10.08.1931
Neðri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

7. mál, búfjárrækt

Lárus Helgason [óyfirl.]:

Vegna ummæla hv. þm. N.-Ísf. um þetta frv., ætla ég að segja hér nokkur orð.

Ég legg það til, að þessu frv. verði ekki vísað til n. Er það af þeirri ástæðu, að landbn. hafði frv. til meðferðar á síðasta þingi, og síðan hefir því ekki verið breytt svo neinu nemi. Það er því ekki til annars en að tefja málið, ef á að vísa því til nefndar.

Hv. þm. N.-Ísf. vakti hér máls á því, hver kostnaður myndi verða vegna hrossahalds, ef þetta frv. yrði samþ. Því er þar til að svara, að það eru nú í gildi lög um kynbætur hrossa, og þau lög geta haft svipaðan kostnað í för með sér eins og ef þetta frv. yrði að lögum.

Hv. þm. talaði um, að minna væri gert með hross nú, síðan bílarnir komu, en áður var. Þetta er rétt, og ég álít, að landsmenn eigi að stefna að því að fækka þeim, en þá jafnframt að bæta þau, en til þess þarf að bæta meðferð þeirra og kyn. Það er því ekki rétt að vera á móti því að bæta hrossakynið sem mest. Þetta land er svo stórt og hefir svo slæma vegi, að það mun alltaf þurfa mikið af hrossum. Er því full þörf á að bæta þau, því einn hestur af góðu kyni getur með góðri meðferð afkastað eins miklu og 2 aðrir hestar.

Loks vil ég endurtaka það, að það er ekki til annars en að tefja málið, ef því væri nú vísað til nefndar.