27.07.1931
Neðri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

1. mál, fjárlög 1932

Frsm. (Hannes Jónsson):

Ég get lofað einu, og það er að vera fáorður um fjárlagafrv. að þessu sinni.

Fjárlagafrv. það, sem lagt var fyrir vetrarþingið í ár, var allrækilega athugað af nefndinni þá. Sérstaklega hafði n. lagt áherzlu á að koma fjárlagafrv. í sem bezt samræmi við undanfarandi reynslu um gjöld ríkisins og farið mjög varlega í áætlun á tekjunum. Niðurstaðan af tillögum n. varð sú, að ýmsir gjaldaliðir hækkuðu um rúm 550 þús. kr., en þar á móti kom lækkun á nokkrum gjaldaliðum, sem nam 155.900 kr., og var mestur hluti þess, eða 150 þús., á kostnað vegna berklavarna. Raunveruleg hækkun gjalda varð því um 400 þús. kr., en ýmsir tekjuliðir voru hækkaðir um 350 þús. kr.

Þessar brtt. hefir hæstv. stj. tekið upp í fjárlagafrv. það, sem nú liggur fyrir, og er frv. því óvenjulega vel undirbúið í hendur n. og tryggilegar gengið frá áætlun útgjalda en venja er til.

Ef ekki gefst sérstakt tilefni til, mun ég ekki fara nánar út í þær breyt., sem orðið hafa á fjárlagafrv samkv. tillögum n. í vetur, heldur vísa til nál. á þskj. 340 um frekari skýringar.

Vegna þess, að n. gat þannig byggt á störfum fjvn. í vetur að svo miklu leyti sem þeim var lokið, eða það, sem þau náðu, hefir henni tekizt að skila áliti á þessum fáu dögum síðan þingið hófst. Það, sem n. hefir sérstaklega lagt áherzlu á, var að athuga, hvað mikið hún treysti sér til að setja inn í frv. af fjárveitingum til ýmsra verklegra framkvæmda, en áður en ég vík að því, vil ég gefa nokkrar upplýsingar um afkomu ríkisins s. l. ár og tekjuvonir þessa árs.

Samkv. skýrslu fjmrh. til þingsins í vetur var gert ráð fyrir um 80 þús. kr. tekjuafgangi. Þetta hefir breytzt allmikið síðan, svo að nú er tekjuhalli ársins um 1 millj. kr. Stafar þessi mikla breyt. af því, að um ½ millj. kr. fyrir unnar framkvæmdir, sem gert var ráð fyrir, að yfirfærðust á þetta ár, hafa verið teknar með gjöldum ársins 1930. Aðrar breyt. á áætl. fjmrh. hafa orðið þær, að tekjurnar hafa reynzt rúml. 200 þús. kr. minni en ráðgert var, og stafar það að nokkru af óinnheimtum tekjum, sem koma til reiknings á þessu ári. Auk þess hafa gjöldin orðið nokkru meiri en gert var ráð fyrir, og mun það stafa mikið af útgjöldum, sem á hafa fallið hjá innheimtumönnum ríkisins, og þeir hafa dregið frá tekjunum þegar þeir gerðu upp. Þessi upphæð nemur rúml. 300 þús. kr. Verri afkoma ríkisins 1930 nemur því um ½ millj. kr. frá því, sem gert var ráð fyrir í skýrslu fjmrh. í vetur.

Það sem liðið er af þessu ári má heita sæmilegt með tilliti til tekjuöflunar, miðað við sama tíma á fyrra ári.

Tekjur til júníloka hafa orðið svipaðar og næsta ár á undan á sama tíma. Þó getur hér munað einhverju og er ekki svo gott að segja um það enn, því enn eru óinnkomnar tekjur úr 13 umdæmum fyrir síðasta mánuð, þ. á m. frá Akureyri, Ísafirði og úr S.-M. En aftur á móti var á sama tíma í fyrra ókomið frá Ísafirði allan fyrri árshelming og úr Vestmannaeyjum fyrir 2 mánuði.

Það sem af er þessu ári sýnist því gefa sæmilegar vonir um tekjur ríkisins, en hv. þm. mega ekki gleyma því, að óséð er enn um afkomu þess hluta ársins, sem mestur hluti teknanna kemur inn á, og þingið má ekki tefla mjög djarft í von um, að þær tekjur haldist, því þar kemur svo mjög til greina afkoma atvinnuveganna, sem nú sýnast eiga erfitt uppdráttar.

