07.08.1931
Neðri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

3. mál, landsreikningar 1929

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég gat ekki hlýtt á alla ræðu hv. 2. þm. Skagf., en það eru 2 atriði í ræðu hv. þm., sem ég vil víkja að.

Annað atriðið er skipti viðlagasjóðs og ríkissjóðs. Ástæðan fyrir þeim skiptum er sú, að Alþingi hefir oft heimilað ríkisstj. að veita lán úr viðlagasjóði, og hefir það sumt verið til þeirra framkvæmda, sem Alþingi og ríkisstj. hafa lagt mikla áherzlu á, að kæmust á, t. d. til frystihúsa, til kjötútflutnings eða rjómabúa. En þar sem viðlagasjóður gat ekki lánað þessa peninga, urðu þessi skipti hans við ríkissjóð til, að ríkissjóður lagði út peningana. Þessi skipti voru vitanlega öll gerð upp um leið og viðlagasjóður var afhentur Búnaðarbankanum, en að það hafi ekki allt verið gert upp í reiðum peningum, þarf engum að koma á óvart. Enda eru skiptin milli ríkisins og Búnaðarbankans þannig, að það stendur upp á ríkið að veita peningum til Búnaðarbankans, svo það er enginn stórkostlegur hlutur, þótt bókaðar séu upphæðir milli ríkisins og Búnaðarbankans.

Hv. þm. minntist hér á eftirlitsmenn með verksmiðjum og vélum. Ég ætla að geta þess, að það var óhjákvæmilegt, að þessir starfsmenn fengju föst mánaðarlaun, því þeir hafa enga aðstöðu til þess að innheimta sjálfir gjöldin fyrir eftirlitið. Það eru lögreglustjórar, sem innheimta þau, og er ekki hægt að hafa það öðruvísi. Ég veit ekki betur — ég hefi ekki fylgzt svo vel með í atvinnumálaráðuneytinu upp á síðkastið — en að það, sem inn kemur, hrökkvi nú fyllilega fyrir gjöldunum, en hitt er rétt, að fyrsta árið urðu tekjurnar minni en laun eftirlitsmannanna.