17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

1. mál, fjárlög 1932

Haraldur Guðmundsson:

Ég tel sjálfsagt, að haldið sé þeirri venju að fresta umr. Stjórnin skaut sér undan eldhúsdegi í vetur, og þykir mér því ótrúlegt, að hún búist við að geta sloppið við hann nú.

Frv. gefur fullkomið tilefni til athugasemda, eins og það liggur fyrir. Hæstv. fjmrh. sagði, að frv. væri að mestu eins og það var lagt fyrir þingið í fyrra. Þetta er rétt, því að þær breyt., sem á því hafa verið gerðar, eru ekki annað en smávægilegar leiðréttingar og snerta ekkert efnishlið þess. Nú er alvarleg kreppa byrjuð; sýnilega eykst hún og magnast og veldur atvinnuleysi og vandræðum, ef eigi er að gert í tíma. En það verður ekki annað séð en að stjórnin hafi verið starblind á ástandið — eða verra en það, þ. e. ætli viljandi að auka á vandræðin.

Ég hygg, að engum geti dulizt, hve alvarlegir tímar eru framundan í atvinnu- og viðskiptalífi þjóðarinnar. Og hvað gerir svo stjórnin? Jú, viðleitni hennar til að bæta úr ástandinu kemur fram í því, að hún leggur til í Ed. að framlengja verðtollinn óbreyttan í næstu 2 ár eða m. ö. o. að níðast með tollaálögum á þeim, sem harðast verða úti vegna kreppunnar. Og í þessari deild ber stj. fram fjárlög, þar sem skornar eru niður svo að kalla allar verklegar framkvæmdir. Ef stj. hefir það ekki sér til afsökunar, að hún sé starblind, er hún að gera þjóðinni bölvun vitandi vits. Ég get hér með lýst yfir því, að ég og mínir flokksmenn munu greiða atkv. móti fjárlagafrv., verði það með svipuðu sniði og nú, er það kemur til fullnaðarafgreiðslu bæði hér í þessari deild og í Ed.

Á hvern hátt getur nú Alþingi gert beztar ráðstafanir til að mæta kreppunni? Stj. hefir þegar gefið sitt svar: Með niðurskurði verklegra framkvæmda og auknum tollaálögum En ég og mínir flokksmenn segjum: Kreppan kemur harðast niður á eignalausu fólki, fólki, er telst sjálft eiga ráð á starfstækjum sínum, smábændum til sjós og lands og verkalýð, sem lifir á því að selja vinnu sína. Hvernig er hægt að létta undir með þessu fólki? Fyrsta og sjálfsagðasta leiðin er að létta af því tollabyrðinni. Við það lækka vörur í verði og kaupgetan eykst. Í öðru lagi verður að gera smábændum og fiskimönnum kleift að reka atvinnu sína áfram. Hvernig hefir bændum verið hjálpað til þess hingað til? Þeim hefir verið hjálpað með því að lagðir hafa verið vegir, brýr og sími. Á það nú að vera hjálp til þessara manna að hætta þessa, þegar kreppan dynur á? Er það stuðningur við fiskimennina að hætta að byggja bryggjur og gera lendingarbætur, þegar erfitt verður í ári? Og er það hjálp við verkalýðinn að skera niður alla opinbera vinnu, þegar atvinna bregzt á öðrum sviðum? En þetta er tilætlun stj. með þeim fjárlögum, sem hún leggur nú fyrir þingið. Eftir að hafa aukið þessi útgjöld um 100% að þinginu fornspurðu undanfarið ár og ausið þessu fé út um hvippinn og hvappinn án tillits til þess, hvar þess hefir verið mest þörf, á nú að skera allar framkvæmdir niður við trog, einmitt þegar þeirra er mest þörf.