Þrátt fyrir það, að mönnum hafa þótt framkvæmdirnar miklar á undanförnum árum, svo miklar, að sumum sýnist keyra fram úr öllu hófi, berast óskir um auknar framkvæmdir hvaðanæfa að. Það er eins og þessar miklu framkvæmdir hafi vakið menn til meðvitundar um það, hvað mikið er ógert og hvað þyrfti að gera. Og þeir, sem með stjórnmál landsins fara, verða að finna ráð til þess að fullnægja þessari framfaraþörf þjóðarinnar; það verður ekki á móti því staðið, og er ekki heldur rétt. Við verðum að taka á okkur erfiðleikana við það að taka við ónumdu landi, eins og segja má, að þessi kynslóð hafi gert, og við verðum að halda áfram að byggja upp og rækta landið. Við verðum að gera það af því, að þjóðin er farin að sjá og skilja, að við kyrrstöðu í þeim efnum getur ekki lengur setið.

En þó við sjáum þörfina til aukinna framkvæmda, verður að sníða þær við getu þjóðarinnar á hverjum tíma. Það má að vísu lengi um það deila, hvað óhætt sé að treysta á tekjur ríkissjóðs; sérstaklega er erfitt að gera sér grein fyrir, hvað þær muni reynast það ár, sem fjárlagafrv. nær yfir. Í þetta sinn er alveg sérstök ástæða til að gera sér ekki of bjartar vonir um afkomu næstu ára, þegar fjárhagskreppan herðir að á öllum sviðum.

N. þorir því ekki í þetta sinn að fara lengra í till. sínum um fjárveitingar til ýmsra verklegra framkvæmda (brúa, síma, vega og hafnarbóta) en sem nemur 540 þús. kr., en ýmsar beiðnir um smærri fjárveitingar mun n. athuga nánar til 3. umr.

Með þessum till. fjvn. verður fjárlagafrv. með rúml. 400 þús. kr. tekjuhalla, ef till. n. verða samþ. En svo verður allt það, sem kynni að verða bætt við till. n., til að auka á tekjuhallann. Nú hefir n. ekki þótt ráðlegt að bæta við hækkun teknanna meira en um ½ millj. kr. og er því sjáanlegt, að varlega verður að fara í aukningu gjalda fram yfir það, sem n. leggur til.

Nú munu ýmsir segja, að þessi áætlun fjvn. sé ekki annað en ágizkun ein, og að tekjurnar muni reynast miklu meiri. En þótt svo yrði, þá verða menn að gæta þess, að ekki er tekið með í áætluninni fjárlagagreiðslur samkv. sérstökum lögum og heimildum í fjárl., sem oft hafa reynzt allháir útgjaldaliðir.

Ég skal svo víkja nokkrum orðum að einstökum brtt. n. Ég skal þá fyrst geta þess, að hún leggur til, að fjárveitingin til einkasíma í sveitum hækki úr 30 þús. upp í 50 þús. kr. Alstaðar að hafa borizt beiðnir um einkasíma. Einkasímalögin nýju gera ráð fyrir, að ríkissjóður greiði að nokkrum hluta kostnað við lagningu einkasíma í sveitum, og er alstaðar kallað að um fjárveitingar samkv. þeim, og álítur landssímastjóri, að það þyrfti að veita 100 þús. kr. á þessum lið til að fullnægja eftirspurninni. En þar sem fjvn. sér sér ekki fært annað heldur en halda aftur af þessum framkvæmdum að þessu sinni, vildi hún ekki leggja til að veita meira til þeirra en 50 þús. kr., en minna gátum við ekki haft það.

Þá hefir n. lagt til, að til lagningar nýrra síma verði varið 70 þús. kr. Það kann nú að sýnast, að þetta séu ekki rétt hlutföll, miðað við fjárframlög til einkasíma. En n. vill sérstaklega styðja viðleitni sveitanna, sem sjálfar leggja fram fé í þessu skyni. Og þar sem miklir erfiðleikar steðja nú að, og sveitirnar sækja samt fast að leggja fram fé til að komast í betra samband við umheiminn. þá sjáum við okkur ekki annað fært en að styðja þá sjálfsbjargarviðleitni þeirra.

