21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

3. mál, landsreikningar 1929

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Hv. 2. landsk. byrjaði á því að lýsa því yfir, að hann myndi greiða atkv. á móti fjárlögunum og verðtollinum. Það var auðvitað af því að hann vissi, að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki vera á móti þeim lögum. En ef hann hefði rennt grun í, að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði sér að vera ekki með, þá hefði ekki gengið eins vel með yfirlýsinguna.

Það virðist sem honum hafi verið orðið mál á að verzla. Flokksmenn hans greiða allir atkv. á móti samþykkt landsreikninganna í Nd., og þegar hann vill ekki greiða atkv. á móti, þá vita allir, að hann er keyptur. — ekki með fjárframlögum til hans sjálfs, heldur með einhverjum fríðindum fyrir flokk hans. Hann selur sig til þess að fylgja röngu máli, — láta þá óhæfu viðgangast, að samþykktir séu landsreikningar, þar sem stórar fjárhæðir eru, sem ekki nokkur minnsta heimild er fyrir.

Ég spurði í dag einn liðsmann stj. að því, hvort þeim þætti ekki hv. 2. landsk. nokkuð dýr, og þá svaraði hann: „Það er ég nú hræddur um, að sumum finnist“. En ekki er enn komið í ljós, hvert verðið er, en það kemur á sínum tíma.

Það er einkennileg rás viðburðanna, að sama daginn sem stj. kemur til þessarar hv. d. til að biðja um kvittun fyrir meðferðina á fé þjóðarinnar, er það tilkynnt í sömu d., að sá maður, sem mesta sök á á óreiðunni, er tekinn í stjórnina. Það er meira en að það sé leiðinlegt, það er þjóðarskömm, að svona menn skuli fara með völd, og samvizkusamir menn geta ekki annað en greitt atkv. á móti því, sem þeir vita, að er rangt, í stað þess að verzla með sannfæringu sína.