11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

3. mál, landsreikningar 1929

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Í landsreikningnum fyrir 1929 stendur á bls. IV, að áætluð útgjöld samkv. fjárl. hafi verið 10883600,00 kr., en útgjöldin þetta sama ár hafi numið 18376467,20 kr. Að frádregnum auknum sjóði og aukinni innstæðu, sem nema rúml. 1346 þús. kr., verða útgjöldin rúmlega 17 millj. kr., í stað rúmra 10 millj. 800 þús., sem áætlað var í fjárl. Það eru þannig fast að 7 millj. kr., sem ríkissj. hefir goldið á þessu ári umfram það, sem Alþingi ætlaðist til. — Að þessu ráðlagi hæstv. stj. hefir. verið fundið af mörgum, og það að maklegleikum. En nú bregður svo við, að ekki virðist annað sýnna en að ýmsir þeir, sem hvað hæst hafa vítt hæstv. stj. fyrir þetta, hafi í hyggju að gefa henni allsherjar syndakvittun með því að samþykkja landsreikninginn eins og hann liggur hér fyrir.

Ég get tekið það fram fyrir mína hönd og minna flokksmanna hér í hv. d., að við munum hvorki samþ. fjáraukalögin fyrir árið 1929 né heldur landsreikninginn eins og frv. þessi liggja hér fyrir. Við teljum það með öllu óverjandi, að ríkisstj. skuli taka sér það vald að ráðstafa svo miklu fé úr ríkissjóði sem hér hefir verið gert, án vilja eða vitundar þingsins. Annað mál er það, að það virðist óneitanlega vera nokkuð eftir dúk og disk að vera að ræða um LR fyrir árið 1929 nú í ágústsmán. 1931.