11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

3. mál, landsreikningar 1929

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Vitanlega er ekkert við það að athuga, þó að hv. þm. N.-Ísf. sem þm. færi til opinberra starfsmanna og bæði um upplýsingar viðvíkjandi þeirra starfi. Það dettur engum í hug að átelja þennan hv. þm., þó að hann hafi eftir þeim það, sem þeir hafa sagt um þá hluti, sem varða þeirra starf. En hv. þm. N.-Ísf. fór með orð eftir þessum starfsmanni, sem ég er alveg viss um, að þessi starfsmaður hefir aldrei sagt, þó ekki væri af öðru, þá þegar af þeirri ástæðu, að í þessum orðum lá árás á þennan mann sjálfan, enda sparaði hv. þm. ekki að fara niðrandi orðum um þennan starfsmann, jafnframt því sem hann vitnaði í hann. Þess vegna er það ekki þetta, sem þessi hv. þm. hefir gert, að fara til þessa manns og fá hjá honum upplýsingar, heldur fór hann með ósönn orð. Hv. þm. þarf ekki að gefa mér leyfi til að lögsækja sig. Ég get það, ef ég kæri mig um það. Hv. þm. veit það, að ég hefi gefið yfirlýsingu um það, að ég lögsæki menn ekki fyrir það að fara niðrandi urðum um mig.