27.07.1931
Neðri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

1. mál, fjárlög 1932

Jóhann Jósefsson:

Ég ætlaði ekki að taka til máls fyrr en seinna í dag, en úr því að enginn varð til að kveðja sér hljóðs og mér sýndist hæstv. forseti hinsvegar þess albúinn að slíta umr., þá vildi ég nota þennan tíma, sem eftir er fram til kl. 4.

Þá vil ég fyrst lýsa yfir því, að okkur þótti kynlegt, ýmsum þm. hér, að það var ekki hægt að sjá á frv. því, sem hér liggur fyrir, eða á till. hv. fjvn., að neitt fé eigi að leggja fram til byggingar nýrra vita, en eins og kunnugt er, þá er langt frá því, að vitabyggingar séu komnar í það horf, að forsvaranlegt megi teljast ennþá sem komið er að láta nokkurt fjárlagatímabil líða svo, að ekkert sé lagt fram til vitamála. Á hinn bóginn er vitagjaldið, sem fer í ríkissjóð, svo hátt, að það er bæði full skylda og mikil þörf að nota a. m. k. nokkuð af því á hverju ári til byggingar vita. (Frsm.: Við ætlum að athuga það til 3. umr. Mér gleymdist að taka það fram í framsöguræðunni). Það er vel farið, að svo er, en ég vil samt skýra frá því, hvers vegna þessi brtt. er fram komin, sem ég flyt á þskj. 118, VIII. lið. ásamt hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. N.-Ísf. Brtt. fer fram á, að lagt sé fé fram til byggingar nýrra vita. Vitamálastjóri hefir lagt sérstaka áherzlu á, að nú liggi mest á að reisa þá vita, sem taldir eru upp í till., Sauðanesvita við Siglufjörð, radióvita á Gelti við Súgandafjörð og Óshólavitann. Um Sauðanesvita og Óshólavita vil ég geta þess, að hv. þm. Seyðf. og tveir flokksbræður hans hafa komið fram með samskonar till. að því er snertir þessa tvo vita, en ekki tekið með radíóvitann á Gelti. Eftir áætlun vitamálastjóra kosta þessir vitar 177 þús. kr., og þegar þess er gætt, að samkv. opinberum skýrslum var vitagjaldið fyrir árið 1929 473 þús. kr., virðist hóflega farið af stað, þó að ætlazt sé til, að tæplega 200 þús. kr. séu lagðar fram til vitabygginga á hinum bráðnauðsynlegustu stöðum. Hér er um þá staði að ræða, þar sem mikil útgerð er nærri, Svo sem Siglufjörð og Ísafjarðardjúp. Þetta er því hið mesta nauðsynjamál, en þar sem hv. frsm fjvn. hefir lýst yfir því, að þetta muni verða athugað í n. til 3. umr., getur vel komið til mála, að við flm. till. tökum hana aftur, svo að n. gæti athugað málið til 3. umr., og okkur gefist tækifæri til að tala um það við hv. frsm.

Þá hefi ég borið fram ásamt hv. þm. Seyðf. brtt. á þskj. 118, XV, um að Þórhalli Þorgilssyni kennara verði veittar 3000 kr. til að gefa út kennslubækur í spönsku og ítölsku. Þórhallur Þorgilsson er mjög efnilegur málfræðingur. Hann hefir þessar kennslubækur fullbúnar til prentunar, en vantar fé til útgáfunnar, en hann er sjálfur fátækur og hefir því ekki efni á að standa straum af útgáfukostnaðinum Hann hefir sent erindi um þetta til fjvn., en hún virðist ekki hafa séð sér fært að sinna því, þó að undarlegt sé, að hv. n. skuli ekki álíta það svo mikils virði að fá kennslubækur til notkunar handa Íslendingum til að læra rómönsk mál, þegar þess er gætt, að hún virðist ekkert hafa að athuga við ýmsa miður þarfa rithöfundastyrki, sem standa í fjárlagafrv.

Ég skal ekki fara út í samanburð um þessi ritverk, en því vil ég halda fram, að það er nauðsynlegra, að þjóðin fái góða kennslubók í máli þeirra þjóða, sem við seljum mest af fiski okkar, en að kosta útgáfu ýmissa þeirra bóka, sem nú eru gefnar út á þessu ári fyrir beinan styrk úr ríkissjóði eða þá styrk úr Menningarsjóði.

Öllum ber saman um það, að til þess að viðhalda tryggu verzlunarsambandi við önnur lönd, þarf jafnlítil þjóð og við að hafa nokkra kynningu af högum og háttum þeirra þjóða. Því er svo varið, að við eigum langmest af afkomu okkar undir verzlunarsambandinu við Suðurlönd, sérstaklega við Spán. Það er því nauðsynlegt að halda við sambandinu milli landanna, en til þess að það sé hægt, er nauðsynlegt, að okkar ungu verzlunarmenn kunni mál þeirrar þjóðar, því að við getum ekki ætlazt til þess, þar sem við erum aðeins 100 þús., en hér er um milljónaþjóð að ræða, að þeir fari að læra okkar mál, svo að nokkru nemi. Þessar 3 þús., sem hér er farið fram á, að veittar séu til að gefa út handhæga kennslubók í spönsku og ítölsku, gætu beinlínis margborgað sig fyrir landið. Það er ekki hægt að sýna það með tölum, og þess þarf ekki heldur. Það vita allir, að það er bráðnauðsynlegt að kunna tungu þeirra þjóða, sem við verzlum mest við. Það er alltaf að sýna sig betur og betur, hversu miklu meiri nauðsyn er til þess, að verzlunarmenn okkar snúi athygli sinni að þeim, sem kaupa af okkur afurðir en þeim, sem selja okkur vörur. Hér hafa menn engan frið fyrir allskonar tilboðum á allra handa varningi frá ýmsum löndum, bæði gagnlegum vörum og ógagnlegum. En hinu snúa of fáir athygli sinni að, að vinna að því að koma framleiðsluvörum landsins til þeirra, sem geta notað þær og vilja af okkur kaupa.

