20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

2. mál, fjáraukalög 1929

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Sú varð raunin í þetta sinn, eins og venja hefir verið undanfarið, að fjáraukalögin komu ekki til þessarar d. fyrr en nú undir þinglokin. Hefir fjhn. því, nú sem áður, haft lítinn tíma til athugunar á frv., en hún hefir notað þennan litla tíma, sem gafst, eins vel og tök voru á. N. hefir ekki orðið sammála um afgreiðslu frv., eins og nál. ber með sér, en meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, og byggir þá till. sína bæði á þeirri athugun, sem n. vannst tími til að gera, og þó ekki síður á þeirri athugun, sem fjhn. Nd. gerði á frv. Var frv. lagt fyrir Nd. strax í þingbyrjun, og hefir því n. þar haft nægan tíma til athugunar á frv., og er því óhætt að leggja allmikið upp úr till. hennar. Og þar sem niðurstaða fjhn. Nd. kom að öllu heim við þá niðurstöðu, sem meiri hl. n. hér hefir síðar komizt að við athugun frv., sáum við meirihlutamenn ekki ástæðu til annars en að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt eins og það kemur frá Nd. — Ég vil geta þess strax, að hv. minni hl. hreyfði í n. þeirri aths., sem koma fram í nál. hans, en þar sem ég geri ráð fyrir, að hann muni gera frekari grein fyrir þeim í umr., sé ég ekki ástæðu til að fara inn á þau atriði að svo stöddu. Mér þykir þó rétt að taka það fram, að þau ár, sem ég hefi átt sæti hér á Alþ., hefi ég jafnan átt hér sæti í fjhn., og minnist ég þess ekki, að nokkru sinni hafi orðið ágreiningur um atriði í fjáraukalögum, sem væru að nokkru leyti hliðstæð þeim atriðum, sem hv. 1. landsk. gerir nú ágreining út af og endurskoðendur landsreikningsins hafa ekki gert neinar beinar till. um. Hitt er annað mál, að um sum atriði í fjáraukalögum hafa endurskoðendurnir vísað til aðgerða Alþ., og hefir það þá verið svo að skilja, að atkvgr. skyldi skera úr. En eins og ég sagði, mun ég ekki að svo stöddu fara út í þessi ágreiningsatriði, sem hv 1. landsk. gerir hér á. Ég skal að vísu játa, að ég hefi ekki haft tækifæri til að kynna mér þau gögn, sem lögð voru fyrir endurskoðendur landsreikningsins, þegar endurskoðun hans fór fram, en þar sem fjhn. Nd. lagði til, að frv. væri samþ. óbreytt, og í henni á sæti einn endurskoðandi, sem er flokksbróðir hv. 1. landsk., virðist mér þar með allgildar stoðir renna undir það, að ekki sé ástæða til að gera ágreining um þessi atriði, sem hv. 1. landsk. hefir tínt til. — Þykist ég svo ekki þurfa að hafa um þetta fleiri orð fyrir hönd okkar meirihlutamanna, fyrr en hv. minni hl. hefir skýrt frá þessum ágreiningsatriðum sínum.