Undanfarin ár hefir ríkissjóður verið langstærsti atvinnurekandinn. Árið 1929 voru unnin 130 þús. dagsverk í vegavinnu fyrir hið opinbera og 1930 munu hafa verið unnin 150 þús. dagsverk við sömu vinnu. Nú er lagt til, að 200 þús. kr. verði varið til viðhalds vega. Það er allt og sumt. Þetta eru 2,5 hlutar af því, sem vegamálastjóri telur, að þurfi til viðhaldsins, til þess að vegirnir gangi ekki úr sér og eyðileggist ekki. — 1000 manns hafa haft atvinnu við vegagerð undanfarið í 6 mánuði. Nú á að fleygja þessum mönnum út á gaddinn og láta vegina eyðileggjast. Þetta er sýnishorn af fjármálavizku stj. og umhyggju hennar fyrir almenningsheill á þessum krepputímum. Undanfarið hafa opinberar verklegar framkvæmdir verið áætlaðar í fjárlögum meiri en nokkru sinni áður og þó hefir stj. á sumum sviðum aukið útgjöld til þeirra um 100% í heimildarleysi. 1930 voru ætlaðar 1100 þús. kr. til vegamála, en stj. eyðir 2 millj. 120 þús. kr. Þetta er fjórfalt hærri upphæð en veitt var í þessu skyni fyrir 4 árum. En nú, þegar harðnar í ári, á að steinhætta. Meira óvit, meiri atvinnuspjöll fyrir verkalýðinn og þjóðina í heild er ekki hægt að hugsa sér.

Ég þykist svo sem vita, hvað stj. segi við þessu. Hún segir, að þetta sé að vísu slæmt, en féð sé ekki til. En þetta er rangt. Af fjárlagafrv. er auðséð, að stj. ætlar sér að fá fé til ráðstöfunar umfram það, sem ákveðið er í gjaldabálki fjárlaganna, eins og undanfarið. Þannig hefir stj. fengið 15 millj. til að valsa með á síðustu þrem árum umfram tekjuáætlun fjárlaganna. Tekjurnar hafa verið það, sem kallað er svo „varlega“ áætlaðar, að margra milljóna umframtekjur hafa orðið á hverju ári, og stj. hefir þar með verið gefið undir fótinn að verja þessu fé eftir eigin geðþótta, þar sem það var ekki bundið í fjárlögum. Nú er enginn eyrir eftir af þessum 15 milljónum. En við yfirferð tekjuhliðar fjárlaganna hefir mér talizt svo til, að það væri mjög varleg tekjuáætlun að hækka tekjurnar um 16–1700 þús. kr., og er þá sjálfsagt að leggja fé þetta allt til verklegra framkvæmda til þess að gera hvorttveggja: bæta úr atvinnuleysinu og létta almenningi kreppuna.

Ég lít svo á, að dómurinn um störf þessa þings hljóti mikið að fara eftir því, hverjar ráðstafanir þing og stj. gera til þess að mæta því kreppuástandi, sem nú er í landinu. Í fyrravetur voru á 2. þúsund atvinnulausra manna skrásettir í kaupstöðum landsins, í Reykjavík einni um 600 manns. Með skylduliði eru það um eða yfir 3000 manns í Reykjavík einni. Af þeim, sem skrásettir voru þá, skipta þeir hundruðum, sem enga vinnu höfðu haft um 4–5 mánaða tíma, þegar skrásetningin fór fram 1. febr., og síðan hafa menn gengið atvinnulausir svo mánuðum skiptir.

Jafnvel í sumar, þegar vinna var við höfnina, urðu oft eins margir frá að hverfa eins og þeir, sem að komust. Hvernig heldur hæstv. ráðh., að ástandið verði í haust eftir atvinnuleysissumar, þegar bæði einstakir atvinnurekendur og hið opinbera dregur saman seglin? Heldur hann, að þá verði bezt hjálpað með því að framlengja 15% verðtoll um 2 ár.

Hverjir þola kreppuna bezt? Það eru þeir, sem svo er ástatt fyrir, að þeir geta haft nægilegt fyrir sig að leggja, hvernig sem árferði er. Það eru menn, sem kreppan nær ekki til. Það eru þeir, sem fyrst og fremst eiga að bera kreppuna. Ég vil benda á eina leið, sem að gagni mætti koma, að kippa aftur frv. um verðtoll og hækka skattana af hinum stærri eignum og verja því fé beinlínis til atvinnubóta í landinu, og fleiri leiðir mætti benda á, sem hefðu engin aukin útgjöld fyrir ríkið í för með sér.

Mig furðar stórlega á því, að það, sem af er þessu þingi, lítur ekki út fyrir, að stj. hafi gert sér hina minnstu grein fyrir því, hversu afaralvarlegt ástandið er nú í landinu.