27.07.1931
Neðri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

1. mál, fjárlög 1932

Haraldur Guðmundsson:

Ég veit ekki, hvort nokkra þýðingu hefir að tala hér fyrir brtt., sem ég ásamt hv. þm. Ísaf. (VJ) og hv. 3. þm. Reykv. (HV) flyt á þskj. 118. Eftir þeirri afgreiðslu sem frv. stj. hefir fengið hjá fjvn., virðist mér sem vera muni bezta samkomulag milli flokkanna, Íhalds- og Framsóknarflokksins, sem annars hafa viljað láta líta svo út sem þeir væru algerðir andstöðuflokkar. Um það virðast þeir þó sammála, að einmitt þegar verst lætur í ári, þá eigi ríkissjóður ekki að veita mönnum atvinnu. Ég segi þess vegna, að ég veit ekki, hvort það þýðir að fara að tala fyrir þessum till., því að þær ganga í gagnstæða átt við till. flokkanna beggja í þessum efnum. Ég mun þó fara um þær nokkrum orðum og ætla þá að ganga á röðina á þeim till., sem við eigum á þskj. 118.

Fyrsta till. okkar er við 2. gr., 9. lið, um það, að skólagjöld falli niður. Þessi gjöld eru áætluð 15–20 þús. kr., og þar sem þessi upphæð er svo lág, munar ríkissjóð hvorki til né frá um hana, en skólagjöldin við þessa skóla, sem upp eru taldir, nema á ári 150 kr. á hvern nemanda, og þykir mér það mikill skattur til viðbótar því, að nemendur þurfa að vera frá vinnu allan skólatímann og leggja mikið fé í bækur. Við leggjum því til, að þessi liður verði felldur niður, og aths., sem fylgir þar síðar gjaldamegin í 14. gr., falli einnig niður. Annars skal ég geta þess, að ef líklegra væri til samkomulags, þá myndum við geta fallizt á að láta skólagjöldin aðeins falla niður hjá þeim, sem efnalitlir eru, og kæmi þá til greina visst efnahagstakmark; yrði þá miðað við efnahag nemendanna sjálfra eða aðstandenda þeirra. Þá er við 3. gr. lagt til, að tekjur pósts séu áætlaðar 25 þús. kr. hærri en þær eru í frv., eða 575 þúsund krónur, og tekjur af síma 1 millj. 900 þúsund krónur í stað 1 millj. 800 þús. kr. Þessar breyt. eru gerðar í samráði við þá menn, sem kunnugir eru þessum efnum, og með tilliti til þess, sem tekjurnar hafa orðið, en reynslan hefir sýnt, að tekjur þessara stofnana fara vaxandi ár frá ári.

Hv. frsm. fjvn. hefir nú skýrt frá því, að hann óski þess, að till. þessar verði látnar bíða til 3. umr., og muni þær þá verða teknar sérstaklega til umr. af fjvn.; má ekki minna vera en að ég verði við þessari bón, ef hv. fjvn. kynni þá að verða eitthvað skárri viðureignar.

Þá er það gjaldahliðin. Þar leggjum við til, að til nýrra símalagninga verði varið 117 þús. kr., og fylgir sundurliðun á því, á hvaða svæðum sími skuli lagður. Það hefir áður verið svo, að Alþingi hefir að minnstu haft íhlutunarvald um það, en það virðist ekki nema réttmætt og sjálfsagt, að beint sé ákveðið í fjárlögum, til hvaða símalagninga fénu skuli varið, enda er það í samræmi við þá stefnu að halda fjárveitingavaldinu í höndum þingsins.

Um víneinkasöluna get ég sleppt að ræða að svo komnu máli, því að hv. n. hefir farið fram á, að sú till. yrði tekin aftur til 3. umr.

Þá leggjum við til, að 8. gr. orðist svo: Borðfé konungs kr. 60000. Þetta er í fullu samræmi við íslenzk lög, því að þar er ákveðið, að konungsmatan skuli vera 60 þús. kr., en sú venja hefir síðan verið tekin upp að greiða féð í dönskum krónum, þannig að konungur hefir fengið 73 þús. ísl. kr., en þetta leggjum við til, að verði fellt niður.

