27.07.1931
Neðri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

1. mál, fjárlög 1932

Einar Arnórsson:

Ég á ásamt hv. þm. Vestm. eina till. við 16. gr. fjárlaganna, þar sem er farið fram á nokkuð mikla fjárveitingu. En áður en ég vík nánar að henni, þykir mér hlýða að gera grein fyrir því, að hún er ekki borin fram út í bláinn. Ég ætla að reyna að sýna fram á, að það sé kostur á að veita féð og þörf á því. Viðvíkjandi fyrra atriðinu vil ég taka það fram, að tekjuáætlun hæstv. stj. virðist vera mjög gætileg. Á fyrri tímum var það ein af hinum æðstu fjármáladyggðum, að áætla tekjurnar varlega. Þetta var venja þá, en það var tekið fram, að ef tekjurnar yrðu meiri, þá ætti afgangurinn að renna í Viðlagasjóð. Það var því ákveðið, að tekjuafgangnum skyldi ekki eyða. Þessari gömlu dyggð, að áætla tekjurnar varlega, hefir verið haldið. En hinni dyggðinni, að eyða ekki meiru en fjárlög heimila, hefir ekki verið haldið jafnvel í seinni tíð.

Með því að áætla tekjur fyrir neðan það, sem þær eru líklegar til að verða, er í raun og veru stefnt að því að flytja fjárveitingavaldið frá Alþingi til stjórnarinnar, eins og reyndin hefir orðið á seinustu árunum. Ástæðan fyrir þessari varlegu áætlun teknanna er því í raun og veru ekki dyggð. Það má búast við því, að fénu verði samt eytt, að svo miklu leyti sem það kann að verða meira en áætlað er. Þetta er því nú ekki slíkur búhnykkur sem fyrr.

Ef tekjuáætlunin er borin saman við síðustu skýrslu, sem ég hefi, en það er landsreikningurinn 1929, þá er mikill munur á. Ég hefi talið saman, að aðaltekjuliðirnir er áætlaðir nær 3 millj. kr. lægri en það, sem inn kom 1929. Margir af liðunum eru svo lágt áætlaðir, að þeir hljóta að fara fram yfir áætlunina. En þó eru margir tekjuliðirnir, sem í raun og veru má telja áreiðanlega, og því er ekki ástæða til að áætla þá stórum lægra en það, sem galzt inn á þá 1929. Aftur á móti eru aðrir, sem sjáanlega verða lægri en reyndin varð 1929.

Ég ætla að nefna nokkur atriði í tekjuáætlun hæstv. stj. Aukatekjurnar reyndust 1929 610 þús. kr., en eru nú áætlaðar 500 þús. kr., en ég sé enga ástæðu til að ætla, að tekjur verði verulega lægri á þeim lið.

Ekki er ástæða til að ætla, að skipaferðir minnki að ráði hér við land. Þá sé ég ekki ástæðu til að ætla, að stimpilgjöld lækki og sama má segja um ýmsa aðra liði. Það er ekki heldur líklegt, að fólk neyti minna kaffis eða tóbaks 1932 heldur en 1929, nema því aðeins, að um neyðarástand verði að ræða eða takmarkanir verði gerðar á innflutningi þessara vörutegunda. — Vörutollur reyndist 2 millj. 50 þús. kr. 1929. en er nú áætlaður 1 millj. 450 þús. kr., og er því gert ráð fyrir honum 600 þús. kr. lægri en þá. Verðtollur gaf þá ca. 2 millj. 270 þús. kr., en er nú áætlaður 20 þús. kr. lægri. Og svona mætti lengi telja.