Ég hefi heyrt þá mótbáru á móti þessari fjárveitingu, að Íslendingar hefði aðgang að dönskum kennslubókum í suðurlandamálum. Það er að vísu rétt, að þeir, sem kunna dönsku, geta notfært sér þær bækur, en þó að ég sé því ekki mikið kunnugur, hvernig mál eru lærð á skólavísu, þá þykist ég mega fullyrða, að það er miklu auðveldara að læra málin, ef kennslubækurnar eru á móðurmáli manns. Svo á það líka að vera metnaðarmál Íslendingum, að geta lært önnur mál án þess að þurfa að fá til þess danskar eða aðrar erlendar kennslubækur.

Ef forseti óskar eftir, þá get ég látið hér staðar numið nú og lokið við ræðu mína við framhald fundarins.

Ég vildi aðeins í bili bæta því við upplýsingar þær, sem ég gaf viðvíkjandi Þórhalli Þorgilssyni, að hann hefir undanfarna vetur haft nemendur í þessum málum, veturinn 1929–30 hafði hann 20 nem., en 1930–1931 hafði hann 30 nem. í spönsku og ítölsku. Það er álit þeirra manna, sem til þekkja, að hann sé mjög vel að sér í þessum málum og að kennslubækur hans muni vera mjög góðar og hagkvæmar. Þar er tekið tillit til hinna nýjustu aðferða við samninga slíkra bóka.

Ég vonast til þess, að hv. þdm. sýni stuðning sinn á nauðsyninni fyrir Íslendinga að læra spönsku og ítölsku á þann hátt, að þeir greiði götu þess, að kennslubækur verði gefnar út í þessum málum.

Þá vildi ég minnast á XIV. brtt., þar sem ég fer fram á, að þingið styrki ennþá lagning ræktunarvegar í Vestmannaeyjum gegn venjulegu framlagi úr bæjarsjóði Vestmannaeyja.

Fyrir nokkrum árum var Sigurður búnaðarmálastjóri sendur til Eyja til þess að athuga ræktunarmöguleika, og eftir það komst slíkur skriður á ræktunina, að hin svokallaða Hagajörð er útmæld og tekin til ræktunar, svo að það má segja, að fé það, sem þingið hefir lagt af mörkum, hafi borið góðan ávöxt. En það er ómögulegt að hagnýta landið, nema vegur verði lagður. Eftir að vegur var lagður, hefir Ofanleitishraun verið mælt út. Þegar lausagrjótið hefir verið tekið burtu, fást þar ágætir blettir, og er nú búið að setja upp langar girðingar og sumpart hlaða þær úr grjóti, og er hraungrjótið tilvalið til þess. En það, sem á vantar, er, að fullgerður verði vegurinn gegnum hraunið. Þingið hefir veitt styrk til þessa áður, og er nú farið fram á, að veittar verði 1200 kr. til að halda áfram ræktunarveginum.

Það er kunnugt, að Vestmannaeyjar eru stærsta þjóðjörðin, sem landið á, og síðan ræktunarframkvæmdir hófust þar, hefir afgjald lóðanna stórlega hækkað. Ég get bent á, að 1923 náði afgjaldið ekki 10 þús. kr., en nú nær það 20 þús. kr., en auðvitað breytist það nokkuð frá ári til árs eftir verðlagsskrá. En þessar tölur sýna, að það hefir á skömmum tíma tvöfaldazt. Hinar fjölmörgu útmælingar til nýrrar ræktunar eiga sinn þátt í hækkuninni. Það er orðið svo margt fólk í Eyjum, að ekki er hægt að láta svo að kalla nokkurn blett þar óræktaðan. Ég vonast til, að hv. d. samþ. þessa upphæð vegna þess, að hún beinlínis eykur tekjur ríkissjóðs er frá líður.

Ég hefi minnzt á till. þær, sem ég er fyrsti flm. að, og mun láta hér að mestu staðar numið um þær. Ég ætla aðeins að minnast á tillögu, sem ég og hv. 2. þm. Reykv. flytjum um allmikil fjárframlög til atvinnubóta í kaupstöðum. Vegna þess, að hv. 2. þm. Reykv. er líka flm. till. og mun gera hana að sérstöku umræðuefni, þá mun ég ekki frekar fara út í það mál. Ég vil aðeins geta þess, að við teljum nauðsyn á, að gerðar séu ráðstafanir til að mæta atvinnuleysi, sem yfir vofir í kaupstöðum og víðar. Ég býst við, að seinna gefist tækifæri til að koma nánar inn á þetta mál.