07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

7. mál, búfjárrækt

Jón Baldvinsson:

Hv. 2. þm. Árn. sagði, að þessi till. væri ekki frambærileg, því að samkv. henni kæmu þessi lög aldrei til framkvæmda, ef þau ættu ekki að koma fyrst til framkvæmda 1933. En það koma væntanlega saman tvö þing þangað til lögin féllu niður samkv. þessu, svo að þau þing gætu eftir ástæðum breytt þessu.

Hv. 2. þm. Árn. gerði jafnvel ráð fyrir því, að fjárl. mundu ekki verða framkvæmd samkvæmt áætlun árið 1932. En ef ekki er nægilegt fé til að framkvæma áætlun fjárl., þá er sannarlega ástæða til að láta þetta frv. ekki koma til framkvæmda á því ári, svo að á þann hátt er till. fullkomlega frambærileg, — eða hefir það enga þýðingu í augum hv. 2. þm. Árn., ef ekki er hægt að framkvæma fjárl.?

Hv. þm. sagði, að þetta væru líka tekjulög; þau mundu verða til fjáröflunar fyrir landbúnaðinn og ríkissjóði þannig til styrktar. Það er vitanlega svo með allan slíkan stuðning, að hann er til óbeins fjárafla fyrir ríkissjóð. Það má einnig segja þetta um það fé, sem fer til verklegra framkvæmda, að það kemur aftur nokktir hluti af því í ríkissjóð, af því þeir, sem fá þar atvinnu við, kaupa fyrir það ýmsar nauðsynjar, sem ríkissjóður hefir fengið gjald af. Sama er að segja um t. d. vegi, sem eru lagðir til að gera mönnum alla framleiðslu auðveldari, svo að það er ekkert sérstakt með þetta búfjárræktarfrv. En það er ekkert tekjuaukafrv., eins og hv. 2. þm. Árn. veit vel, heldur er hér aðeins um óbeinan hagnað að ræða. En spurningin er, hvort ekki megi fresta þeim útgjöldum, sem frv. felur í sér, þegar fjárl. eru afgr. með þeim ummerkjum, sem Nd. hefir nú gert.