Þá kem ég að brtt. við 13. gr., þar sem við þremenningarnir förum fram á framlög nokkur til nýrra akvega. Það er nú svo, að brtt. þessar eru flestar gamlir kunningjar í þessari hv. d., og að ýmsum þessara vega hefir verið unnið undanfarið, þannig að óhjákvæmilegt er að halda þeim áfram, ef því fé á ekki að kasta á glæ, sem varið hefir verið til þessara framkvæmda á síðustu árum. Undantekningar frá þessu eru þó vegurinn yfir Fjarðarheiði og Breiðadalsheiðarvegur. Til þessara vega leggjum við til, að veittar verði 60 þús. kr., 30 þús. til hvors. Um Breiðadalsheiðarveginn er það að segja, að hann myndi tengja Önundarfjörð og Dýrafjörð við Ísafjarðarkaupstað, en eins og sakir standa, eru firðir þessir mjög einangraðir og illa settir með samgöngur. Ég er satt að segja hissa á því, hversu erfiðlega hefir gengið að fá veg þenna tekinn upp í þjóðvegatölu, svo sjálfsagt sem það þó virðist. Ég sé, að hv. þm. V.- Ísf. hefir tekið upp samskonar till. og þessa nú á þessu þingi, svo að ég vona, að nú muni blása byrlegar fyrir máli þessu en undanfarið.

Eins og hv. þdm. mun kunnugt, er nú orðið alllangt síðan fyrst var farið að tala um Fjarðarheiðarveginn og áætla þann kostnað, sem honum væri samfara. Nú er áætlað, að gera megi bílfæran sumarveg fyrir 90 þús. kr., þannig að þetta yrði þá fyrsta fjárveiting af þremur.

Nú er svo komið, að telja má bílfæran veg frá Reykjavík til Húsavíkur, og ef vegur er ruddur yfir Reykjaheiði, sem mun kosta um 15 þús. kr., þá er vegurinn kominn til Axarfjarðar og austur fyrir Jökulsárbrú. Þaðan er hægt að komast í bil að Grímsstöðum og þaðan að Möðrudal, með því að laga veginn lítilsháttar. Sama er að segja um veginn frá Möðrudal að Skjöldólfsstöðum á Jökuldal, hann myndi ekki hafa ýkja mikinn kostnað í för með sér. En um Jökuldalinn frá Skjöldólfsstöðum að brúnni á Jökulsá þarf að leggja nýjan veg. Og er þá óslitinn bílvegur kominn frá Reykjavík til Reyðarfjarðar haustið 1932, ef till. okkar verða samþ. Vil ég vona, að hv. d. láti mál þetta ná fram að ganga.

Í fjárlagafrv. í vetur voru framlög til viðhalds vega ákveðin 200 þús. kr. Í samráði við vegamálastjóra lagði ég til, að þau væru hækkuð upp í 500 þús. kr. Nú sé ég, að þessi upphæð hefir verði sett 400 þús. kr. í till. fjvn., líka í samráði við vegamálastjóra, segir nefndin, þannig að hann virðist hafa slegið af kröfunum og rifað seglin. Í þessu sambandi þykir mér rétt að drepa á það furðulega fyrirbæri, að nú er verið að bera fram fjölda frv. um nýja þjóðvegi og nýjar brýr. Einmitt á þessu ári, þegar dregið er að 3/4 hlutum úr verklegum framkvæmdum öllum, er gripið til þess að koma fram með frv., sem ákveða, að svo og svo margar brýr skuli byggðar og svo og svo margir vegir lagðir, þótt fyrirsjáanlegt sé, að þar sé engin alvara á bak við, og ekki verði af því næsta mannsaldurinn, ef svo á að klípa naumt framlög til nýbygginga vega og brúa sem gert er í frv. Nú þegar allt á að skera niður, og neyðin ber að dyrum, er þetta gert til að friða sálir auðtrúa manna, en hversu notadrjúgt og affarasælt það verður, skal ósagt látið.

