27.07.1931
Neðri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

1. mál, fjárlög 1932

Bjarni Ásgeirsson:

Ég á tvær brtt. við fjárlagafrv. Sú fyrri er um fjárveiting til Björns Þórólfssonar til þess að semja skrá um skjöl, er Ísland varða og geymd eru í skjalasöfnum í Kaupmannahöfn, enda fái Þjóðskjalasafnið afrit af skránni. Eins og kunnugt er, hefir Björn notið 1500 kr. styrks til þessa. Hann sótti upphaflega um 2500 kr., en styrkurinn var færður niður í 1500 kr. Vegna þess, að dregið var úr styrknum, hefir Björn ekki getað lagt eins mikla vinnu í það og ella og því hefir dregizt að ljúka við verkið. En það er mikill fjöldi af skjölum, sem eru markverð fyrir menningarsögu Íslands, sem Björn hefir fundið. Starfið er svo langt komið, að það er nauðsynlegt að ljúka því sem fyrst, sem hann líka hefir lofað fyrir styrk þann, sem hér er farið fram á. — Annars má benda á það, að Björn er alls góðs maklegur fyrir störf sín í þágu ísl. fræða. Má m. a. minnast á, að hann hefir haft með höndum rannsóknir á rímunum og kemur bráðlega út um það bók, sem kunnugir telja, að verða muni stórmerk. Hann var frumkvöðull að því, að Norðmenn lofuðu að veita Íslendingum ókeypis samrit af öllum skjölum, sem þar eru geymd. Ég vil því mæla hið bezta með, að honum verði veittur þessi lokastyrkur.

Önnur brtt., sem ég á með öðrum hv. þm., er, að veittar verði 2000 kr. til Skáksambands Íslands. Ég býst ekki við, að þessi styrkur sé neitt vel séður, þar sem atvinnuvegirnir eru í svo miklu öngþveiti. En ég vil minnast á það, að maðurinn lifir ekki á einu saman brauði, þó að það sé hið nauðsynlegasta. Og alveg eins og það er víst, að sú kreppa, sem gengur nú yfir hér, gengur yfir öll lönd — og er hér gestur utan úr heimi — er það að íslenzka þjóðin verður að njóta samúðar frá öðrum löndum í baráttu sinni fyrir lífinu, en það getur hún því aðeins, að hún geti sýnt, hvað í henni býr af gáfum og dugnaði. En ástæðurnar til að sýna það eru erfiðar. En á nokkrum sviðum getur hún sýnt það og það er þá helzt á hinum andlegu sviðum. Eitt af þeim fáu sviðum, sem Íslendingar geta sýnt sig á, er nú einmitt tafllistin, því að þar koma vitsmunirnir til greina fremur en höfðatalan. Ísl. hafa sýnt erlendis, að þeir eru góðir taflmenn og hafa skapað þjóðinni samúð og álit. Ég get talið nokkur dæmi þessu til sönnunar. Efnt hefir verið til kappskáka milli Ísl. og Dana með þeim árangri, að Ísl. sigruð með 1½:½. Einnig hafa Ísl. unnið Norðmenn með 1½:½. Á heimstaflmóti erlendis gátu Ísl. sér hinn bezta orðstí eftir blaðaummælum að dæma. Því til sönnunar skal ég geta þess, að sá Íslendingur, sem hafði flesta vinninga, vann 7½ skákir af 17. Til samanburðar má geta þess, að Karl Bendtsen hafði ekki nema 8 af 16, og hinn heimsfrægi Englendingur Sir Thompson hafði 5½ af 12. Þetta sýnir, að Íslendingar standa nokkurnveginn á sporði öðrum þjóðum í þessari íþrótt, þótt aðstaðan sé miklu örðugri. Hinir ísl. taflmenn eru flestir fátækir daglaunamenn og iðnaðarmenn og geta því ekki varið miklum tíma til æfinga. En þarna mættu margir hinir merkustu taflmenn frá ýmsum þjóðum, sem ekki gera annað en tefla, og sýnir þetta því vel, hverjir vitsmunamenn Ísl. eru. Það er sómi fyrir Íslendinga að sýna sig þar, sem þeir standa jafnfætis öðrum þjóðum. Ég vildi því mælast til, að Alþingi sjái sér fært að sjá af þessari litlu upphæð til Skáksambandsins.