07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

7. mál, búfjárrækt

Páll Hermannsson:

Það er í sjálfu sér gagnslaust að vera að elta ólar um þetta við hv. 2. landsk. Ég tel víst, að hv. þdm. hafi áttað sig á því, sem hér er að gerast. Það er misskilningur hjá hv. 2. landsk., að ég væri að sneiða að honum og hans störfum í landbn.; samskonar misskilningur og þau orð, sem hann beindi til mín. Hv. þm. sagði, að ég væri lærður búfræðingur, en ég hefi aldrei komið í búnaðarskóla. En ég ætlaðist til þess af hv. þm., af því hann hefir átt sæti í landbn. og að jafnaði reynzt þar vel, að till. hans í landbúnaðarmálum væru bornar fram með hliðsjón af þeim málum — landbúnaðarmálunum — og í fullri alvöru, og að hann geri sér grein fyrir, hvort þær umbætur, sem í frv. felast, séu þess verðar, að lagt sé út fyrir þær það fé, sem frv. gerir ráð fyrir. Hann hefir ekkert um þetta talað, heldur verið aðallega að tala um fjárl. Það situr því illa á honum að tala um, að aðrir komi ekki með rök. Hinsvegar álít ég það, að það sé ekkert aðalatriði, hvort þessi lög koma fyrst til framkvæmda 1932 eða 1933. Hitt er aðalatriðið, hvort þau koma nokkurntíma til framkvæmda, en auðvitað bezt sem fyrst.