22.08.1931
Efri deild: 38. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

2. mál, fjáraukalög 1929

Halldór Steinsson:

Hv. 2. þm. Árn. hefir látið lögfræðiljós sitt skína hér í þessari hv. deild bæði í gær og í dag, en svo óheppilega vildi til, að hann fór þar í gegnum sjálfan sig. Hv. þm. vitnaði í gær til 44. gr. þingskapa því til sönnunar, að forseti gæti ráðið því, þegar svo á stæði, hvort þm. væri atkvæðisbær eða ekki. En nú í síðustu ræðu sinni segir hann, að þetta atkvæði 44. gr. nái aðeins til 53. gr. að því er snertir þingviti.

Ég álít, að yfirleitt geti forseti engu um það ráðið, hvort þm. sé atkvæðisbær eða ekki. Það er aðeins á einum stað í þingsköpum, sem gert er ráð fyrir því, að þingmaður sé ekki atkvæðisbær, og það er þegar um fjárveitingu til hans sjálfs er að ræða. Annars lít ég svo á, að þm. sé alltaf atkvæðisbær og forseti geti ekkert úrskurðað um það.

Nú eru hér í deildinni 14 atkv., en með málinu hefir ekki fengizt nema helmingur þeirra. En það er skýrt fram tekið í 47. gr. þingskapa, að meira en helming atkv. þurfi til þess að mál sé löglega afgreitt.