19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

1. mál, fjárlög 1932

Jónas Jónsson:

Það er nú farið að styttast í fundartímanum, og mál þetta er auk þess svo kunnugt orðið, að ég þarf ekki að hafa mörg orð um það.

Ræður hv. 1. landsk. um þetta efni í kvöld er ekki annað en framhaldssönnun fyrir því, að tilræði Helga Tómassonar var pólitísk ofsókn, runnin undan rifjum Íhaldsflokksins. Rógur sá, sem hann breiddi út um mig við kunningja sína og ýmsa, sem mér voru nákomnir, og loks sú yfirlýsing hans, að ég yrði að víkja úr stjórninni með 12 stunda fyrirvara, stefndi allur að því sama: að veikla þingflokk þann, sem ég vann i, og koma mér úr stj., til þess að hægara yrði að velta tapi Íslandsbanka yfir á landið. Það tókst nú að vísu að nokkru leyti, en þó ekki á þann hátt, sem til var ætlazt. Morgunblaðið og Vísir og flokkur hv. l. landsk. tók H. T. þegar upp á sína arma og gerði hann að spámanni sínum, enda hafði hann verið útvalinn til þess að hjálpa Íhaldinu og glæframönnunum til að ná völdum í landinu.

Eftir hina dæmalausu heimsókn dr. Helga Tómassonar til mín, er hann biður um leyfi til að heimsækja mann á næturþeli til að svíkja hann frá starfi og heilsu, hefði hið eina, sem gat bjargað áliti læknisins, verið það, ef sá „heimsótti“ hefði tekið flugumanninn hátíðlega. En fyrst ég varð ekki veikur af ofsókninni, var ekki nema um tvennt að gera: Annaðhvort þekkti H. T. ekki óbrjálaðan mann frá brjáluðum, eða þá að hann var verkfæri í höndum annara manna til svívirðilegra verka. Hvort sem var, hvort sem þessi framkoma H. T. stafaði af skorti á vitsmunum eða mannkostum, hlaut öllum að vera ljóst, að Helgi Tómasson var allra Íslendinga óhæfastur til að vera geðveikralæknir landsins eftir þetta.

Það er nú kunnugt orðið, að Íhaldið hafði ekki eins mikla ánægju af Helga Tómassyni og það hafði búizt við. Hv. 1. landsk. tók með sér annan aumingja úr sömu stétt og H. T. á landsmálafundina í fyrra og seldi sá læknir, Kolka úr Vestmannaeyjum, aðgang að fyrirlestrum um ágæti Helga Tómassonar og brjálsemi mína. Átti þetta að verða Íhaldinu til framdráttar við landskjörið. Bæði hv. l. landsk. og flokkur hans höfðu hina mestu skapraun og skaða af þessum fylgihnetti hv. 1. landsk. Auðvitað hefði verið langhyggilegast hjá Íhaldinu, þegar fyrsta tilræðið hafði misheppnazt, að afneita Helga, eins og það gerði t. d. við Einar Jónasson. En það er eins og það séu álög á Íhaldinu að geta aldrei látið þetta mál kyrrt liggja, þótt það sé enn og hafi alltaf verið að hjálpa mér og mínum flokki. Sex þús. manns fordæmdu þegar framkomu Helga Tómassonar með undirskrift sinni og fluttu mér um leið árnaðaróskir fyrir að hafa siglt heilu skipi framhjá vítisvélum Íhaldsins; og á landsmálafundaferðum mínum fyrir landskjörið varð ég var við svo almenna samúð í öllum byggðarlögum, að helzt má bera það saman við þann hlýleik, er Skúla Thoroddsen og fjölskyldu hans var sýndur, er hann varð fyrir ofsóknunum vestra. Sú samúð entist Sk. Th. til æfiloka. Hvort sú samúð, sem ég hefi hlotið af tilræði Helga Tómassonar, verður svo haldgóð, skal ég ekki segja um, en ég get ekki verið að leyna hv. 1. landsk. því, að hingað til hefi ég unnið bæði samúð og fylgi á þessu máli.

Vegna þess, sem hv. 1. landsk. sagði um hefnigirni mína, vil ég taka það fram, að ég myndi hafa tekið nákvæmlega jafnhart á þessu atferli H. T., þótt það hefði komið fram við einhvern annan, þar á meðal við hv. 1. landsk. Mér voru þau börn með öllu ókunnug, sem urðu fyrir harðýðgi af hálfu skólastjóra eins á Norðurlandi. En ég vildi ekki bera ábyrgð á, að slíkt ætti sér stað, og tók því í taumana og lét þann mann fara úr embætti: Ég hefði talið Helga Tómasson jafnóhæfan til að stjórna Kleppi, þótt heimska hans eða vöntun á manndyggð hefði snúið að einhverjum öðrum en mér. Það breytir engu í þessu máli, þótt eitthvað af veikluðu fólki leiti enn til H. T.

Viðvíkjandi þeim styrk, sem veittur hefir verið í fjárl. og hér hefir verið gerður að umtalsefni, er það að segja, að konu þeirri, sem þar á hlut að máli, var boðinn styrkur til þess að maður hennar gæti siglt til að fá bót meina sinna, en hún hafnaði því boði á móti ráðum frænda og vina, sem síðan hafa brotizt í að greiða fyrir dvöl manns hennar undir hendi Helga Tómassonar, sem er allra manna dýrseldastur, eins og kunnugt er.

Ég vil að lokum segja hv. 1. landsk. það, að mér er ekki nema þægð í því, að hann og flokkur hans bindist sem föstustum tengslum við Helga Tómasson. Og nokkurri mannlund lýsir það óneitanlega hjá Íhaldinu, að vilja ekki skiljast með öllu við þennan flugumann sinn í þrengingunum. En auðvitað er ég fús á að þiggja allt það pólitíska gagn, sem Íhaldið vill gera mér með heimsku sinni og illgirni í þessu máli sem öðrum.