11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

3. mál, landsreikningar 1929

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Það virðist ekki vera róttækur ágreiningur milli mín og hv. 2. þm. Skagf. út af brtt. hans. Við erum sammála um, að þetta sé aðeins form á færslu, sem engu breyti í raun og veru, reikningum eða niðurstöðu um núverandi hag ríkissjóðs. Við erum líka sammála um það, að það er ekki einstakt á árinu 1929, að flutt séu útgjöld yfir til næsta árs, heldur sé það gamalt og nýtt fyrirbæri. Það, sem á milli ber, er það, hvort taka eigi upp nýja reglu og heimta nú í fyrsta sinn að færa á fyrra ár það, sem hefir verið flutt yfir á næsta ár. Um þetta er ágreiningurinn. Hv 2. þm. Skagf. skýrði sitt mál aðallega með því, að þetta væru svo háar tölur, sem um væri að ræða, en ég hefi áður bent á það, að þetta hefir ekki verið í svo tiltakanlega litlum mæli áður, þeim eina lið frá 1926, vegamálunum, sem ég tók til samanburðar, nam yfirfærslan rúmum 160 þús. kr. Það hefir aldrei fyrr verið gerð tillaga um að flytja slíkar yfirfærslur yfir til fyrra árs, enda þýðingarlítið, þar sem það tekur til meira en ársgamalla reikninga og upphæðirnar komnar þegar til reiknings á síðara árinu. Þó að upphæðirnar á þessum landsreikningi séu háar, er samt enginn eðlismunur á þeim og hinum, sem lægri eru. Ef nú á að taka upp nýjan hátt fyrir umliðinn tíma um þetta atriði, þá verður að fylgja annarihvorri reglunni: að flytja allt eða ekkert; þriðja leið er ekki til. En ef brtt. er borin fram sem bending aðeins um framtíðina, þá skal ég ekkert um hana deila, enda er ég hv. þm. sammála hvað það snertir, að sú fasta regla sé upp tekin, að færa eftirleiðis hvort heldur eru tekjur eða gjöld á þann ársreikning, sem það að réttu lagi tilheyrir.

Hv. þm. G.-K. sagði, að láðst hefði að geta þess í nál., að fylgi hans við frv. væri bundið því skilyrði, að till. hv. 2. þm. Skagf. yrðu samþ. Ég vil taka það fram út af þessum ummælum, að ég heyri þetta nú í fyrsta sinn, enda skrifaði hv. þm. G.-K. undir nál. aths.laust. Ég minnist þess ekki, að hvorki hv. 2. þm. Skagf. né hv. þm. G.-K. lýstu því nokkurntíma yfir í nefndinni, að fylgi þeirra við frv. ylti á samþ. brtt., enda er það þvert ofan í bæði fundarbókun um málið og nál. Mér koma orð hv. þm. G.-K. því alveg á óvart. Hinsvegar er ég ekki með þessu að reyna neitt til þess að binda hendur þeirra í atkvgr. um frv. Auðvitað ráða þeir því sjálfir, hvort þeir breyta afstöðu sinni til málsins og greiða atkv. á móti frv., ef brtt. verður ekki samþ.

Ég sé enga ástæðu til þess, hvorki fyrir hönd n. né sjálfs mín, að vera að blanda mér nokkuð inn í þær umr., sem farið hafa fram um málið á við og dreif, t. d. milli þeirra hv. 2. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Skagf. Það mátti skilja það á ræðu hv. 2. þm. Reykv., að hann var að mæla með sjálfum sér sem endurskoðanda landsreikninganna, og að hann þóttist færari hv. 2. þm. Skagf. til starfsins, og skal ég láta þá hlutlausa um að gera það upp sín á milli.

Um það atriðið, að óheppilegt sé, að endurskoðunin fari fram löngu eftir á, get ég verið hv. 2. þm. Reykv. sammála. Það atriði væri auðveldast að lagfæra í sambandi við umbætur á ríkisbókhaldinu, sem nú liggja fyrir. Þegar komið væri á tvöfalt bókhald, yrði hægt að framkvæma endurskoðunina fyrr en nú. eða jafnvel jafnhliða.