Þá kem ég að IX.brtt., við 13. gr. C. VII. Þar er farið fram á, í a-lið till. að 96 þús. kr. verði varið til lendingarbóta á ýmsum stöðum, og taki ríkið þátt í allt að 1/3 kostnaðar gegn því, að hlutaðeigandi héruð leggi fram 2/3 og hafi féð fyrir hendi, en atvmrh. samþ. kostnaðaráætlunina. Þeir staðir, sem þar er um að ræða, eru: Keflavík, Húsavík, Hvammstangi, Hnífsdalur, Vopnafjörður, Sauðárkrókur og Vatnsleysustrandarhreppur, og fylgir sundurliðun á því, hversu mikið fé skuli fara til hvers þeirra. Um þessar fjárveitingar er það að segja, að þær eru áframhald af styrk, sem áður hefir verið veittur þessum héruðum af Alþingi, og þar sem það hefir hvatt þau til þess að hefja verkið, virðist öll sanngirni mæla með því, að áfram verði haldið, svo að það verk, sem þegar er unnið, fari ekki til ónýtis, og héruðin séu göbbuð. Þess er og að gæta, að íbúar þessara héraða hafa lagt sér þunga bagga á herðar til þess að koma verkinu í framkvæmd, og þeir mega ekki við því, að Alþingi hlaupi nú undan byrðinni, sem þessir menn hafa reiknað með, að það tæki á sig.

Í b.-lið IX. brtt. er farið fram á það, að veittar verði 30 þús. kr. til sjóvarnargarðs í Ólafsvík, án þess að heimta framlag á móti. Um þetta mannvirki er það að segja, að enn er eftir að ganga frá enda garðsins, og verði það eigi gert, er ekkert líklegra en að það verkið fari algerlega til ónýtis.

Þá er c.-liðurinn, sem er þess efnis, að varið verði 6000 kr. til brimbrjótsins á Skálum. Fjöldi verkamanna, sem við hann hafa unnið, hafa ekki ennþá fengið goldið kaup sitt, sökum þess, að þeir vita ekki, hvert þeir eiga að snúa sér. Vitamálastjóri hafði, eins og mönnum mun kunnugt, umsjón með verkinu, en hann vísar frá sér og neitar um greiðslu á kaupinu, og sú nefnd, sem fyrir verkinu stóð, segist enga ábyrgð bera á slíku, og sömu svörin fá þessir menn hjá hreppnum. Þessi ógreiddu vinnulaun munu nema 5–6000 kr., og virðist ríkinu bera skylda til að sjá um, að þessir verkamenn fái kaup sitt goldið að fullu.

Þá vil ég næst víkja að 2. lið brtt. Þar er farið fram á, að ríkissjóður greiði 48 þús. kr. til hafnargerðar á Akranesi. Þessi upphæð er ákveðin svo vegna þess, að við flm. viljum, að Alþingi slái því föstu, að framlag ríkissjóðs til þessara mannvirkja skuli nema 2/5 kostnaðar, en hlutaðeigandi héraðs 3/5. Akurnesingar hafa lagt fram 120 þús. kr.

Þá kem ég að brtt. XI., sem fer fram á, að reistir verði tveir nýir vitar, Óshólaviti og Sauðanesviti, og er það í samræmi við brtt. frá hv. þm. Vestm. og hv. þm. N.-Ísf.

