07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

7. mál, búfjárrækt

Magnús Torfason:

Þessi till., eins og hún er orðuð hér, er varla frambærileg, því að ef það skilyrði kemur fram, sem í till. er sett, að verklegar framkvæmdir árið 1932 verði minni en samkv. fjárl. það ár, þá koma lögin aldrei til framkvæmda, jafnvel þó að árið 1933 yrði mokár að tekjum. Þetta nægir til þess, að þeir, sem nokkuð leggja upp úr þessu frv., geta ekki gengið að þessari till.

Þá skal ég svara hv. 2. landsk.— Það, sem hann sagði um þessa till., hafði við nokkuð að styðjast að sumu leyti, en ekki að sumu leyti. Það stendur svo á því, að slík lög sem þessi eru ekki aðeins til útgjalda, heldur eru þau líka tekjulög. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég hefir svo mikla trú á þessum lögum til bóta fyrir landbúnaðinn og til fjáröflunar fyrir þá atvinnugrein, að þetta verði undirstaða fyrir allmiklar tekjur ríkissjóði til handa í framtíðinni. Frá þessu sjónarmiði verður að líta svo á, að við verðum að leggja kapp á, að lögin gangi sem allra fyrst í gildi.