Símatekjur eru áætlaðar svipaðar og 1929. En eftir því sem fleiri símar eru lagðir og símakerfið verður fullkomnara, geri ég ráð fyrir því, að þær tekjur aukist. — Ágóði af ríkisprentsmiðjunni er áætlaður 40 þús. kr., en það hefi ég frá manni, sem um það á að vera kunnugt, að síðastl. ár hafi hún gefið 80 þús. kr. í arð. Er nokkur ástæða til þess að ætla, að hún gefi nú helmingi minna af sér en síðastl. ár? — Ágóði af víneinkasölunni var 1929 1 millj. 25 þús. kr., en nú er ágóði af henni áætlaður 650 þús. kr. Það væri að vísu mjög æskilegt, að Íslendingar neyttu minna víns 1932 en þeir gerðu 1929, en ég efast um, að raunin væði sú.

Þegar ég lít yfir tekjuáætlun fjárlaganna, þá þykir mér líklegt, að tekjur verði stórum meiri en áætlað er, þótt ekki sé ef til vill rétt að vera svo hjartsýnn að álíta, að þær verði 3 millj. meiri, þótt svo yrði 1929. Hæstv. stj. hefir í frv. ekki viljað eða ekki þorað að stinga upp á miklum fjárveitingum til verklegra framkvæmda. Ef hún hefir trúað því, að tekjuáætlun hennar sé rétt, þá er hún ákaflega svartsýn á ástandið, og á þeirri svartsýni hennar byggist það, að hún hefir ekki séð neina möguleika til verklegra framkvæmda. — En nú er þannig um sumar verklegar framkvæmdir, að þær mega alls ekki bíða. Vegir margir hafa verið lagðir síðasta kjörtímabil, skólar reistir og brýr byggðar. En það er ekki nóg að leggja fé í að reisa mannvirki, það þarf líka að halda þeim við, — þótt talið sé, að vegir séu svona og svona víða bílfærir, þá eru þeir það í raun og veru ekki, heldur eru þeir í hinu hörmulegasta ástandi. Sumpart kemur það til af því, að þeir voru ekki í öndverðu byggðir með nútímafarartæki fyrir augum. En jafnvel þeir, sem lagðir hafa verið á síðustu árum, eru ekki heldur lagðir sem skyldi. Sumpart eru vegirnir svo ómögulegir sem þeir eru fyrir þá sök, að þeim er ekki nægilega haldið við. Þarf ekki annað, til að sannfærast um að svo sé, en að fara um vegina hér í nágrenninu, sem mest eru notaðir. — Þær 200 þús. kr., sem áætlaðar eru til vegaviðhalds, að viðbættum bifreiðaskattinum, munu því alls eigi nægja til þeirra hluta. Jafnvel þótt brtt. fjvn. um 400 þús. kr. veitingu nái fram að ganga, þá er sú upphæð ekki nægileg til þess viðhalds, svo að viðunanlegt sé. Vegamálastjóri hefir talið 500 þús. kr. það minnsta til nauðsynlegs viðhalds. Þá er það þó 100 þús. kr. lægra en talið er nauðsynlegt af þeim manni, sem mesta þekkingu hefir á þessum málum.

Þær brtt., sem bornar eru fram við þessa umr. til hækkunar á gjaldahlið fjárlagafrv., nema 2 millj. 200 þús. kr. En þar í er ekki talin 300 þús. kr. brtt., sem þrír hv. þm. hafa borið fram og gengur í líka átt og okkar brtt. Fyrsti flm. hennar lýsti yfir því, að hann tæki hana aftur, ef okkar næði fram að ganga.

Nú dettur mér ekki í hug, að allar þær brtt., sem miða að auknum framkvæmdum, nái fram að ganga, en þótt svo væri, þá væru samt afgangs 800 þús. kr., ef gert væri ráð fyrir sömu tekjum og 1929.

En nú er einn liður í fjárlögunum, sem er algert nýmæli. Það er til fyrningar á fasteignum ríkisins. Til þess eru áætlaðar 350 þús. kr.

Nú er það svo, að einstaklingar og félög reikna fyrningargjald, þegar talið er fram til skatts. Þetta er vitanlega alveg rétt bókhaldslega. Þeir þykjast leggja ákveðnar upphæðir í fyrningarsjóð, en þá þýðir það það, að þær upphæðir eru ekki útborgaðar t. d. til hluthafa. En þær eru ekki lagðar í sparisjóðsbók og geymdar þannig, heldur eru þær notaðar til viðbótar rekstrarfé fyrirtækisins næsta ár.

