann ætti sæti í þessari hv. d. Ég skal játa, að þetta er þungur áburður, því það lítur ekki út fyrir, að d. ætli að verða gagn eða prýði að veru hans hér. En ég verð nú að halda því fram, að ég sé algerlega saklaus í þessu efni. En það er ekki nema náttúrlegt, að honum finnist það óeðlilegt, að hann skuli hafa verið kosinn, og þurfi því að reyna að leita einhverra óeðlilegra orsaka til þess. En um skýringuna á þessu veit enginn betur en hv. 2. landsk. Það var af því, að hann smeygði sér upp í hina miður þrifalegu flatsæng Íhaldsins síðastl. vor, að hann og flokkur hans beið töluverðan álitshnekki. Það var því að kenna hv. 2. landsk., sem óafvitandi eða vitandi vits varð til þess að fara upp í þessa áðurnefndu flatsæng og varð með því þess valdandi, að þessi hv. þm. var kosinn í Hafnarf.

Þá kom hv. þm. að sjálfri till., sem er um það að draga saman 500 kr. til kennslu í lagalæknisfræði og 1000 kr. til kennslu í augnlækningum og binda það því skilyrði, að maðurinn, sem kennsluna á að hafa á hendi, sé bæði reglusamur og skyldurækinn. En hv. þm. vill hafa það óákveðið, hvort hann á að vera svo eða ekki, og að maður, sem hvorki er reglusamur né skyldurækinn, geti fengið stöðuna. Nú er í fjárl. eins og þau koma frá Nd. ákveðnar 1000 kr. til augnlæknis í Rvík, og styrkurinn er þar bundinn því skilyrði, að læknirinn segi stúdentum til við háskólann og veiti fátæku fólki ókeypis læknishjálp einu sinni í viku. Þetta vill hv. þm. fella burt. Ég tók það fram áður, að ef hans till. yrði samþ. og óheppilega valinn maður fengi stöðuna, þá myndi það hafa þau áhrif, að slíkur maður myndi ekki fá að vinna við landsspítalann. Þar af leiðandi tapar þetta augnveika fólk aðstöðunni til þess að komast á landsspítalann og verða þar aðnjótandi ódýrrar læknishjálpar, og í öðru lagi tapar almenningur ókeypis læknishjálp. Allt þetta vill hv. þm. vinna til þess, að maður, sem er ekki reglusamur, komist að starfi við háskólann. Þá skýrði hv. þm. þessa skoðun sína nánar og sagði, að það væri auðvitað gott, að maðurinn væri reglusamur og skyldurækinn, en það væri ekki nóg, og svo kom það, að það væri eiginlega. ómögulegt, að reglusamur maður gæti verið góður kennari. Ég held nú aftur á móti, að það sé alveg óhugsandi, að maður, sem er hvorki reglusamur né skyldurækinn, geti verið góður kennari.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að allir læknarnir við landsspítalann væru prófessorar við háskólann. En af þessum 3 er Gunnl. Claessen ekki starfsmaður við háskólann og tekur ekki þátt í fundahöldum þar nú, þótt hann hafi einhverntíma gert það. Þetta hefði nú hv. þm. átt að vita. Þá sagði hann, að það hefðu ekki verið hæfileikamenn, þessir læknar, sem embætti fengu á meðan ég var í stjórninni. Það er skrítið, hvað þessum hv. þm. er laus höndin við stéttarbræður sína. Hann hefir farið hinum ósæmilegustu orðum um Guðmund Björnson landlækni, en sá síðar, að þau voru óviðeigandi og tók þau eiginlega aftur. Í þessum flokki, sem hér um ræðir, eru læknarnir við landsspítalann, þeir Jón Hjaltalín, Gunnl. Claessen og Guðmundur Thoroddsen. Þessir menn hafa allir fengið störf sín með formlegri undirritun minni. Margir af héraðslæknum þeim, sem fengu embætti í minni tíð, eru ungir menn, sem yfirleitt eru í meira áliti en hv. þm. Hafnf. sem læknar, og einkum sem menn. Þar sem hv. þm. sagði, að ekki hefði verið farið eftir vilja fólksins, þá er því til að svara, að það komu fram ákveðnar undirskriftir um 3 héruðin og ekki annarsstaðar, og voru þau veitt eftir tilmælum fólksins þar. Þessi héruð voru Seyðisfjörður, Dalasýsla og Stykkishólmshérað. Þar sem engar óskir komu fram, varð að taka álitlegasta umsækjandann af þeim, sem löglega sóttu, og það hefi ég alltaf gert. Hv. þm. Hafnf. hafði þau orð um hús Sigv. Kaldalóns, að það væri „recreationsheimili“. Já, sannleikurinn er nú sá, að heimili Sigvalda er merkilegt, og ekki einungis fyrir það, að Sigvaldi er sjálfur merkilegur maður. Fólkið í Grindavík hefir sem sé skotið saman í læknisbústað handa Sigvalda Kaldalóns. Og mér er ekki kunnugt um, að nokkur læknir annar hafi fengið samskonar viðurkenningu. Landið hefir oft styrkt lækna til þess að byggja yfir sig, en það er einsdæmi, að í einu þorpi sé skotið saman 15 þús. kr. til að byggja hús yfir lækninn. Það er varla hægt að hugsa sér meiri ósigur fyrir þennan hv. þm., sem gerði allt, sem hann gat, til þess að spilla fyrir því, að Sigvaldi fengi Keflavíkurhérað. Það er merkilegt, að sá læknir, sem læknaklíkan ofsótti, skuli hafa orðið fyrir svona miklum heiðri af héraðsbúum sínum. Það er vel viðeigandi að kalla heimili Sigvalda hressingarhæli, því það er áreiðanlegt, að Sigvalda hefir orðið mikil hressing að því að finna þennan hlýja hug streyma til sín, um leið og hann mætti leiðinlegri framkomu frá lítilsigldum manneskjum í sinni eigin stétt, læknastéttinni.

