21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Jónsson:

Það hefir sitt af hverju komið fram hér í umr., sem ástæða er til að tala um. Hv. þm. Seyðf. var að sneiða að okkur sjálfstæðismönnum fyrir það, að við ætluðum að samþ. fjárl. þrátt fyrir öll hreystiyrðin. Mér er ekki vel ljóst, við hvað hann á, en ég vil benda honum á, að ég greiddi atkv. á móti þeim, er þau fóru héðan úr deildinni, sökum þess, að búið var að fella till., sem fór fram á að binda hendur stj. þannig að hún mætti ekki misnota stöðu sína til fjársóunar, en heimila henni aftur á móti að skera niður framlög eftir eigin geðþótta, sem ákveðin voru í fjárl. Eins og hæstv. fjmrh. sagði, hefir verið talað hér allmikið um sambúð flokkanna, en nú hygg ég, að engum dyljist lengur, milli hvaða flokka sambúðin er, og þarf ég ekki annað en að vitna til ummæla hv. 3. þm. Reykv. um, að jafnaðarmenn varðaði ekkert um það, hvernig stj. væri mynduð og myndu því ekki amast við henni. Það voru ekki kaldar kveðjur, sem nýja stj. fékk frá jafnaðarmönnum, enda vita allir, að það er ekki á móti þeirra vilja, að hv. á. landsk. er í stj., þar sem hann er tengiliðurinn milli flokkanna.

Ég veit ekki, hverju hæstv. forsrh. svaraði hv. 3. þm. Reykv. viðvíkjandi atvinnubótunum, sökum þess að ég var kallaður burt á meðan, en ef einhverjar ráðstafanir verða gerðar, þá get ég frekar fallizt á, að hæstv. stj. verði veitt lánsheimild en að nýr skattur verði lagður á. Eins og ég hefi áður sýnt fram á, er það, að leggja á nýjan skatt, nákvæmlega það sama og að draga úr atvinnu og skapa nýtt atvinnuleysi, með því að atvinnurekendur neyðast til að draga saman seglin og hætta öllum framkvæmdum. Ef á að gera ráðstafanir til atvinnubóta, er því eina eðlilega leiðin að fá fé til að ráðast í nýjar framkvæmdir, án þess að úr hinum dragi, sem nú er unnið að.

Hæstv. fjmrh. var að afsaka það, að hann væri nú svo nýlega seztur í þann sess, að hann hefði ekki skipt sér mikið af afgreiðslu fjárl., en mér skildist á hæstv. forsrh., að stj. hefði verið mynduð fyrir löngu. (Forsrh.: Hún var mynduð 1927). Nú, það var þessháttar orðaleikur, sem hæstv. forsrh. var með, en annars hélt ég, að stjórnarflokkurinn hefði það eins og ein dýrategund í Ástralíu, að ala fyrst ungana, en bera þá svo í poka þangað til ástæða þykir til að hleypa þeim út. Ég hefi það fyrir satt, að svo muni hafa verið, en ýmsra orsaka vegna hafi flokknum ekki þótt hyggilegt að lofa þjóðinni að sjá framan í tvíburana.

Annars skildist mér á ræðu hæstv. fjmrh., að hann væri að afsaka það vitaverða gáleysi Framsóknar, að skipa engan fjmrh., sem nokkuð léti til sín heyra meðan á afgr. fjárl. stóð, og ég álít, að það sé hrein hundaheppni, að ekki skuli vera í meira óefni komið en komið er með afgreiðsluna sökum þessara aðgerða, eða öllu heldur aðgerðaleysis.

Mér virtist hæstv. fjmrh. mæla á móti því, að fjárl. væru opnuð, sökum þess að það myndi draga þingið um nokkra daga, og var auðheyrt á ræðu hans, að nú ríður á, að þinginu verði slitið sem fyrst, úr því að hin nýja stj. er nú loksins komin fram á sjónarsviðið.

Ég hefði haft gaman af að fara nánar út í ræðu hæstv. fjmrh. um heimskreppuna, því að mér fannst þar kenna margra einkennilegra grasa, eins og t. d. er hann sagði, að erfiðleikunum yrði ekki mætt, nema viðurkennt væri, að stj. ætti enga sök á því ástandi, sem nú ríkir. Mér skilst, að þetta sé einmitt öfugt og að okkur riði á því að gera okkur grein fyrir, hvað sé orsakað af okkur sjálfum, til þess að úr því verði bætt eftir megni, og þau víti séu til að varast. Við skulum t. d. taka bónda, sem kemst í heyþrot á hörðum vetri og segir sér til huggunar: „Ég felldi féð mitt, af því að það var svo harður vetur“, og gengur svo áfram í þeirri villu, í stað þess að reyna að hafa nægilegt hey næsta vetur. Sannleikurinn er sá, að broddurinn í kreppunni er innanlands stjórnleysi. 1925 og 1926 mætti stj. kreppunni með því að létta af sumum þeim sköttum, sem lágu þyngst á framleiðendunum, til þess að geta aukið framkvæmdir að miklum mun. Það varð að vísu lítilsháttar tekjuhalli á landsreikningnum frá því ári, en ekki meiri en ríkissjóður var vel fær um að bera og ekki meiri en eðlilegt var og sjálfsagt hefði verið að láta jöfnunarsjóð bera á þeim erfiðu árum. Nú eru skattar aftur á móti hækkaðir og dregið úr framkvæmdum, í mótsetningu við það, sem fara á að, þegar kreppur skella á.

Ég skal ekki þræta við hv. frsm. um það, hvort það sé mikill vandi að bera saman fjárl. með gamla og nýja forminu. Hann sagði, að ég hefði getað það, og því mundi öðrum ekki verða skotaskuld úr því. Það er satt, ég er ekki stærðfræðingur, en ég vil segja það, að þótt honum, svo reikningsglöggum manni, sé það leikur, þá er það engin sönnun þess, að öðrum gangi það vel, sem lítið þekkja inn í slíkt.

Mér finnst það óheppilegt hjá hv. frsm., þegar hann var að verja þetta nýja form, að hann skyldi þá vitna í það, að fjvn. hefði getið skilið það. Ég veit ekki, hver ætti að skilja það, ef fjvn. skildi það ekki. Fjvn.menn eru búnir að sitja margar vikur yfir frv. Það væru meiru óskaplegu tossarnir, ef þeir væru ekki farnir að skilja það nú. En hinu getur hv. frsm. ekki neitað, að það er þó nokkuð þungskilið, en þó ekki svo, að hver meðalgreindur maður geti ekki lært það, með góðum kennara, en ég er viss um, að þeir verða margir, sem ekki fá rétt út úr samanburðinum tilsagnarlaust.

Hv. frsm. svipar í þessu efni til kennara eins, sem var ágætur latínumaður. Hann sagðist ekkert skilja í þeim mönnum, sem ekki gætu skrifað latneskan stíl rétt. Eins er með hv. frsm. Hann er reikningsglöggur maður, af því að hann hefir sérstaka aðstöðu til að vera það bæði sem yfirskoðunarmaður landsreikninganna og sem kaupsýslumaður. Þess vegna getur hann ekki komið því inn í sitt höfuð, að almenningi verði þetta torskilið.