Þannig mun einnig verða með þessa upphæð í fjárlögunum. Ég geri ekki ráð fyrir, að þetta fé verði lagt í bankabók, heldur verði það tekið til rekstrar á næsta ári, eins og myndi vera gert hjá félögum og einstaklingum. (MG: Er ekki upphæðin færð til baka?). Jú, hún er færð til baka í sjóðsreikningnum, en í rekstraráætlun (þ. e. í gjaldahlið fjárlagafrv.) er hún talin með gjöldum, eins og einstaklingar gera í sínum rekstri.

Þá vík ég að brtt., sem við höfum borið fram við 16. gr. fjárlaganna. Það ber víst enginn brigður á það, að allmikið atvinnuleysi vofi yfir með komandi hausti og sé jafnvel byrjað nú þegar. Og ég geri ekki ráð fyrir, að við séum svo bjartsýnir, að við gerum ekki ráð fyrir, að atvinnuleysið verði samt sem áður enn meira á næsta ári. Þetta mikla böl, sem aðrar þjóðir hafa haft við að stríða, er nú byrjað hér. Það byrjaði í raun og veru í fyrra, en er nú orðið ennþá verra og útlit fyrir, að það fari versnandi. Og fari svo, að hið opinbera dragi mjög úr framkvæmdum, þá verður atvinnuleysið því tilfinnanlegra. Aðrar þjóðir hafa gert ýmsar ráðstafanir til bjargar í þessum efnum, svo sem með sjóðsstofnunum, sem gripið er til, þegar atvinnuleysi ber að höndum, og atvinnuleysisstyrkjum af hálfu ríkisins. En við eigum ekkert af slíku. Við eigum ekkert annað til að vísa þeim á, sem við atvinnuleysi hafa að búa, en þetta eina: að leita á náðir sveitar- eða bæjarstjórna. Það er eina úrræðið, sem löggjöfin vísar okkur á. En það er neyðarúrræði, því að fyrst og fremst er það, að þágu sveitarstyrks er, eða getur verið, samfara réttindamissir. Og það er hart aðgöngu að missa mannréttindi sín fyrir það, að geta ekki fengið að vinna. Þegar þannig verður alls ekki sagt, að það sé mannanna sök sjálfra, þótt þeir séu bjargarlausir, þá getur ekki á neinn hátt talizt réttmætt, að þeir fyrirgeri mannréttindum fyrir það.

Í sambandi við þetta tel ég rétt að minnast á það, að aðrar þjóðir hafa sett ýmsar reglur um innflutning og víst erlendra verkamanna. Við eigum lög frá 1920 um eftirlit með innflutningi útlendinga, og með lögum frá 1927 er bannað að ráða erlent verkafólk til vinnu hér á landi, nema með vissum undantekningum. Ef menn vilja flytja verkafólk inn í stórum stíl, verður að leita leyfis stjórnarinnar, svo sem t. d. var með norsku verkamennina, sem komu til vinnu að síldarbræðslunni í Krossanesi. En hitt er algerlega óhæft, svo sem hér hefir verið, að fólk komi hingað frá ýmsum löndum og taki sér hér bólfestu án nokkurs leyfis eða eftirlits. Vil ég leyfa mér að skjóta því til hæstv. stj., að hún heiti þessum tvennum lögum meira en gert hefir verið. Því að auðsætt er, að ef útlendingar koma hingað og ráða sig til vinnu, sem innlendir menn geta af höndum leyst, þá gerir það ástandið ennþá verra. Í Englandi eru t. d. ákvæði um það, að enginn útlendingur fái atvinnu við nokkur störf, og bannað er mönnum því meira að segja að taka útlenda stúlku fyrir kaup í hús sitt. Hér er eitthvað annað. Ég veit ekki betur en að hér séu menn algerlega sjálfráðir að því að taka útlenda menn í þjónustu sína, og útlendingar alveg sjálfráðir að því að koma hingað í atvinnuleit. Að vísu er það svo, að í húsaleigufrv. því, sem hæstv. forseti þessarar deildar ber fram, er sagt, að utanbæjarmenn geti ekki fengið leigt hér í bæ, og af því má draga þá ályktun, að það nái einnig til útlendinga. En ákvæðin ná ekki nema til Reykjavíkur. En ef það á að meina samlöndum vorum að fá leigt hér, því þá ekki að banna innflutning erlends verkafólks, meðan sakir standa eins og nú er.

