22.08.1931
Efri deild: 38. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

2. mál, fjáraukalög 1929

Magnús Torfason:

Ég er á sömu skoðun og hæstv. forseti um það, að það sé aðeins þm., sem um er deilt, sem hafi rétt til þess að skjóta úrskurði forseta undir atkv. deildarinnar, og það því aðeins, að úrskurður forseta gangi honum í móti. Skal ég í þessu sambandi lesa upp síðari mgr. 53. gr. þingskapa, sem hljóðar svo:

„Ef þingmaður er fjarstaddur í leyfisleysi, þegar til atkvæða er gengið, eða neitar að greiða atkvæði við nafnakall, án þess að færa gildar ástæður (44. gr.), þá missir hann af dagkaupi sínu þann dag“.

Það, sem við er átt í 44. gr. og þm. getur skotið undir deildina, er því það, hvort hann eigi að sæta þeim viðlögum að missa af dagkaupi.