Það lítur út fyrir, að hið langgáfulegasta, sem hv. þm. Hafnf. hefir gert, sé það, að hann sló því föstu við framboðið í Hafnarfirði í vor, að hann ætti ekki að halda nema eina ræðu; því að með hverri ræðu, sem hann heldur, gefur hann nýjan höggstað á sér.

Ég vil nú aðeins rifja upp helztu atriði þess máls, sem hér er deilt um. Í stjórnarfrv. eru ákveðnar 500 kr. til kennslu í lagalæknisfræði og 1000 kr. til augnlæknis. Þessi læknir á að kenna við háskólann og einnig að vinna við landsspítalann, ef hann er sómasamlegur maður. Þessu vill hv. þm. breyta í einn lið, þannig að til aukakennslu við háskólann skuli varið 2000 kr. og ráðstafi læknadeild því fé. Hér er alls ekki ákveðið, hvernig með þessa upphæð skuli farið. Hann virðist gefa í skyn, að nokkuð af þessu eigi að fara til kennslu í lagalæknisfræði, og telur, að engin lagalæknisfræði muni verða kennd, ef mín till. yrði samþ. Því er nú til að svara, að sá maður, sem hefir haft þetta með höndum, hefir fengið svo margar vænar sneiðar, að hann ætti að geta gert þetta án nokkurrar aukaborgunar.

Ef till. hv. þm. verður samþ., þá hefst þar með frægur kapítuli í sögu þingsins, ef það kemur í ljós, að á Alþ. þurfi að tryggja háskólanum, að óskylduræknir og óreglusamir læknar sætu þar fyrir starfi. Það er eðlileg afleiðing af því að kjósa til þings menn, sem standa á sama menningarstigi og hv. þm. Hafnf., ef Alþingi fer að tryggja með sérstökum ráðstöfunum helztu ódyggðir opinberra starfsmanna.