11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

3. mál, landsreikningar 1929

Magnús Guðmundsson:

Ég sé enga ástæðu til þess að vera að karpa um þetta lengi og skal vera stuttorður.

Út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um fyrirkomulagið á endurskoðun landsreikninganna, vil ég taka fram, að ég er honum sammála um það, að kominn sé tími til breytinga í þeim efnum. Það var allt annað verk að endurskoða þá reikninga fyrrum, þegar tekjur og gjöld námu ekki nema 1–2 millj., eða nú, þegar þessir liðir reikninganna eru komnir upp undir 20 millj. kr. Þetta, hve landsreikningurinn er jafnan síðbúinn, er atriði, sem þarf að taka til rækilegrar athugunar, enda þótt hann verði ekki svo síðbúinn næst sem hann var nú. Þegar reikningurinn kemur ekki fyrr en undir jól, þá er ekki mikið tækifæri til þess að endurskoða hann, svo fullnægjandi sé. Og ef tveir af þremur endurskoðendum búa úti á landi, þá er auðsætt, að ekki er hægt að endurskoða daglega, enda þó að að endurskoðendur hafi aðgang að bókum ríkisféhirðis.

Hv. frsm. sagði, að það væri ekki rétt, að ágreiningur hefði verið innan n. Það er rétt hjá hv. frsm. að því leyti, að ágreiningurinn var aðeins um landsreikninginn 1929. Ég skal ekki lengi deila um það atriði, en ég álít, að hér sé um svo háa upphæð að ræða, að hún skipti miklu máli. Hv. frsm. minnti aftur á dæmið frá 1926, en ég hefi sýnt fram á, að þar er ekki um meira að ræða en það, sem ég hefi ekki gert aths. um 1929. Ég er líka hræddur um, að á landsreikningnum 1927 hafi átt sér stað slíkar yfirfærslur í 13. gr. Ég hefi tekið eftir því, að í þeirri gr. er greidd nákvæmlega sama upphæð til ýmsra vega og veitt hefir verið til þeirra í fjárlögum. Eru það þessir vegir:

Kjalarnesvegur ............. 26000 kr.

Stykkishólmsvegur ... . ...... 15000 —

Hvítárbraut ................. 10000 —

Norðurárdalsvegur .......... 60000 —

Miðfjarðarbraut ............. 35000 —

Sauðárkróksbraut ........... 18000 —

Vaðlaheiðarvegur .. ......... 50000 —

Vallavegur .................. 10000 —

Hróarstunguvegur ........... 27500 —

Biskupstungubraut ......... 25000 —

Hér standast alstaðar fjárveiting og reikningur nákvæmlega á. Verð ég að segja það, að mér þykir næsta undarlegt, ef vegamálastjóri hefir getað hnitmiðað þetta svo niður, að kostnaðurinn kæmi nákvæmlega heim við fjárveitinguna í fjárl. Er ég ekki að segja þetta í á deiluskyni, því að ég geri ráð fyrir, að hér sé um smáar upphæðir að ræða, og skiptir þetta því ekki miklu máli.

Viðvíkjandi afstöðu hv. þm. G.-K. til þessa máls, skal ég aðeins geta þess, að ég hafði ekki talað við hann, er ég skýrði n. frá afstöðu minni. Hvort ég greiði atkv. með eða móti frv., sé ég ekki, að skipti miklu máli, og sé því enga ástæðu til þess að skýra frá því fyrirfram. Það mun sjást síðar. Það er vitanlegt, að nóg atkv. verða samt með frv., hvort sem ég greiði atkv. með eða á móti því.

Um hina nýju reikningsfærslu get ég ekki mikið talað, þar sem ég er henni lítið kunnugur. Mér virðist þó í fljótu bragði, að ekki sé neitt hægara að fá gott yfirlit yfir hag ríkissjóðs, þó að hún sé viðhöfð. Skal ég svo ekki lengja þessar umr. meir en orðið er.