21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

2. mál, fjáraukalög 1929

Jakob Möller:

Ég vildi gjarnan fá hreinan úrskurð forseta um það, af hvaða ástæðum hann telur hv. 2. landsk. óatkvæðisbæran. Þessi hv. þm. sagði í ræðu sinni áðan, að hann ætlaði ekki að greiða atkv., en ég man ekki eftir og ég held að ekki sé hægt að tilfæra neina ástæðu, sem hann hafi fært fram, sem geri það að verkum, að hann teljist óatkvæðisbær. Hann sagði ekki, að sér væri málið of skylt, þar sem hann var stuðningsmaður stj. 1929, þegar þessu fé var ráðstafað, en það gæti að vísu talizt ástæða til að úrskurða hann óatkvæðisbæran, en þá yrðu líka fleiri hv. þdm. óatkvæðisbærir, og þá ekki sízt hæstv dómsmrh. Mér finnst því engin önnur ástæða vera fyrir hendi en að þennan hv. þm. skorti skilyrði til þess að geta gert sér grein fyrir málinu, sem borið er undir atkv. Vildi ég gjarnan fá úrskurð hæstv. forseta fyrir því, af hvaða ástæðum hann telji hv. 2. landsk. óatkvæðisbæran. En ef sá úrskurður fæst ekki, skoða ég það sem viðurkenningu hæstv. forseta um, að hæfileikaskort hv. 2. landsk. sé um að ræða.