Þá er 2. liður XI. brtt. um útvarpið, að í stað 200 þús. kr. komi 250 þús. kr. Um hana læt ég bíða að tala þar til till. n. um breytingar á tekjunum liggja fyrir. En að því er snertir tilfærslu milli greina vil ég geta þess, að mér finnst það form, sem nú er á fjárlögunum mun greinilegra en áður, að ýmsu leyti. En ég fæ ekki skilið, hvers vegna útvarpið er sett þar sem það er, þ. e. gjaldamegin. Mér virðist engin ástæða til að greina svo á milli ríkisfyrirtækja, að setja sum á 3 gr., en önnur á 13. gr. Mér virðist réttara, að öll þessi fyrirtæki án tillits til þess, hvort áætlað er, að þau gefi af sér tekjur eða hafi tap í för með sér, séu sett á einu og sömu gr. Þetta er að vísu fyrirkomulagsatriði, en mér finnst rétt að færa þetta þannig, þar sem hér er aðeins um áætlun að ræða, sem hlýtur að breytast til beggja vona. Brtt. er í samræmi við þetta og vill láta eitt yfir öll fyrirtækin ganga.

Ég vil geta þess, að í 4. lið þessarar brtt., þar sem talað er um framlag til byggingar gagnfræðaskóla í Reykjavík, hefir komizt inn misprentun. Þar stendur 50 þús. kr., en á að vera 90 þús. kr. Þetta vona ég, að hæstv. forseti vilji taka til greina, og ennfremur, að í b-lið, þar sem talað er um framlag til byggingar gagnfræðaskóla í kaupstöðum stendur 40 þús. kr., en á að vera 100 þús. kr. Þetta vænti ég, að hæstv. forseti vilji einnig taka til greina. — Um þessa breytingartillögu er í sjálfu sér ekki margt að segja. Þeir, sem kunnugir eru atburðum síðustu ára, vita, að stórar og vandaðar byggingar hafa risið upp t. d. á Laugum, Laugarvatni, Reykjum og Reykholti, og munu þær til samans kosta talsvert hátt á 2. milljón kr. Það er því ærið misrétti í því, ef það er borið saman við bæina, sem aðeins hefir verið varið til fáeinum þúsundum í svipuðu augnamiði. Hér er því farið fram á, að til gagnfræðaskóla í kaupstöðum séu nú lagðar fram 190 þús. kr. úr ríkissjóði, en bæirnir eiga að greiða 3/5 á móti, og verður þá fyrir hendi um ½ millj. til þessara framkvæmda. Þá er ennfremur lagt til, að styrkur til byggingar húsmæðraskóla sé hækkaður um 10 þús. kr., til byggingar á Ísafirði. Það hefir áður verið flutt hér í þessari hv. d., svo að óþarfi er að eyða mörgum orðum að því nú.

Þá er XIX. brtt., þar sem við förum fram á, að ríkissjóður leggi fram 300 þús. kr. til atvinnubóta til sveitar- og bæjarfélaga, þegar minnst er um atvinna, og sé það 1/3 kostnaðar gegn tvöföldu framlagi frá hlutaðeigandi héraði.

Það er nú komið svo, að á hverju ári er í kaupstöðum meira og minna atvinnuleysi, og oft er það svo mikið, að óhjákvæmilegt er, að hið opinbera hlaupi undir bagga. Þetta er ástand, sem er alvanalegt og alveg óskylt þeirri kreppu, sem nú stendur yfir. Þess vegna álítum við flm. rétt, að jafnan sé ákveðin í fjárlögum upphæð, sem varið skal í þessu augnamiði, þannig að mönnum gefist kostur á því að afla sér atvinnu í stað þess að neyðast til þess að sækja um fátækrastyrk.

Nú sé ég, að hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. flytja till. um að ríkissjóður leggi 500 þús. kr. fram til atvinnubóta. Mér skilst, að þessi till. sé flutt með tilliti til kreppunnar sérstaklega og mun því að sjálfsögðu greiða henni atkv. líka.

Loks er hér XXXI. brtt., frá okkur þremenningunum. Það eru þrír nýir liðir. Fyrsti liður fer fram á, að ábyrgzt verði allt að 600 þús. kr. lán fyrir Ísafjarðarkaupstað og Eyrarhrepp til rafvirkjunar gegn þeim tryggingum, er ríkisstj. metur gildar.

