21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Jónsson:

Mér skildist á upphafi ræðu hæstv. fjmrh., að hann áliti um sjálfan sig, að þarna væri loksins kominn maður, sem ekkert væri hægt að finna að, og þótti óviðeigandi, að ég skyldi reyna það. Ég held, að þetta sé of mikið álit hjá hæstv. ráðh., án þess að ég vilji vera að sneiða að honum, því að ég hefi von um, að hann reynist vel í starfi sínu, en hitt held ég að bregðist, að hann reynist óaðfinnanlegur.

Það er satt, sem hæstv. ráðh. sagði, að þessi kreppa stafar að miklu leyti af erlendum orsökum. Það verður sjálfsagt svo með flestar heimskreppur, að við getum lítið úr þeim dregið. Það eina, sem við getum, er að vera viðbúnir, þegar kreppurnar koma. Við megum ekki láta þær koma að okkur óviðbúnum. Það er alveg eins og með bóndann. Hann getur ekkert við það ráðið, þó að harður vetur komi, það eina, sem hann getur gert, er að eiga nóg hey.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri annað mál, hvernig við værum við kreppunni búnir. Já, það er annað mál, og það verður hver maður að hafa hugfast, að það verður að hafa viðbúnað gegn þeim kreppum, sem að garði kann að bera.

Ég get að lokum játað það, að mín ræða er ófullkomin hjá ræðu hans. En óþarfi er það af honum að þola ekki að heyra poka nefndan þar sem hann er inni.