Mikið af tekjum ríkissjóðs eru fengnar með hinum svonefndu óbeinu sköttum eða tollum. Þessa tolla borga allir jafnt, sem hinar tolluðu vörur þurfa að kaupa, fátækir jafnt sem ríkir. Tollar eru háir á ýmsum nauðsynjavörum, sem menn komast ekki hjá að kaupa. Kaffi verður t. d. að teljast nauðsynjavara og tóbak jafnvel líka. Frá mínu sjónarmiði er það því ekki fráleitt, að ríkið hlaupi undir bagga, þegar neyðin ber að dyrum, og leggi fram fjárupphæðir og hjálpi um vinnu þeim, sem vinnu þurfa að fá.

Mér dettur ekki í hug, þótt samþ. verði brtt. sú, sem hv. þm. Seyðf. og flokksbræður hans bera fram, að bætt verði til hlítar út atvinnuleysisvandræðunum. Hitt veit ég, að ef okkar till. verður samþ., þá verður það mjög mikill léttir sveitar- og bæjarfélögum þeim, sem í hlut eiga. Þótt Alþingi samþykki okkar till., þá er það víst, að sveitar- og bæjarfélögin munu leggja mikið fé fram á móti. Um þessi mál verður að vera samvinna milli ríkis og bæjarfélaga. Mér dettur ekki í hug að neita því, að erfitt verði að koma fyrir því fé, sem hér um ræðir. En okkur þótti það heppilegasta fyrirkomulagið, að stj. ákveði, hvert féð fari, eftir skýrslum, sem fyrir liggja. Það á ekki að vera vandkvæðum bundið að fá skýrslur yfir atvinnulausa menn. Hinsvegar getur stj. ekki ákveðið, hvort Pétur eða Páll á að fá vinnuna, heldur þeir, sem bezt þekkja til á hverjum stað. Þess vegna leggjum við til, að bæjarstjórnir ráði því í samráði við verklýðsfélögin á staðnum, hverjir vinnuna fá. Það geta verið í tölu atvinnulausra verkamanna einhverjir svo stæðir, að þeir hafi samt nægilegt fyrir sig að leggja. En það er engin von til þess, að stj. geti sagt, hverjir eru maklegastir. Sömuleiðis er sjálfsagt, að sömu stjórnarvöld ráði um það, hvað vinna skuli. Það er margt ógert, bæði sem ríki og bæjarfélög þurfa að láta vera, og verður þess vegna heppilegast, að ríkisstj. ákveði, hvað vinna skuli í samráði við hlutaðeigandi sveitar- og bæjarstjórnir.

Ég held, að ég þurfi ekki að svo komnu að fara fleiri orðum um þetta mál. Það véfengir enginn nauðsynina á atvinnubótunum. Hitt má e. t. v. segja, að ríkissjóði beri ekki lögskylda til að sjá fyrir þeim, sem í nauðum eru staddir sökum atvinnuleysis, heldur sé það sveitarsjóðanna að taka við þeim, og sömuleiðis, að ríkissjóður hafi ekki efni á þessu. En við nánari athugun býst ég við, að hvorugt verði svo þungt á metunum, að það vegi á móti hinni brýnu nauðsyn, og vænti ég því, að hv. þdm. muni greiða þessari brtt. okkar atkv.