19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

1. mál, fjárlög 1932

Jónas Jónsson:

Ég býst nú ekki við að gera eins langa aths. og hv. þm. Hafnf., en ég vildi nota tækifærið til að leiðrétta dálitlar misfellur, sem fram komu hjá honum. Hann hafði stór orð um það, að verið væri að svívirða hér einn mann, sem minnzt var á. Hann hafði gefið reikninga sem sönnun í opinberu máli. Þetta bendir til, að hv. þm. finnist það leiðinlegt fyrir menn eins og hann og hans vini að fá skjölin á borðið, sem hafa átt að draga til þeirra fé úr ríkissjóði. Annað var ekki gert, og ef einhver hefir gert lækninum rangt til. þá er það hann sjálfur með því að gera þessa reikninga og senda þá. Um Sigvalda Kaldalóns er það vitanlegt að hv. þm. var einn af þeim, sem gekk frekast fram í því að reka hann úr læknafélaginu. En hv. þm. gat ekki hrakið það, hvernig Sigvalda var tekið af Grindvíkingum, og hve þakklátir þeir voru honum sem lækni og manni. — Gaman hefði ég haft af því að heyra dómsmrh. í Manitoba segja það, sem hv. þm. hafði eftir honum, því eftir því sem mér hefir fundizt hv. þm. ósannsögull um hluti, sem honum eru nær, þá kæmi mér ekki á óvart, þó þetta væri líka ósatt með öllu. En hvað viðvíkur meiðyrðarmálum, þá gera allir gys að þeim, sem halda, að þeir græði á slíkum málarekstri. Gott dæmi um slíkra sigra er það, að Björn Jónsson og Einar Kvaran voru dæmdir fyrir að kalla einn sýslumann dánumann. Í Danmörku var einusinni frægt mál, þar sem maður var dæmdur fyrir það að kalla annan mann heiðursmann.

Hv. þm. segist ekki hafa sagt annað um Guðm. Björnson í sambandi við ljóslækningar en að minna væri að marka hans dóm um ljóslækningar en Gunnlaugs Claessens. Þetta kemur ekki málinu við, úr því að Gunnlaugur er ekki landlæknir. En það, sem kemur málinu við og ég ætla að láta standa í þingtíðindunum aftur, ef hv. þm. strikar það út í ræðu sinni, er, að hann sagði, að ekki væri að marka það, sem Guðm. Björnson segði um þessa hluti, af því að hann væri í vösum tiltekins manns í landstj., manns, sem ekki er læknir. Þetta veit öll deildin, að hv. þm. sagði, og þar sem landlæknir er í þessu efni ráðunautur hverrar stj. um læknisfræðileg efni, þá er þetta árás á landlækni, eins og það er hugsað og sett fram. Eins og hv. þm. talar um þetta, þá er Guðm. Björnsson lítilmenni, þar sem hann lætur embættislegan yfirmann sinn ráða úrskurði um læknisfræðileg efni. Þetta er það, sem ég fordæmdi, af því að það er ósatt, og ódrengilegt að segja það.

Út af læknaveitingunum við landsspítalann varð hv. þm. að játa, að ástæða væri til þess, að hans félagsskapur var ekki óánægður með þá. Um hina læknana er það mála sannast, að þó ég auðvitað vildi fyrst og fremst láta yfirlæknana ráða, hvaða menn þeir tækju sér til aðstoðar, þá gátu verið þeir menn, sem bæði voru óreglusamir og óskylduræknir, en hefðu aldrei, meðan þessi stjórn var við völd, getað komizt að sem læknar, enda veit hv. þm. það, að óánægja var hjá ýmsum, sem vildu komast að sjálfir, út af ráðningu minni viðvíkjandi þeim læknum. — Ég býst við, að hv. þm. hafi kynnt sér eitthvað fyrirkomulag á spítölum í Danmörku, sem sveitarfélög reka, og blandar því svo saman við ríkisspítala, og af því hafi hans skökku ályktanir komið.

Út af ræðu hv. 6. landsk. voru 2 atriði, sem ég vildi minnast á. Annað er sú skoðun hennar, að templarar þurfi 10 þús. kr. til þess að fá sérstakan regluboða. Þar sem hv. þm. gat ekki hrundið því, að reglan hafi gert mikið gagn fyrir eldri kynslóðir, en virðist ekki ná til unga fólksins, þá sýnist ekki neitt til fyrirstöðu, þar sem þetta er í raun og veru ríkur og fjölmennur félagsskapur, að samvinna takist milli fræðslumálastjóra og þessa framkvæmdarstjóra templara, sem nú hefir verið ráðinn.

Út af ástandinu á Kleppi verð ég að segja það, að mér þykir ákaflega merkilegt að heyra þennan fulltrúa kvenna fara blessunarorðum um þennan fluguútsending flokks hennar. Margir helztu læknar erlendis hafa sagt, að hann hefði spursmálslaust verið rekinn úr læknafélögum þar fyrir ódyggð sína. Og það er kunnugt, að hann fékk ekki embætti í danska ríkinu fyrir ástæður, sem ekki komu heim við skoðun hv. 6. landsk. Hinsvegar er það öllum kunnugt, að stofnun, sem þessi kona stendur nærri, Elliheimilið, hefir mikið gagn af honum eins og nokkurskonar meðhjálpara, þessum útlaga úr 2 konungsríkjum. Ég álít, að það sé ágætt, að þessi stofnun, sem hv. 6. landsk. ber fyrir brjósti, fái þarna góðan stuðning. Ég held, að ég hafi aldrei heyrt nokkra konu tala um framkomu þessa manns öðruvísi en sem einhvers aumingja. Þess vegna er það dálítið merkilegt, að þessi eina kona, sem situr á þingi nú, skuli hafa tekið þessa afstöðu í hinu viðbjóðslega hneykslismáli þessa læknis. Það passar sennilega vel við þær etisku skoðanir, sem hv. þm. hefir haldið svo mjög á lofti um sjálfa sig.