19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Þorláksson:

Ég á hér litla brtt. á þskj. 383, sem ég hefi ekki lýst ennþá og þarf nú ekki mörgum orðum um að fara. Þar er farið fram á að veita lítilfjörlegan styrk til dóttur Stefáns Eiríkssonar tréskera, sem veitir nú forstöðu því verkstæði og þeirri kennslu, sem faðir hennar hafði á hendi meðan hann lifði. Samskonar till. var felld hér við 2. umr. Ég held, að það hafi verið fremur af því, að mér hafi ekki tekizt að gera nægilega grein fyrir till. heldur en af hinu, að meining hv. þdm. sé að vilja endilega nema burt úr fjárl. þennan litla styrk, sem er í fjárl. yfirstandandi árs, að till. var felld. Þess vegna vil ég leyfa mér að bera fram nýja till. um þetta með nokkuð lækkaðri upphæð.

Ég ætla ekki að tala um einstakar till. n. og annara þm., en ég vil ekki láta þetta fjárlagafrv. fara út úr d. án þess að lýsa þeirri skoðun minni, að öll niðurröðun og allt skipulag frv. markar mjög mikla afturför frá því, sem hingað til hefir verið. Það hefir hingað til verið mjög aðgengilegt að líta yfir fjárlagafrv., annarsvegar hafa tekjuliðir verið taldir upp í samfelldum röðum, og hinsvegar útgjaldaliðir taldir upp í gjaldabálkinum og aftan við það yfirlitsgrein, sem telur upp heildarupphæðir hverrar greinar fyrir sig. Nú er allt orðið svo ruglingslegt, að það er mjög erfitt fyrir þá, sem ekki fást við samningu þessara laga, að greina sundur, hvað eru tekjuáætlanir og hvað gjaldaheimildir, frá ýmsu öðru, sem þarna er hrært innan um. Ég vil nefna sem dæmi upp á það, sem óskipulegt og óskýrt er, 3. gr. frv., að undanskildum aðeins fyrsta undirlið, a, sem er sæmilega skýr. En þarna er hvað innan um annað, ýmsar fjárveitingar og tekjuáætlanir og svo tölur, sem merkja allt annað. Innan um útgjaldaheimildir í gjaldabálkum standa upphæðir, sem ekki eru útgjaldaheimildir.

Loks er í yfirlitsgreininni, sem nú hefir verið tekin upp í nýrri mynd, gerð sú breyt., sem ég álít hættulega, að samningsbundnar afborganir fastra lána eru ekki taldar upp í rekstraryfirliti, eins og hingað til hefir verið gert og Alþ. hefir samþ. árum saman með samþ. sinni á landsreikningunum. Þetta atriði hefi ég gert sérstaklega að umtalsefni hér í d. í sambandi við frv. það, sem er hér á ferðinni um ríkisbókhald og endurskoðun, og þarf ég því ekki að fjölyrða um það. En fyrir utan þetta, að allt frv. er nú óskipulegra og ruglingslegra en áður var, þá er eitt atriði, sem leiðir af þessu, og það er, að ekki er unnt að gera samanburð á þessu frv. við fjárl. undanfarinna ára, nema fyrir þá, sem eru þessu alveg sérstaklega kunnugir.

Ég tók eftir, að form. fjhn. sagði, að útgjöld eftir þessu frv. væru nú orðin fullar 13 millj. kr., en enga slíka tölu, sem hann nefndi og vafalaust hefir farið rétt með, er hægt að sjá af frv. sjálfu. Þetta stafar af því, að öllu er ruglað saman og horfið er frá þeirri venju að skoða hina einstöku gjaldaliði símamála og póstmála og annara slíkra stofnana sem útgjaldaheimildir eins og önnur útgjöld fjárl. Nú er þetta ekki lengur gert, heldur er slengt saman bæði tekjum og gjöldum þessara stofnana. Eitt af því, sem er mikilsverðast til þess að geta haldið fjárl. í lagi, er, að á hverjum tíma sé auðvelt að gera samanburð á því, sem er að verða, og því, sem á undan er gengið. Það er eitt af því, sem mest einkennir fjármálastj. síðustu ára, sem ég tel að sé sú lélegasta, sem við höfum átt við að búa síðan 1874, að nú er tekið föstum tökum á því af þessari sömu stj., bæði í fjárlagafrv. og hvað snertir samningu landsreikninganna, að gera sem allra erfiðast fyrir að bera saman niðurstöðu þá, sem nú er komin fram sem ávöxtur af starfi hennar, við það, sem á undan er farið. Fjárl. eru samin þannig, að samanburður er ómögulegur nema fyrir þá, sem fást við þessa samningu, og nú er ákveðið að gera landsreikninginn fyrir 1930 ekki í samræmi við fjárl. þess árs, heldur með nýju sniði, sem gerir ómögulegan samanburð á niðurstöðu landsreiknings þessa árs við niðurstöðu undanfarinna ára.

