21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

3. mál, landsreikningar 1929

Jón Baldvinsson:

Þau hafa komið óþægilega við kaunin á hv. sjálfstæðismönnum í hv. deild þessi fáu orð, sem ég sagði áðan, — þessi sögulega lýsing á þeirra starfi hér í þinginu nú, hvernig þeir runnu á hverri yfirlýsingunni eftir aðra, hafa etið ofan í sig öll stóru orðin, sem þeir voru búnir að æsa sína kjósendur upp með. Þetta vita kjósendur hér í Rvík ákaflega vel; og það eru ekki blíð orð, sem þeir láta svona út í frá falla um foringja sína fyrir ræfilsskapinn, sem þeir kalla, í atkvgr. í þinginu. Hv. 4. landsk. sleppti sér nú alveg, þessi rólyndi maður, og rauk hér upp með stóryrði. En hann má eiga það, sá góði maður, að þegar hann var búinn að sleppa stóryrðunum út úr sér, tók hann þau undir eins aftur og bað velvirðingar. Þess vegna ætla ég ekki að gera þau að miklu umtalsefni.

Það, sem hann seinast sagði, var það, að ég fylgdi máli, sem ég vissi að væri rangt. Hvað haldið þið, að það sé, sem her á milli hans flokks og stjórnarflokksins? Maður skyldi halda, að það væru öll lifandi ósköp, sem þá greinir á um landsreikning og fjáraukalögin 1929. Ég las upp í ræðu nál. úr Nd.; undir það skrifaði öll n. og leggur til, að samþ. verði óbreytt, en í henni eru hv. 2. þm. Skagf. og hv. þm. G.-K. Síðan kemur allur þessi hvinur hjá flokksmönnum þeirra hér í Ed.

Annars þarf ég raunar ekki að svara hv. 4. landsk. Hann var yfir sig reiður, og honum fataðist alveg sú rólega yfirvegun, sem hann er annars vanur að viðhafa í ræðum.

Það fór líka svo fyrir hv. 1. þm. Reykv., sem eiginlega er hverjum manni rökfimari. Hann hafði engu að svara, nema dylgjum. Hann sagði, að ég hefði gengið á bak orða minna, og að ég hafi lýst yfir, að ég yrði á móti landsreikningnum. Ég veit ekki til, að ég hafi gefið neina yfirlýsingu í þessu máli áður. Hv. þm. fór svo að verja framkomu þeirra í verðtollsmálinu. Þær koma sitt á hvað, ástæðurnar, sem færðar eru fram í því máli. Í útvarpsræðum nýlega hélt bæði hv. 4. þm. Reykv. og 2. þm. Skagf. fram, að þeir hefðu fylgt verðtollsmálinu af því að það væri þeirra stefnumál. Sama sagði hv. 1. landsk. í ræðu í þessari hv. deild. Og ég má segja, að eitthvað líkt kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv. Ég lýsti aðeins yfir um verðtollinn, að ég greiddi atkv. á móti því frv. Og hv. þm. veit, að ef sjálfstæðismenn hefðu greitt atkv. móti verðtollinum, væri hann fallinn. Hv. þm. segir þetta mót betri vitund, til þess að færa fram varnir fyrir sig og sinn flokk í þessu máli.

Þá kvað hv. 1. landsk. mig hafa misskilið orð hans í dag um það, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki talið rétt að hefja aðgerðir á þessu sumarþingi til þess að kippa í lag kjördæmaskipunarmálinu. (JónÞ: Það var út af þingrofinu). Fyrir mínum augum var samband þarna á milli. Annars get ég tekið aths. hans um skilning á orðum hans trúanlega.

Hv. þm. sagði, að Alþýðuflokkurinn hafi borið fram tekjufrv. handa stjórninni, sem hún hefði getað samþ. og notað, ef verðtollurinn var felldur. Það var hið svokallaða kreppufrv. Þar voru tekjurnar algerlega bundnar. Tekjur af tóbakseinkasölunni voru ekki bundnar í sjálfu frv., en í frv. um rafveitulánasjóð Íslands, sem ég flutti samtímis, var tekjum af tóbakinu ráðstafað. En þegar ég sá, að þetta frv. mundi ekki ná fram að banga, flutti ég viðaukatill. við tóbakssölufrv., um að binda tekjur af tóbakinu, svo að þær færu ekki til almennra útgjalda ríkissjóðs. Þannig hefðu tekjur af frv. okkar jafnaðarmanna ekki verið lagðar stj. upp í hendur til hvaða útgjalda sem er, en aftur hefir hún óskorað vald yfir verðtollstekjunum.

Það má vera, að viðvíkjandi okkar eigin frv. höfum við jafnaðarmenn ekki ávallt látið yfirlýsingar fylgja hverju þeirra, að við gengjum á móti þeim, ef úr væru felld þau ákvæði, sem tiltaka notkun teknanna, sem frv. útvega ríkissjóði. En þetta kom þó fram í umr. um verðtollinn.

Hv. 1. landsk. vill hafa hreinan skjöld í þessu máli. Hann hefir hreinan skjöld gagnvart stjórninni. Hann bjargaði henni með verðtollinn og fjárlögin. Og hvað er það svo, sem hann vill láta breyta í fjáraukalögunum? Það eru hér tvær till.: að í stað kr. 98849,90 komi kr. 98411,49; og að í stað kr. 38647,22 komi kr. 29197,22. Þetta er aths., sem hann vill gera við fjáraukalagafrv. 1929. Að öðru leyti leggur hann til, að það verði samþ. Ég býst við að greiða atkv. með þessum brtt. hv. l. landsk. En það gæti ekki verið út af þessu sá hvellur, sem hljóp í þessa hv. þm. og fékk þá til að rjúka upp hér í hv. deild. En þeir vilja halda þessari aðstöðu, sem þeir höfðu hér út af mínum yfirlýsingum um verðtoll og fjárlög. Þeir vildu geta gengið til stj. og sagt: Við viljum fá eitthvað til að vera með landsreikningi og fjáraukalögum. Hvað skeður eiginlega, ef landsreikningurinn er ekki samþ. á þessu þingi? Er það stór-„pólitískt“ mál? Það er ekki sambærilegt við að fella verðtoll eða fjárlög. Það skeður ekki neitt, nema málið bíður til vetrarþings eða er þá tekið út af dagskrá og „forhandlað“ við sjálfstæðismenn, hvort þeir vilji greiða atkv. með því, sem þeir eru í raun og veru með, eins og sést á nál. í Nd.