19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

1. mál, fjárlög 1932

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Það er spaugilegt að heyra hv. 5. landsk. tala. Hann heldur, að hann hafi vit á öllu. Hann er ekki að hika við að telja mann heimskingja, ef maður segir eitthvað annað en það, sem honum gott þykir.

En svo að ég víki að því, sem hann segir, að ég hafi sagt, þá tekur hann upp eftir mér orð, sem ég hefi aldrei sagt, og hamast svo við að hrekja það. Hann segir mig hafa sagt, að hann hafi svívirt landlækni. En ég var ekki að tala um landlækni. Það var Matthías Einarsson, sem ég sagði, að hann hefði svívirt. Þetta vita allir, sem á mig hlustuðu.

Í öðru lagi gerir hann mér upp þau orð, að sá maður geti ekki verið góður kennari, sem er skyldurækinn og reglusamur. Það mun enginn annar en þessi hv. þm. dirfast að segja, að ég hafi sagt þetta. Þannig gerir hann mér upp orðin of hrekur þau ummæli, sem ég aldrei hefi viðhaft. Það má halda margra klukkustunda ræðu með þeim hætti.

En svo að ég víki að meiðyrðamálunum, þá segir hann, að ég hefði farið í meiðyrðamál, af því að ég fengi ekki reikninga mína nógu vel borgaða. En þar sem svo átti að heita, að hann væri minn yfirboðari, þar sem hann var heilbrigðismálaráðh., þá áleit ég, að ég gæti ekki þagað yfir því, þegar hann bar fram aðra eins svívirðingu og þá t. d., að ég og annar læknir hefðum ætlað að láta sængurkonur og dauðvona menn kenna á því, að dómsmrh. træði á rétti okkar læknanna. Slíkar hugmyndir geta ekki fæðzt í heilbrigðs manns heila.

Ég met það þó við þennan hv. þm., að honum hefir þótt það leiðinlegt, að hann fór að svívirða fjarlægan lækni. Það sýnir, að eftir á getur hann skammazt sín, eða einhver flokksmaður hans hefir bent honum á, hvílík svívirðing þetta er, enda kemur það ekki svo sjaldan fyrir, að flokksmenn hans þurfa að setja ofan í við hann. En út af þessu meiðyrðamáli vil ég taka það fram, að á alþingshátíðinni var dómsmrh. úr framandi heimsálfu, sem sagði, að þótt réttarfarið væri slæmt í Ameríku, þá hefði dómsmrh. þar orðið að segja af sér, ef hann hefði verið dæmdur í svona máli, því, að slíkt hefði hvergi verið þolað nema í Niagararíki í Almeríku.

Annars sagði þessi hv. þm. svo margt ósegjanlega fáránlegt, svo sein eins og það, að ég hefði skrökvað því upp, að ég fengi reikninga mína borgaða. Ég hefi fengið alla reikninga mína borgaða upp í topp, og það meðan þessi hv. þm. var dómsmrh. Ég hefi sent þá beint til sveitarfélaganna og fengið þá borgaða umsvifalaust. En ég hefi ekki sett reikningana lægra, af því ég hefi viljað hafa hvern reikning sanngjarnan, miðað við verkið, sem unnið hefir verið. Og það er enginn sá, sem ekki hefir borgað, og þar með játað, að verkið hafi verið þessa virði.

Ég hélt, að ég hefði tekið það fram áður, að það, sem farið er eftir, er taxti frá 1908. Þá höfðu óbreyttir verkamenn um tímann 25 aura, en nú kr. 1,36. Það er svo sem auðséð, að það er enginn sanngirni í því, að taxti læknanna hefir ekki verið hækkaður. — En þegar við sendum reikning, þá miðum við við það, sem við álítum sanngjarnt fyrir okkar verk. Og praktiserandi læknar eru ekki á neinn hátt bundnir við gjaldskrá héraðslækna. Og ég er viss um, að þessi hv. þm. hefir borgað Kjartani eins og hann hefir sett upp og þar með viðurkennt það sanngjarnt.

Þá hefir hv. þm. oft sagt, að ég hafi farið niðrandi orðum um landlækni. Það eru hrein og bein ósannindi. Ég ætla að játa ummæli mín standa óbreytt eins og ritarinn hefir gengið frá þeim, svo að hver og einn getur séð þau. Ég sagði, að ef það ætti að fara í ljóslækningum eftir áliti þess manns, sem bezt hefði vit á þeim, þá væri það Gunnlaugur Claessen. Í því var ekkert niðrandi fyrir Guðmund Björnson landlækni. Með þessu er líka svarað því, er hann sagði, að ég bæri landlækni það á brýn, að hann væri ekki fær um að dæma um reikningana, og þarf ég ekki að svara því frekar.

