07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

7. mál, búfjárrækt

Páll Hermannsson:

Hv. 2. landsk. er aðalflm. að brtt. við frv. um búfjárrækt. Þessi sami hv. þm. hefir átt sæti í landbn. þessarar d. um nokkurt skeið, og því er ekkert undarlegt, þótt fram komi frá honum till., sem snerta landbúnaðinn, en þessi brtt., sem hann nú kemur fram með, er að mínu viti algerlega misheppnuð og afarundarleg, með tilliti til þess, að hv. flm. hefir jafnmikla æfingu í landbúnaðarmálum.

Það, sem ég sérstaklega set út á till., er það, að ég álít, að hún sé í raun og veru ekki miðuð við eða orðin til vegna þessa búfjárræktarfrv., heldur vegna afgreiðslu fjárl. í gær. Ég kann illa við það, að samþ. brtt. við ákvæði frv., sem miðað er við allt annað mál. Svo er nú brtt. sjálf þannig vaxin, að ég held, að hún sé mjög óvenjuleg. Það er tekið fram í till., að lögin um búfjárrækt skuli ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. júlí 1933. Þetta út af fyrir sig er ekki athugavert, en svo er sett skilyrði fyrir því, að ef verklegar framkvæmdir ríkisins verði minni en í fjárl. er ætlað á árinu 1932, þá eigi lögin, að mér skilst, aldrei að koma til framkvæmda. Þetta er að mínum dómi afaróeðlileg og óvanaleg brtt., og ég mun gera mitt til þess að hún verði felld.

Ef hv. flm. líta svo á, að frv. sjálft eigi að standa eða falla með þessari brtt., þá eiga þeir um það við sjálfa sig. Ég ætla, að það stafi þá af því, að þeir geti ekki fallizt á, að þær umbætur, sem í frv. felast, séu kaupandi svo dýru verði sem fyrir þær þarf að koma.

Það, sem hv. l. flm. benti á í sambandi við þau útgjöld, sem ætla mætti, að frv. hefði í för með sér, skal ég ekki deila neitt um við hann, hve mikil þau kunna að verða þegar fram líða stundir, en hitt held ég hljóti að vera fjarri sanni, að fyrst um sinn þurfi að nefna þær upphæðir í þessu sambandi, sem hann nefndi. 150–200 þús. kr. á ári.