Ég tel þetta ákaflega illa farið, en skoða það í raun og veru sem einn lið í þeim ófarnaði í fjármálastjórn, sem svo sorglega hefir einkennt þetta síðasta kjörtímabil.

Þá ætla ég að segja örfá orð út af umr., sem hafa orðið hér um læknamálið, sérstaklega af hálfu 5. landsk. Ég tek undir það, sem hv. 6. landsk. sagði um það, hvílík sorgarsaga það er að sjá, hvernig farið er með vesalingana á þessari myndarlegu stofnun, Nýja-Kleppi, þar sem þeir eru sviptir læknishjálp þess eina hérlenda læknis, sem í raun og veru er fullfær til að veita þeirri stofnun forstöðu. Allir þeir sjúklingar af þessu tæi, sem þurfa að leita sér læknishjálpar, forðast geðveikraspítalann eins og hann er nú, ef ættingjar þeirra gera þeim kleift að leita til dr. Helga Tómassonar. Bæði þeir og aðstandendur þeirra brjótast í því af vanefnum að fá að njóta hjálpar þess læknis, sem ógæfusöm landsstjórn rak úr embætti fyrir engar sakir. Þessa sér jafnvel merki á fjárlagafrv., því að þar er komin inn fjárveiting til aðstandenda eins sjúklingsins, sem orðið hefir að leita til dr. Helga, af því að talið var vonlaust um bata hans á spítalanum.

Það er því í mesta máta óviðeigandi, þegar hv. 5. landsk. hælist um af þessu hermdarverki. Ég get að vísu skilið, að hann hafi getað skoðað það sem móðgun við sig, að dr. Helgi skyldi koma inn á heimili hans, að fengnu leyfi þó, og láta í ljós, að hann hefði grun um, að ráðh. væri haldinn af sjúkdómi. En það er langt stig á milli þess, að ráðh. telji sig móðgaðan, og hins, að þing og þjóð sætti sig við það, að ráðh. hefni sín fyrir raunverulega eða ímyndaða móðgun, á þann hátt, að það komi fyrst og fremst niður á þeim, sem allra sízt geta gætt hagsmuna sinna í þjóðfél. og allra manna mest er þörf á góðri og réttsýnni stjórn, en það er aumingjar þeir, sem geðbilaðir eru eða taugaveiklaðir. Því að þá hitti nefndin, en ekki lækninn.

Hv. 5. landsk. hældist yfir því, að dr. Helgi væri útlægur úr tveim konungsríkjum. En sú regla gildir í öllum síðuðum löndum, að dómstólar eiga að meta misgerð þess, sem brotlegur hefir orðið. Þessi regla er föst og viðurkennd. Hitt er afneitun á þjóðfélaginu sem réttarfélagi og konungsríkinu sem réttarríki, að láta hefnd valdhafans koma í stað úrskurðar dómstólanna.

Hv. 5. landsk. talaði um viðbjóðslegt hneykslismál. Hið eina hneyksli í sambandi við þetta mál er í því fólgið, að það vald, sem þjóðin trúði ráðh. sínum fyrir, var misnotað til að koma fram hefnd sjúkrar sálar ráðh. sjálfs fyrir ímyndaða eða raunverulega móðgun, og að sú hefnd hitti þá, er sízt skyldi.