07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

7. mál, búfjárrækt

Jón Baldvinsson:

Við umr um fjárl. í Nd. í gær, bar hæstv. fjmrh. fram brtt., sem fól í sér heimild handa stj. til þess að draga allt að 25% af þeim fjárveitingum fjárl., sem ekki eru lögboðnar eða samningsbundnar, ef stj. álítur þess þörf sökum fjárhagsörðugleika.

Þetta er mjög alvarleg till. og hefir í för með sér mikinn niðurskurð á þeim litlu framkvæmdum, sem gert er ráð fyrir í frv. stj. Það er alveg víst, að útgjaldalækkun þessi lendir nær eingöngu á verklegu framkvæmdunum, og með því er þá stigið stórt spor í þá átt að skapa erfiða afkomu og jafnvel neyð hjá þeim, sem undanfarið hafa notið þessarar vinnu.

Þetta frv. um búfjárrækt, sem er nú til síðustu umr. hér í d., fer fram á aukin útgjöld úr ríkissjóði til landbúnaðarins um 20–30 þús. kr. á ári fyrst um sinn eftir því sem hv. þm. Mýr. sagði. En hann gerði ráð fyrir, að þessi upphæð myndi innan skamms nema hundruðum þúsunda. Það yrði alls ekki langt þangað til hún kæmist upp í 150–200 þús. kr., vegna þess að fleiri og fleiri vildu auðvitað nota sér þau hlunnindi, sem frv. veitir bændum landsins.

Þegar svo alvarleg tíðindi gerast, eins og hæstv. fjmrh. hefir sjálfsagt orðað það, þegar hann bar fram þessa brtt. í Nd., að draga þarf úr verklegum framkvæmdnm ríkisins vegna fjárskorts, þá er sannarlega ekki ástæða til þess að setja af stað nýja útgjaldabálka, heldur fresta því svo lengi sem menn hyggja, að þetta erfiða ástand muni vara. Hv. 1. þm. Reykv. og ég höfum því borið fram brtt. um að fresta framkvæmd þessara laga til ársins 1933. Það er gert ráð fyrir því í brtt. okkar, að lögin komi því aðeins til framkvæmda 1. júlí 1933, að verklegar framkvæmdir á árinu 1932 hafi eigi verið minni en fjárl. gera ráð fyrir. Þessi till. er í anda og samkv. stefnu stj. og flokks hennar, svo að ekki ætti að vera nein mótstaða frá þeirra hálfu um að fresta að koma þessum lögum í framkvæmd og frelsa þannig ríkissjóð frá auknum útgjöldum. Það hefir sýnt sig, að þótt byrjað sé í smáum stíl á slíkum útgjöldum, sem frv. þetta fer fram á, þá vaxa þau afarört, sökum hinna víðtæku ákvæða laganna.

Við leggjum því eindregið til, að frv. verði samþ. með þessum breyt., sem við berum fram.

Ég vona, að Framsóknarfl. verði sjálfum sér samkvæmur viðvíkjandi meðferð frv., eins og hann hefir verið við afgreiðslu fjárl., og samþ. því þessa brtt. okkar.