21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

3. mál, landsreikningar 1929

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. 2. landsk. skýrði frá því, að hann hefði fyrirfram gefið yfirlýsingu um það, að hann myndi greiða atkv. gegn verðtollinum og fjárlögunum. En hann gleymdi að geta um það, að hann hafði líka gefið yfirlýsingu um að greiða atkv. á móti samþ. landsreikninganna. Hann segir, að hann hafi viljað gefa Sjálfstæðisflokknum tækifæri til að beita þvingunum til að koma fram kjördæmaskipunarmálinu. En hann sleppir því, að hann og hans flokksmenn voru reiðubúnir til að greiða atkv. með öðrum tekjustofnum.

Því held ég, að ekki hafi meira verið að byggja á yfirlýsingu hans í þessum efnum en á þeirri, að hann myndi verða á móti fjáraukalögunum og landsreikningnum. Hann vildi aðeins gefa yfirlýsingu um það, að rétt væri að verzla við hann. Nú fyrst hefir hann fengið tækifærið, og þá notar hann það til að verzla, gengur á bak orða sinna, af því að stj. samdi við hann, og sama myndi hafa orðið í hinum málunum, ef oltið hefði á hans atkv.

Ég vil vekja athygli á því, hver munur er á samþykkt fjárlaga og landsreikninga. Fjárlög eru nauðsynleg til þess að hægt sé að starfrækja þjóðarbúið, samþykkt á landsreikningum og fjáraukalögum er samþykkt á því, sem framkvæmt hefir verið án leyfis þingsins. Og nú er það ekki aðeins það, sem beint hefir verið tekið til flokksþarfa, sem ríkisstj. hefir misnotað. Innan um upphæðir fjárlaganna eru fjölda margar upphæðir, sem líkt stendur á um. Ég vil benda á umframgreiðslur vegna sakamálakostnaðar. Það er enginn vafi, að það eru stórar upphæðir, sem stendur mjög svipað á um. En auk þess er með samþykkt fjáraukalaga og landsreiknings fallizt á það og samþ. af þinginu, að stj. taki sér fjárveitingavaldið í hendur, — taki það af þinginu að mestu leyti. Hæstv. stj. leyfir sér að ráðstafa í raun og veru margfalt meira fé en þinginu er falið til umráða í fjárlögum, og það er þetta, sem er samþ. að sé réttmætt af stj. og hún hafi heimild til að gera framvegis. Í því sambandi vil ég minna hv. 2. landsk. á orð, sem féllu hjá flokksmanni hans í Nd., þegar sama mál var til umr. Hann lýsti hátíðlega yfir því, að hann skyldi aldrei ljá samþykki sitt til þess, að stj. hefði máti ráðstafa 17 millj. af ríkisfé, þegar heimild í fjárlögum var aðeins um 10–11 milljónir. En það er þetta, sem hv. 2. landsk. ætlar að samþ., þó að hann rétti ekki upp hendina, af því að þess þarf ekki.