Þessar nýju símalínur, sem fjvn. ætlast til, að verði lagðar, eru þær símalínur, sem á árinu 1930, samkv. till. landssímastjóra hafði verið ætlazt til, að lagðar yrðu, en hafa orðið útundan fram að þessu. Þessar 70 þús. kr. munu nú ekki hrökkva til að klára þessar línur, og verður það þá að fara eftir áliti landssímastjóra og atvikum, hvað af þessum línum verða lagðar.

N. hefir gert brtt. við 10 gr. fjárlagafrv., við fjárveitingu til utanríkismála. Það er eiginlega leiðrétting, því það, sem farið er fram á að breyta, er ekki annað en villa. Því er þannig háttað, að í yfirstandandi fjárl. er, að ég held í fyrsta sinni, færður gengisviðauki á fjárveitingar til utanríkismála sem sérstakur liður. Áður hafði þessi upphæð verið greidd í dönskum kr. jafnmörgum og veitt var í lögunum. Af því leiddi, að gengismunurinn varð umframgreiðsla, sem veita varð aukafjárveitingar fyrir ásamt öðrum upphæðum á gengisreikningi. Nú þótti sjálfsagt að færa þetta þannig, að heimild væri fyrir greiðslu á þessu í fjárlögum, og var því bætt við sérstökum lið til utanríkismála, sem hét gengismunur. Nú þótti fjvn. í vetur réttara að færa gengismuninn á hvern einstakan lið, þar sem hann ætti heima.

Hæstv. fjmrh. hefir tekið þetta til athugunar við samningu nýja fjárlagafrv., en jafnframt í ógáti fært gengismuninn sem sérstakan lið, svo að hann er tvíreiknaður. Leggjum við því til, að þetta verði leiðrétt.

Þá koma framkvæmdir til nýrra þjóðvega, sem nema um 150 þús. kr. Ég finn nú ekki ástæðu til að fjölyrða um hvern einstakan veg, sem lagt er til, að fái fé. Þeir eru samtals um tíu. N. hafði til hliðsjónar álit vegamálastjóra við úthlutun þessa fjár, og mun hún vera í aðalatriðum samhlj. till. hans.

Til viðhalds og umbóta vega hefir n. lagt til, að verði hækkað úr 200 þús. upp í 400 þús. kr. Og til brúargerða leggur n. til, að verði varið 50 þús. kr. Það hefir ekki verið venja að telja upp ár þær, er brúa ætti, en vegamálastjóri og stj. hafa ráðið því í hvert skipti. Þetta er lítil upphæð nú, og n. ætlast til, að henni verði varið til þeirra brúa á hinum nýju þjóðvegum, sem þegar er hin mesta nauðsyn á, og eftir upplýsingum stj. er aðeins um smærri brýr að ræða.

Þá hefir n. lagt til að veita til hafnargerðar á Akranesi 50 þús. kr. Þarna er búið að byggja hafnargarð fyrir um 120 þús. kr., sem Akranes hefir sjálft lagt fé til. Þessi fjárveiting ætlast n. til að verði veitt í þeim hlutföllum, sem ákveðin verða með 1 um hafnargerð á Akranesi, sem líklegt má telja, að afgr. verði frá þessu þingi eða á næsta þingi í vetur. En þar sem engin lög voru til um byggingu þessarar hafnar og engin ákvæði um hlutfallsgreiðslu frá ríkissjóði, þá gat n. ekki heldur verið að setja það inn hér.

Þá hefir n. lagt til, að varið verði til kennslu í söng við háskólann 1000 kr. Í frv. stendur 500 kr., en hefir áður verið 1000 kr., og taldi n., að með minna væri ekki hægt að komast af. Og þar sem um ekki meiri upphæð var að ræða, en talsvert að vinna í aðra hönd, gat n. fallizt á að taka þetta upp.

Að öðru leyti eru till. n. eiginlega ekki annað en leiðréttingar á villum, sem slæðzt hafa inn í fjárlagafrv.

Ég get þá látið þetta nægja að sinni. Um brtt. einstakra hv. þm. mun ég ekki fjölyrða nú, af því að enn hefir ekki verið talað fyrir þeim. Brtt. um tekjur ríkissjóðs vildi ég gjarnan óska, að flm. taki aftur til 3. umr., af því að n. hafði hugsað sér að athuga tekjuliðina nákvæmlega til 3. umr.