En svo kom þetta geðveikistal í þessum hv. þm. Hann sagðist ekki hafa viljað gleðja læknana með því að verða vitlaus. Ég býst við, að þessi sérfræðingur hafi kveðið upp dóminn, af því að hann hafi ekki þurft að fá fleiri sannanir fyrir máli sínu. Ég er ekki fær um að dæma í þessu máli, en ég treysti á dóm sérfræðingsins í þessu efni. Ég efast ekki um, að hann hefði aldrei gefið upp álit sitt, ef hann hefði ekki haft nægar sannanir. Og hv. þm. hefir hagað sér á sama hátt síðan og hann áður gerði og glatt sérfræðinginn með því.

Viðvíkjandi reikningunum vil ég geta þess, að ég er ekki á móti því að draga þá fram, en ég mótmæli því, að gerð sé tilraun til að svívirða góða þegna, sem hvergi eru nærri. Ég býst við, að hann hefði getað komið svívirðingum sínum öðruvísi fram, t. d. í Bláu bókinni, því að þá hefðu þessir menn getað borið hönd fyrir höfuð sér.

Ég læt mér það mjög í léttu rúmi liggja, hvaða álit þessi hv. þm. hefir á hæfileikum mínum. Mér er alveg sama, hvort hann kallar mig prýðilega gefinn eða skilningssljóan. Það kemur mér ekkert við. Það væri allt annað, ef héraðsbúar mínir, sem til mín þurfa að leita, hefðu slæman huga til mín og lítið álit á mér. En mér finnst ljóst dæmi þess, að þeir hafi ekki sömu skoðun á mér og hv. þm., vera það, að ég er kominn hér inn í þingið, m. a. til að skattyrðast hér við hv. þm.

Það er á sömu bókina lært, þegar hv. þm. fer að tala um, hvað ég hafi sagt um læknaveitingarnar. Hann sagði, að síðustu 3 veitingarnar hefðu verið í trássi við læknafélagið og minntist þar á prófessoranna við landsspítalann. En ég þarf ekki að gefa skýringu á því, að það var sameiginlegt álit allrar læknastéttarinnar, að þeir væru sjálfkjörnir að verða yfirlæknar, sem haft höfðu kennsluna í þessum greinum við háskólann. Svo að ef dómsmrh. hefði gert öðruvísi, þá hefði hann fengið ákúrur fyrir það.

Gagnvart öðrum læknum við spítalann er það þannig, að yfirlæknunum var það í sjálfsvald sett, hverja þeir tækju fyrir undirmenn. Við þessu er ekkert að segja. Það var ekki dómsmrh., sem ákvað um þetta, heldur fór hann þar eftir till. þessara manna, eins og honum hefði áður verið skammar nær að gera við till. landlæknis í veitingamálum. En þá var landlæknir ekki á sama borði og nú.

Það eru hrein og bein ósannindi, að ég hafi spillt fyrir Kaldalóns, heldur hefi ég sem nágrannalæknir hans, unnið mikið með honum. Þegar hann les þetta, þá er ég viss um, að hann skammast sín fyrir að hafa verið í þessu kompaníi, sem hann komst í.

Ég ætla nú ekki að lengja þessar umr. öllu, meira, en vil þó enn minnast lítillega á landsspítalann. Ég gat þess fyrri, að ég vildi láta taka hærra gjald af þeim, sem eru stuttan tíma. Operationir eru dýrastar allra lækninga, af því að þær krefjast miklu meiri viðbúnaðar en aðrar lækningar. Læknar þurfa að hafa dýr tæki, sem kosta fleiri þúsund kr., og spítalarnir leggja til dýrar stofur, sem til þeirra eru eingöngu notaðar. Mér finnst sjálfsagt, að fátæklingar, sem þurfa að liggja langar legur, þurfi ekki að borga fyrir þá, sem eru þar aðeins fáa daga og eru innan skamms vinnufærir. Ég býst við, að hverjum og einum ætti að vera það ljóst, að þetta væri æskilegt. Ég verð að benda hv. þm. á, að þetta er mjög víða gert í nágrannalöndunum á þann hátt, að aðstoðarlæknunum við operationirnar er alveg goldið af þeim, sem opereraðir eru. Auk þess er víða tekið dálítið af þeim, sem upp eru skornir, og notað til að endurnýja verkfæri. Ég væri ekki á móti því, að koma þessu fyrirkomulagi hér á.

Og svo er loks með þessa till. hv. þm., að ef hún verður samþ., þá er fellt niður úr lögum gjald fyrir að kenna lagalæknisfræði. Og þótt hann segi, að Guðm. Thoroddsen ætli að kenna þetta, þá hefi ég ekki hans orð fyrir því. Og ekki er hægt að treysta því, sem þessi hv. þm. segir.

Loks lýsi ég það ósannindi, þar sem hann segir, að Kjartan Ólafsson hafi aldrei komið í landsspítalann. Hann hefir komið þangað og opererað þar sjúkling.