Það er nú svo með þessa virkjun, að á þingi 1929 var sú heimild veitt ríkisstj., að ábyrgjast allt að 450 þús. kr. til hennar. Síðan hefir sú breyting orðið á, að ákveðið hefir verið að hafa virkjunina nokkru stærri en upphaflega var ætlað, og þess vegna er nú farið fram á 600 þús. kr. ábyrgð. Þar sem hér er í rauninni aðeins um framlengingu að ræða, vona ég, að þessi till. nái samþykki.

Þá er b.-liðurinn, að gengið verði í ábyrgð fyrir samvinnufélag sjómanna og verkamanna á Seyðisfirði fyrir lánum til kaupa á fiskiskipum, allt að 4/5 kaupverðs skipanna, fullbúnum til fiskveiða, samtals allt að 100 þús. kr., og skal lánið tryggt með sjálfsskuldarábyrgð. félagsmanna, ábyrgð Seyðisfjarðarkaupstaðar og 1. veðrétti í skipunum. Til frekari tryggingar fyrir ríkið er það einnig gert að skilyrði, að forstöðumaður og annar endurskoðandi skulu samþ. af ríkisstj.

Ég geri ráð fyrir, að félaginu reynist auðvelt að fá skip, sem bezt hentar, hér innanlands, svo að þá er sú mótbára brott fallin, að um ábyrgð gagnvart útlöndum sé að ræða. Sú upphæð, sem farið er fram á, er auk þess sáralítil, þannig að ég vona, að hv. d. sjái sér fært að samþ. þetta.

C.-liður till. gengur í þá átt, að ríkið skuli ábyrgjast lán til Síldareinkasölu Íslands, og skal lán þetta endurgreiðast að fullu áður en nokkrum síldareiganda verður greitt meira en 18 kr. á tunnu af saltsíld, að meðtöldu andvirði umbúða og verkunarkostnaðar, eða tilsvarandi upphæð fyrir öðruvísi verkaða síld. Ábyrgðin skal gilda til ársloka 1932 og skal aldrei nema hærri upphæð en svo, að hún og varasjóður einkasölunnar nemi á hverjum tíma samtals 1 millj. kr.

Í núg. fjárl. er ákveðin ½ millj. kr. ábyrgð handa einkasölunni, en það hefir sýnt sig að er hvergi nærri nóg. Þess vegna höfum við lagt til, að upphæðin verði hækkuð, en til frekari tryggingar sett inn það ákvæði, að lánið skuli að fullu goldið áður en síldareigendur hafa fengið greiddar 18 kr. á tunnu, og virðist það nægilegt öryggi þess, að ríkissjóður hefir ekkert á hættu vegna þessa.

Þá liggja ekki fyrir fleiri till. frá okkur þremenningunum, en ég vildi minnast lítið eitt á till. hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. Borgf. sem er XXXII. í röðinni. Ég tel sjálfsagt, að hv. d. samþ. þessa till. Slíka tillögu er tæplega hægt að fella. Reynsla undanfarinna ára, umframeyðsla hæstv. stj., hefir gefið svo ríkt tilefni. En hinsvegar er ég ekki viss um, að þótt, þessi till. verði samþ., þá sé fengin nokkur trygging umfram það, sem nú er, fyrir því, að stj. eyði ekki fé umfram fjárlög. Ein grein fjárlaga hindrar stj. engu meira, sízt meira en ákvæði almennra laga og sjálfrar stjórnarskrárinnar, sem bannar þetta alveg

Að lokum vil ég segja það um till. okkar þremenninganna, að þær eru bornar fram með það fyrir augum að slá því föstu, hvað normalt eigi að framkvæma, en þar er ekki tekið sérstakt tillit til þess bága ástands, sem nú ríkir í landinu. Um ráðstafanir vegna kreppunnar flytjum við sérstakt frv. Við gerum í till. ráð fyrir því einu, að framkvæmdir verði þær sömu og áður, og í samræmi við það hækkum við gjaldaliðina samtals um 1200 þús. kr. frá því, sem hæstv. stj. hefir lagt til. Ef athuguð er tekjuáætlunin, þá er það bersýnilegt, að í henni er ekkert vit. Hún er a. m. k. þessum 1200 þús. kr. og lág.