07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

7. mál, búfjárrækt

Pétur Magnússon:

Það er hjákátlegt að heyra hv. 2. landsk. rökstyðja þessa brtt. sína með því, að ríkissjóði eigi að sparast útgjöld með þessu. Hann hefir í öllum ræðum sínum talað um, að með þessu mætti spara ríkissjóði 150–200 þús. kr. En hv. frsm. landbn. tók fram við 2. umr., að sá maður, sem bezt þekkir til þessara hluta, hefði upplýst landbn. um það, að þessi kostnaður mundi verða nálega 20 þús. kr. árið 1932. Ég hefi nú hlustað á ræður hv. 2. landsk. og hann hefir alltaf verið að tala um þennan stórkostlega kostnað, sem þessi lög hefðu í för með sér. Þó að hagur ríkissjóðs sé nú öðruvísi en æskilegt er, þá gera þessar 20 þús. hvorki til né frá. Það vildi svo vel til, að ráðunautur sá, sem með þessi mál hefir að gera, var nú staddur í næsta herbergi, og ég bar undir hann, hvort það væri ekki rétt skilið, að kostnaðurinn mundi verða um 20 þús., og hann játaði því.

Þá vil ég benda á annað, sem ekki hefir verið hreyft við hér áður, að það er óheppilegt, að lögin komi til framkvæmda á miðju ári, af því að mikill hluti af þeim gjöldum sem til búfjárræktarinnar færu, gengur í gegnum Búnaðarfél., en eftir brtt. á þskj. 219 ætti kostnaðurinn við búfjárræktina 1933 að skiptast milli Búnaðarfélagsins og ríkissjóðs. Ég ætla, að þetta mundi verða mjög óheppilegt. og get ekki komið auga á, hvaða ástæða er til að gera þetta. Það væri þá skynsamlegra að fresta framkvæmdinni til l. jan. 1934.